BNA taka upp útflutningsbætur á mjólkurvörur

Ákvörðun bandarískra yfirvalda um að greiða mjólkurbúum útflutningsbætur í fyrsta sinn í fjögur ár hefur vakið mikla reiði innan ESB og hjá Nýsjálendingum. Bandaríkin hyggjast aðstoða mjólkurframleiðendur með því að greiða útflutningsbætur á 92 þús. tonn af mjólkurvörum til útflutnings þar sem heimsmarkaðsverð hefur fallið.
Mariann Fischer Boel, landbúnaðarstjóri ESB, segir þessa ákvörðun óréttláta þó svo ESB geri raunar slíkt hið sama, þ.e. greiði útflutningsbætur. Að sögn hennar tók ESB ekki upp útflutningsbætur að nýju fyrr en að lokinni athugun á áhrifum þess á markaðinn.

Tom Vilsack, landbúnaðarráðherra BNA, segir útflutningsbæturnar tilkomnar vegna þess að útflutningsbætur ESB hafi lækkað verð á heimsmarkaði og því nauðsynlegt fyrir BNA að grípa til aðgerða. ESB hafi í janúar byrjað að niðurgreiða smjör, ost og undanrennuduft eftir að hafa hætt því árið 2007 þegar heimsmarkaðsverð var mjög hátt.


The National Milk Producers í BNA hafa lýst yfir ánægju með ákvörðun stjórnvalda og að sögn forseta samtakanna, Jerry Kozak, duga bæturnar til þess að flytja út sem samsvarar 750 milljón kg mjólkur.


Kollegi hans, Tom Suber, segir að eftir sem áður sé það stefna BNA að styrki og útflutningsbætur eigi að afnema en þegar yfir gangi kreppa geti þurft að grípa til aðgerða sem þessara.


Kelvin Wickham, forstjóiri Fonterra á Nýja-Sjálandi, segist vonsvikinn yfir ákvörðun BNA. „Það eru slæm tíðindi fyrir markaðinn og nýsjálenska bændur sem keppa á heimsmarkaði án nokkurra styrkja“, segir hann. Hann segir ennfremur að verðið hafi verið mjög lágt um nokkurra mánaða skeið og nú hafi markaðurinn verið að ná jafnvægi. Útflutningsbætur BNA skapa óróa á markaði að nýju, segir Kelvin.


Samkvæmt þessu má ljóst vera að stóru landbúnaðarþjóðirnar grípa til hverra þeirra aðgerða sem þeim sýnist til þess að verja sig og sína óháð öllum fyrri yfirlýsingum eða stefnu. BNA hafa lengi barist gegn útflutningsbótum ESB og verndartollum þeirra en grípa til sömu meðala þegar harðnar á dalnum hjá þeim. Það er því nokkuð ljóst að samningar eins og WTO-viðræðurnar hafa tekið og munu fyrst og fremst taka mið af hagsmunum þeirra þjóða. BNA og ESB munu seint eða aldrei samþykkja neitt sem kemur þeim illa á alþjóðavettvangi og kann að ganga þvert á beina viðskiptahagsmuni þeirra.


back to top