Ályktun frá Félagi kúabænda á Suðurlandi

Á síðasta félagsráðsfundi Félags kúabænda á Suðurlandi sem haldinn var þann 3. október sl., var stjórn félagsins falið að koma á framfæri ályktun um tillögu að breytingu á löggjöf um tilraunastarf á Stóra-Ármóti. Ályktunin er eftirfarandi:

„Félag kúabænda á Suðurlandi varar við því að samstarf Landbúnaðarháskóla Íslands og Búnaðarsambands Suðurlands um tilraunabúið að Stóra-Ármóti sé stefnt í tvísýnu með drögum að lagabreytingum sem nú liggja fyrir og snerta mjög starfsemi LbhÍ. En þar er gert ráð fyrir að lögum um opinbera háskóla verði breytt þannig að LbHÍ verði hluti af þeim lögum eins og HÍ og HA hafa verið. Frá sama tíma verði felld út lög um búnaðarfræðslu, lög um tilraunastöðina á Stóra-Ármóti og kafli úr lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

Stóra-Ármót er eina tilraunabúið í landinu þar sem hægt er að framkvæma fóðurtilraunir á mjólkurkúm. Nú er samstarfssamningur í gildi á milli Bssl og LbHÍ um tilraunabúið að Stóra-Ármóti. Hann kveður m.a. á um að starfandi sé sérfræðingur í fóðurfræði og rannsóknarmaður.


Félagið leggur mikla áherslu á að áfram verði rekið öflugt tilraunastarf í nautgriparækt að Stóra-Ármóti ásamt tilraunum í jarðrækt með það í huga að efla hlutdeild heimaaflaðs fóðurs til mjólkurframleiðslu“.

Félag kúabænda á Suðurlandi


back to top