Alls hafa 35 tjónatilkynningar borist Viðlagatrygginu

Formlega séð er gosinu í Eyjafjallajökli ekki lokið enn. Það er Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra sem tekur ákvörðun um hvenær goslokum verður lýst yfir en að sögn Ágústs Gunnars Gylfasonar hjá Almannavörnum er engu hægt að spá um hvenær sú ákvörðun verði tekin. „Eins og er hefur ekki verið ekki verið tekin ákvörðun um að lýsa því yfir að gosinu sé lokið og það er bara ákvörðun sem við endurskoðum og förum yfir með reglulegu millibili. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvenær verður næst farið yfir stöðuna.“  Þetta hefur áhrif á bótagreiðslur frá Viðlagatryggingu.

Viðlagatrygging, sem fylgir brunatryggingu húseigna bætir tjón af völdum eldgosa. „Það er bara greitt út einu sinni vegna hvers tjónsatburðar. Ef menn færu því í viðgerðir á segjum rafstöðvum, sem síðan myndu verða fyrir tjóni eftir hálfan mánuð á ný, væri ekki hægt að greiða bætur fyrir það á nýjan leik“, segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands.

Tjón á þökum algengust
Þetta á við á meðan að ekki hefur verið lýst yfir goslokum. Ef lýst yrði yfir goslokum og síðan tæki að gjósa á ný gæti Viðlagatrygging bætt tjón sem yrði af völdum hins nýja goss. Nú þegar hefur Viðlagatrygging fengið inn á sitt borð um 35 tjónstilkynningar og er mat á tjónum að hefjast. Búast má við að mynd komist á hvert umfang tjónanna er eftir viku til hálfan mánuð. Algengustu tjónin eru að sögn Huldu skemmdir á þökum sem séu mjög víðtæk á svæðinu. Þá er um að ræða bæði skemmdir á þakjárni og málningu.


back to top