Bjargráðasjóður hefur greitt um 65 milljónir í bætur

Bjargráðasjóður hóf greiðslur vegna tjóna af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli um miðjan júnímánuð síðastliðinn og hefur greitt út bætur jafnt og þétt frá þeim tíma. Verkefni sjóðsins vegna eldgossins eru margvísleg. Stærstu liðirnir eru tjón á ræktarlandi, tjón á girðingum, hreinsun skurða, hagaganga, kaup og flutningar á heyi og flutningar á búfé. Einnig eru dæmi um að slíkt magn eðju hafi farið yfir ræktarland að nauðsynlegt hefur reynst að fjarlæga hana áður en hægt hefur verið að ráðast í endurrækt.

Þó að gosinu í Eyjafjallajökli sé ekki formlega lokið hefur það ekki áhrif á greiðslur bóta úr Bjargráðasjóði. „Við skilgreindum tjónið í upphafi, ráðherra setti reglur 7. maí síðastliðinn og út frá því höfum við mótað frekari vinnureglur. Það er ekkert greitt nema samkvæmt úttekt okkar trúnaðarmanna, héraðsráðunauta“, segir Árni Snæbjörnsson framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs.


Tímamörk til 7. maí 2011
Árni segir að búið sé að kortleggja tjón af völdum gossins í megindráttum en þó sé það ekki algilt. „Í reglum sjóðsins er gert ráð fyrir að ár megi líða frá tjóni þar til umsókn um aðstoð vegna tjóns berst til Bjargráðasjóðs. Ráðherra gaf út reglugerð varðandi gosið 7. maí síðastliðinn og við lítum svo á að tímamörkin miðist við 7. maí 2011. Það er til að mynda ekki ólíklegt að til komi einhverjar bætur vegna endurræktunar næsta vor, ekki síst í ljósi hættu á frekari flóðum í haustrigningum eða leysinga í vor.“


Tilkynnt um tjón á 30 lögbýlum
Bjargráðasjóður hefur þegar tekið við tilkynningum um tjón frá um þrjátíu lögbýlum. Í mörgum tilvikum er um margþætt tjón að ræða. Þegar er búið að greiða út um 65 milljónir króna úr sjóðnum og ljóst að nú þegar hafa borist tilkynningar um fjölmörg tjón sem eftir á að bæta. Þau verða tekin til afgreiðslu á næstunni. Stærstu kostnaðarliðirnir eru endurræktun túna og heykaup ásamt kostnaði við hreinsun eðju af túnum. Árni segir að hann eigi von á því að stærstur hluti tjóna verði kominn inn á borð sjóðsins í haust. Stefnt er að því að ganga frá bótum eins fljótt og kostur er.


Í einhverjum tilvikum varð tjón á búfé. Árni segir að það tjón sé ekki mikið. „Það eru bætur vegna gripa sem hafa farist vegna aðstæðna sem þarna komu upp. Það er ekki mikið og við vitum ekki annað en að flutningar á gripum í hagagöngu annars staðar hafi gengið mjög vel.“


Til góða að eiga Bjargráðasjóð
Lengi hefur verið uppi umræða um nauðsyn Bjargráðasjóðs. Árið 2008 lagði Kristján Möller þáverandi samgönguráðherra fram frumvarp um að sjóðurinn yrði lagður niður. Á síðasta ári var lögum breytt þannig að sveitarfélög eru ekki lengur aðilar að sjóðnum eins og áður var. Árni tók við framkvæmdastjórastöðunni í apríl síðastliðnum en hefur starfað sem ráðunautur árum saman og þekkir vel til Bjargráðasjóðs og hlutverks hans. Spurður hvort hann telji ekki að sjóðurinn hafi sannað gildi sitt eftir hamfarirnar í Eyjafjallajökli segir hann að það sé ekki sitt að tjá sig um það. „Það er þó mín persónulega skoðun að þegar að þessi ósköp dundu yfir hafi það verið til góðs að sjóðurinn var til því þá var til ákveðinn lagalegur farvegur til að veita bændum aðstoð. Þess vegna vil ég nú meina að það hafi gengið þetta fljótt að koma umgjörðinni í lag, fá sérstaka reglugerð um gosið og hvernig ætti að taka á því. Ég er ekki þar með að segja að menn hefðu ekki fundið lausnir án þess að Bjargráðasjóður væri til staðar en ég hygg að það hafi auðveldað málið verulega.“


 


back to top