Aðalfundur FKS 26. jan. 2009

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 2009
haldinn í Árhúsum Hellu mánudaginn 26. janúar 2009 boðaður kl: 11.30 og hófst hann með súpu og brauði í boði Félags kúabænda á Suðurlandi, formlegur fundur hófst kl. 12.10.


Fundarsetning: Sigurður Loftsson, Steinsholti formaður Félags kúabænda á Suðurlandi setti fund og bauð fundarmenn velkomna, hann gerði tillögu að starfsmönnum fundarins þeim Gunnari Eiríkssyni, Túnsbergi fundarstjóra og Guðbjörgu Jónsdóttir, Læk fundarritara. Tillagan var samþykkt samhljóða og starfsmenn fundarins tóku til starfa.


1. Skýrsla formanns 2008. Sigurður Loftsson
„Ekki verður annað sagt en að það ár sem að baki er hafi verið afdrifaríkt fyrir íslenskt samfélag. Það munar um minna bankakerfi heillar þjóðar sekkur á einni viku og segja má að hagkerfi landsins hafi á tímabili vegið salt á barmi hruns og geri jafnvel enn.

Mikill rekstrarvandi blasti við bændum í upphafi árs, einkum vegna gríðarlegra hækkana á aðföngum og gengisfalls krónunnar, auk þess sem skuldsetning greinarinnar fór mjög að segja til sín. Þetta ástand hefur reyndar staðið allt til þessa dags og einkenndi það að talsverðu leyti starf félagsins á árinu. Veðurfarið var þó mestan part, hvað sem öðru leið, afar gott og sumarið hagstætt bæði til fóðuröflunar og útivistar. Eini verulegi skugginn sem þar ber á eru jarðskjálftarnir sem dundu yfir vestari hluta svæðisins í lok maí og ollu víða talsverðum usla.

Félagsráð hélt alls 5 fundi á árinu og var sá fyrsti haldinn 12. febrúar. Þar var kosin ný stjórn félagsins, en þau Jóhann Nikulásson og Katrín Birna Viðarsdóttir gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Í þeirra stað voru kosin Guðbjörg Jónsdóttir ritari og Þórir Jónsson gjaldkeri. En formaður er eins og kunnugt er kosin á aðalfundi. Á fundi 13. mars var m.a. fjallaði um framtíð framleiðslustýringar mjólkurframleiðslunnar, en gestur okkar þar var Daði Már Kristófersson hagfræðingur. Egill Sigurðsson stjórnarformaður Auðhumlu var síðan gestur félagsráðs 27. ágúst þar sem rædd var rekstrarstaða mjólkuriðnaðarins og staða sölu og verðlagsmála.

Aðalfundur Landssambands kúabænda var haldinn á Selfossi 4. og 5. apríl, en félagið átti þar 8 fulltrúa. Á fundinum var ræddur og afgreiddur fjölda mála og greinilega ríkti mikil eindrægni meðal fulltrúa. Skömmu fyrir fundinn hafði Verðlagsnefnd náð samkomulagi um verulega hækkun mjólkurverðs og létti það vafalaust talsvert umræðu fundarmanna. Að kvöldi 5. apríl var síðan árshátíð kúabænda haldin á Hótel Selfoss og var hún vel heppnuð. Að þessu sinni var framkvæmd hátíðarinnar á ábyrgð okkar félags og var í því skyni skipuð skemmtinefnd úr hópi félagsmanna. Vil ég nota þetta tækifæri til að þakka nefndarmönnum sérstaklega fyrir gott starf.

Félagið sendi 5 fulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands, sem að þessu sinni var haldinn í Aratungu 18. apríl. Fundurinn afgreiddi fjölda ágætra mála m.a. ályktun vegna fyrirhugaðrar upptöku matvælalöggjafar ESB og niðurstöðu nefndar um endurskoðun á starfsemi Búnaðarsambands Suðurlands, en sú endurskoðun var unnin að frumkvæði Félags kúabænda. Kosnir voru tveir nýir stjórnarmenn úr Árnessýslu, en bæði Þorfinnur Þórarinsson formaður og Guðmundur Stefánsson gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Í stað þeirra voru kosin Guðbjörg Jónsdóttir og Gunnar Eiríksson, en þau hafa bæði verið afar virk í starfi Félags kúabænda undanfarin ár. Guðbjörg var síðan á fyrsta stjórnarfundi kosin formaður Búnaðarsambandsins, fyrst kvenna í stjórn á aldarafmæli þess. Nýjum formanni, stjórn og starfsfólki er árnað heilla við upphaf nýrrar starfsaldar, um leið og þakkað er gott samstarf á liðnum árum.

Í tilefni afmælisársins stóð Búnaðarsambandið fyrir glæsilegri landbúnaðarsýningu á Hellu í ágústmánuði. Sýningin tókst í alla staði vel og var þátttaka framar vonum, þó talsvert væri farið að þyngja fyrir fæti hjá mörgum sýnendum á þessum tíma. Félagið tók virkan þátt í sýningunni þar sem kúasýningin Kýr 2008 var felld þar inn í. Einnig stóð félagið ásamt LK og Sláturhúsinu Hellu að því að heilgrilla naut, tvo af sýningadögunum og sáu félagsmenn um að útdeila kræsingunum meðal sýningargesta. Var af þessu gerður góður rómur.

Landssamband kúabænda stóð fyrir þremur almennum bændafundum á félagssvæðinu í október. Þeim fyrsta í Þingborg 13. október, en þar var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gestur fundarins. Hinir fundirnir voru á Heimalandi 20. okt. og Geirlandi 21. okt. Fundirnir voru haldnir í skugga þess að bankarnir voru nýhrundir og litaði það mjög alla umræðu, enda mikil óvissa um framhaldið.

Lágmarksverð mjólkur til framleiðenda hækkaði 1. janúar 2008 um 70 aura og var miðað við framreikning verðlagsgrundvallar 1. september þar á undan. Þá þegar var ljóst að sú hækkun væri langt í frá nægjanleg til að mæta þeim kostnaðarhækkunum, einkum á fóðri, sem yfir höfðu dunið frá umræddum framreikingi. Á fyrstu vikum ársins tók síðan ekki betra við, enda reis verð allra hráefna í aðfögum bænda mjög hratt á heimsmarkaði. Þegar svo áburðarverðskrár loks birtust í lok janúar og báru með sér 80% hækkun frá fyrra ári, tók fyrst steininn úr. Þetta ásamt viðvarandi hækkunum fjármagnsliða undangengin misseri, stefndi rekstri margra búa í óvissu og að óbreyttu yrðu þau órekstrarhæf. Í ljósi þessa sendi stjórn á þessum tíma frá sér ályktun þar sem þungum áhyggjum var lýst yfir stöðunni, en jafnframt bent á að nauðsynlegt væri að endurskoða forsendur einstakra liða verðlagsgrundvallarins og þá einkum fjármagnsliðina. Í byrjun febrúar fór svo stjórn Landssambands kúabænda fram á við Verðlagsnefnd að unnið verði út frá eftirfarandi atriðum við endurskoðun mjólkurverðs.

1. Fá þarf bráðabirgðauppgjör nokkurra kúabúa fyrir árið 2007 sem allra fyrst, helst um næstu mánaðamót. Upplýsingar um raunverulega stöðu eru mjög mikilvægar við þessar aðstæður.

2. Vaxtakostnaður í verðlagsgrundvelli kúabús verði miðaður við meðaltal gildandi kjörvaxta hjá Glitni, Landsbankanum og Kaupþingi.

3. Beingreiðslur verði í verðlagsgrundvellinum reiknaðar sem krónur á framleiddan lítra og afurðastöðvaverðið hækkað sérstaklega sem nemur því hvað þær hækka minna en framleiðslukostnaðurinn.

4. Áburður verði reiknaður inn í grundvöllinn við framreikning 1. mars í stað 1. júní eins verið hefur.

5. Mjólkurverð verði hækkað 1. apríl 2008 eins og framreikningur 1. mars gefur tilefni til, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem fram koma í lið 2,3 og 4.


Verðlagsnefnd tók síðan að mestu mið af þessu við framreikning. Fenginn var óháður aðili til að endurmeta fjármagnsliði verðlagsgrundvallar og hann endurskoðaður með hliðsjón af því. Niðurstaðan var síðan sú að mjólkurverð til bænda hækkaði um rúmar 14 kr. á lítra 1. apríl s.l. og var þá geymd hluti hækkunar vegna endurmats fjármagnliða u.þ.b. 2.8 kr/ltr. Vinnslu- og dreifingarkostnaður hækkaði síðan um 2,20 kr/ltr.

Í sumarlok var orðið ljóst að þessar hækkanir höfðu ekki verið nægjanlegar og mikill rekstrarvandi blasti við iðnaðinum, enda höfðu öll aðföng hækkað mjög í verði, m.a. vegna mikils gengisfalls krónunnar. Undir þessum kringumstæðum hóf svo Verðlagsnefnd störf að nýju í byrjun september. Við mat á hækkunarþörf iðnaðarins reyndist hún um 10,6% eða 6,5 kr/ltr.

Hækkunarþörf framleiðenda var hins vegar metin um 13,2% og þá var geymdri stærð fjármagnsliðar upp á 525.347 kr. eða um 2,8 kr/ltr. áfram haldið til hliðar. Þetta gerði 8,45 kr/ltr. en ekki var að þessu sinni tekið tillit til lækkaðrar hlutdeildar beingreiðslna að baki kostnaðar eins og gert var 1. apríl. Það var mat Landssambands kúabænda að hefði sömu aðferð verið beitt við mat á hækkunarþörf bænda og gert var 1. apríl hefði hún numið 15,6 kr/ltr. og er þá umrædd geymd stærð fjármagnliða tekin með. Niðurstaða Verðlagsnefndar var síðan heildarhækkun upp á 10,39% er tók gildi 1. nóvember s.l. Þetta gerir 7,13 kr/ltr. til bænda og 5,9 kr/ltr til iðnaðar.

Því verður ekki á móti mælt að þessi verðlagning var unnin við afar óvenjulegar aðstæður enda hrundi bankakerfið í miðjum klíðum. Olli það aukinni spennu og þrýstingi á að flýta þyrfti niðurstöðu. Það var hins vegar mikilvægt að öll nefndin stóð óskipt að ákvörðuninni og að hækkunin tók gildi strax 1. nóvember. Ókostur þessarar verðlagningar er hins vegar sú að þar sem iðnaðurinn fékk ekki uppiborna alla sína hækkunarþörf á bundnum vörum, þarf hann að hækka “frjálsu” vörurnar umfram þetta. Það skekkir síðan enn frekar en áður verðlagningu drykkjarmjólkur á markaði sem þó var ærin fyrir. Eins hefði verið æskilegt að ná meiri leiðréttingu til framleiðenda en raun varð. Við skulum þó gæta að því, að á síðasta ári einu, hækkaði framleiðendaverð um sem nam u.þ.b. 45% og er það mun meira en þekkst hefur á seinni árum.

Væntingar hafa verið um jákvæða þróun aðfangaverðs næstu misseri, enda hefur heimsmarkaðsverð fóðurefna, áburðar og olíu farið hratt niður og má þar í raun tala um hrun hvað sum þeirra varðar. Hin afar veika staða krónunnar hefur þó staðið í vegi fyrir að við fáum notið þess að nokkru marki. Þó hafa fóðursalar lækkað nokkuð verð sín að undanförnu og verðþróun olíu verið til hagstæðari áttar. Stóra spurningin núna er hins vegar sú hvernig áburðarverð muni líta út fyrir komandi vor. Eins og í fyrra er orðin mikill dráttur á að áburðarsalar birti verðlista sína og skapast það væntanlega af því hversu hægt hefur miðað að ná gengisþróun til hagstæðari vegar. Eins og staðan er nú verður þó að teljast líklegt að verðlistar hækki nálægt 30%, en það er þó sagt án allrar ábyrgðar.


Stærsta áhyggjuefnið nú er þung skuldastaða greinarinnar. Einkum eru lán í erlendri mynt geigvænleg en þau hafa sum hver tvöfaldast að verðgildi umreiknuð í íslenskar krónur. Lang stærstur hluti þessara lána hefur frá því í haust verið í frystingu, þar sem ýmist er frestað afborgunarhluta lánsins og vextir greiddir, eða þá hvorutveggja er fryst. Eftir að þessar frystingar lánanna hófust hefur okkur borist til eyrna að einhver munur sé að því hvernig einstakir viðskiptamenn bankanna væru meðhöndlaðir. Stjórn félagsins fékk því nú byrjun janúar fulltrúa allra bankanna á svæðinu til fundar við sig, þar sem farið var yfir stöðu og horfur. Á fundunum kom fram að flestum byðist einhverjir valkostir við þessar lánafrystingar, en Landsbanki og Glitnir hefðu einungis fryst afborganir meðan Kaupþing bauð upp á hvorutveggja, afborganir og vexti í einhverjum tilvikum. Stærstur hluti var í frystingu til 4 eða 6 mánaða en einhver dæmi voru um lengri tíma. Skýrt kom fram hjá þeim öllum að ekki stæði til að fara í neinar aðgerðir gagnvart einstökum skuldurum að svo komnu og reynt yrði eftir fremsta megni að halda búunum gangandi. Enda þjónaði það hvorki hagsmunum bankanna né eiganda þeirra, íslenska ríkisins, að setja þau í þrot. Ekki er bjartsýni á að gengi krónunnar styrkist verulega á næstu mánuðum og því töldu allir að lánafrystingunni yrði haldið áfram þegar núverandi frystingu lyki. Hversu lengi og með hvaða hætti það yrði væri óljóst enn, enda væri mikið óunnið enn í skipulagningu hinna nýju banka. Lánafyrirgreiðsla er lítil eða engin, en að öllum líkindum verður bændum hjálpað með fyrirgreiðslu vegna áburðarkaupa gerist þess þörf. Þó vandi skuldara með erlend lán sé um þessar mundir mikill, má ekki gleyma þeim sem skulda vertryggð lán þó erfiðleikar þeirra séu, ef til vill, minni til skemmri tíma. Þar er að byggjast upp vandi í þeim mikla verðbólguhraða sem nú ríkir sem getur orðið þeim erfiður þegar frá líður.


Stjórnvöld ákváðu með fjárlögum 2009 nú í lok síðasta árs, að ekki yrðu greiddar verðbætur á stuðningsgreiðslur til bænda eins og kveðið er á um í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Þetta þýðir að mjólkurframleiðendur verða að taka á sig verðskerðingu sem nemur verðþróun í landinu, sem reikna má með, ef marka má verðbólguspár, að geti orðið umtalsvert. Þetta er ekki síður slæmt í ljósi þess að hlutfall stuðnings á móti kostnaði í mjólkurframleiðslu hefur sífellt farið lækkandi og ekki fengist nema að litlu leyti bættur í mjólkurverði. Það er mat stjórnar félagsins að umræddur gjörningur ríkisvaldsins sé klárt brot á mjólkursamningnum og ekki verði við annað unað, en skera úr um lögmæti hans með einhverjum hætti.


Heildarinnvigtunn mjólkur síðasta verðlagsár var 125.805 þús/ltr og er þá innvigtun Mjólku áætluð 850 þús/ltr. Greiðslumarkið var 117 mill/ltr. og umframmjólkin því 8,8 mill/ltr, en hlutur Mjólku þar var metin um 361 þús/ltr. Sala mjólkurvara nam 116,3 mill/ltr á prótein grunni en 110,7 mill/ltr á fitugrunni, þetta er allnokkur söluaukning og þá einkum þegar horft er á fituna, en það hefur undanfarin ár dregið mjög saman með þessum tveimur verðefnaþáttum og er það vel. Mjólkuruppgjör síðasta verðlagsárs hefur sérstöðu að því leyti að mörg undanfarin ár var greitt fullt afurðarstöðvarverð fyrir alla innvegna mjólk, óháð stöðu greiðslumarks. Í 52. greinar búvörulaga sem segir að: “Framleiðsla mjólkur umfram greiðslumark skal fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur þó heimilað sölu þessara vara innan lands ef heildarframleiðsla verður minni en sala og birgðastaða gefa tilefni til.” Frá 11. mars keypti MS inn alla mjólk aðra en þá sem barst til mjólkursamlags KS, tölurnar frá Mjólku eru því frá 1.sept 2007 11. mars 2008. Ekki liggur fyrir hvernig þeirri innvigtun Mjólku var ráðstafað. Því til viðbótar fer nú vaxandi framleiðsla mjólkur til heimavinnslu og sölu og óljóst hvaða magn þar er um að ræða. Það hlýtur að vera skýlaus krafa að stjórnvöld sjái til þess að staðið sé við ákvæði búvörulaga varðandi ráðstöfun umframmjólkur og að tryggt sé að allar tölulegar upplýsingar liggi fyrir þar að lútandi.


Framleiðsla og sala það sem af er þessu verðlagsári hefur, hvað sem öðru líður, gengið vel en greiðslumark var aukið í 119 mill/ltr fyrir yfirstandandi ár.


Innlagt nautakjöt var síðastliðið verðlagsár ríflega 3.720 tonn og jafnvægi var í framleiðslu og sölu. Verð hafa hins vegar ekki breyst frá því fyrri hluta síðasta árs og þyngist því jafnt og þétt fyrir fæti í þessari grein. Því til viðbótar tóku biðlistar að safnast upp í lok ársins og 4 – 6 vikna bið hefur verið eftir slátrun á kúm og enn lengri á nautum. Von er til að heldur greiðist úr þessu þegar líður á veturinn en óvíst er hver áhrif minnkandi kaupgeta almennings hefur á þennan markað. Því til viðbótar er enn stefnt að afgreiðslu hins margumrædda matvælafrumvarps sem að líkindum mun hafa neikvæð áhrif á kjötmarkaðinn. Mestu skiptir nú að ekki komi til lækkunar á framleiðendaverðum og vinna þarf gegn því með öllum ráðum.


Á síðasta ári bárust fyrstu greiðslur til jarðræktar sem til eru komnar vegna ákvæða mjólkursamnings um formbreytingu stuðnings í óframleiðslutengdan og/eða minna markaðstruflandi stuðning. Því til viðbótar hafa nú verið teknar upp greiðslur vegna gæðaskýrsluhalds og ættu fyrstu greiðslur vegna þess að berast á fyrrihluta þessa árs. Enn er þó ósamið um hluta þeirra fjármuna sem færa átti yfir í slíka farvegi og óvíst hvernig því reiðir af.


Á síðustu misserum hefur hlaupið nýtt líf í umræður um að Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu og virðist þeirri skoðun hafa vaxið talsvert fiskur um hrygg. Auðvitað eru fáir eða nokkrir kostir góðir, þjóð sem jafn hrapalega hefur komið sínum efnahagsmálum og okkur Íslendingum. Hvort innganga í Evrópusambandið er þar öðrum lausnum betri fyrir þjóðarhag skal ekki dæmt um hér og nú. Hitt má þó fyllilega vera ljóst að frá fyrsta degi inngöngu munu áhrifin verða mikil á íslenska nautgriparækt, þar sem öll innflutningshöft munu falla niður gagnvart öðrum löndum sambandsins. Líklegt verður að telja, að á skömmum tíma muni sala dragast mikið saman á dýrari vöruflokkum, tekjur lækka og í kjölfarið fylgi mikil fækkun framleiðenda. Vissulega munu íslenskir bændur njóta stuðnings úr landbúnaðarkerfi ESB og vafalaust mun verða tekið tillit til norðlægrar legu landsins hvað það varðar. Hins vegar mun geta og möguleikar íslenska ríkisins til að styðja greinina í gegnum þær breytingar sem þessu fylgja, ráða úrslitum um hversu neikvæð áhrifin verða. Á vettvangi LK sem og annarra samtaka bænda er nú unnið að mati á áhrifum aðildar. Í framhaldi af því þarf svo að móta hugmyndir að leiðum til aðlögunar, fari svo að stjórnvöld sæki um aðild að ESB.

Ágætu félagar, eins og fram hefur komið hyggst ég ekki gefa kost á mér til áframhaldandi formennsku í Félagi kúabænda á Suðurlandi. Ég hef enda gegnt þessu starfi nú í níu ár, lengur en nokkur annar forvera minna og á, að ég tel, að baki lengri stjórnarsetu en nokkur annar stjórnarmaður. Því er mál að linni. Það hefur verið lán mitt í þessum störfum að hafa alla tíð átt til góðra að sækja og haft gott og traust samverkafólk hvort sem er í stjórn, félagsráði eða hvar sem er annarsstaðar á vettvangi félagsins. Fyrir það ber að þakka.
Reynsla mín er sú að einn mikilvægasti hlekkur þessa félags sé Félagsráðið, enda tryggir tilvist þess breiðari umræðu og tengingu stjórnar við bændur á þessu víðfeðma starfsvæði. Ég vil því hvetja félagsmenn að gæta nú sem fyrr að dreifingu fulltrúa á starfssvæðinu.
Að lokum á ég þá ósk að sunnlenskir kúabændur haldi saman um það baráttutæki sem þeir eiga í þessu félagi. Mér segir svo hugur að ekki muni af veita næstu ár.
Takk fyrir.“


2. Reikningar félagsins.
Þórir Jónsson gerði grein fyrir endurskoðuðum reikningum félagsins fyrir árið 2009. Tekjur ársins voru kr 1.380.114 en gjöld alls kr 896.281 og hagnaður af rekstri ársins var því kr 483.833. Eignir á bankareikningum í árslok voru kr. 1.198.503 en skuldir engar.


Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu formanns og reikninga félagsins. Engar umræður voru undir þessum lið.


Fundarstjóri bar upp reikningar félagssins sem voru samþykktir samhljóða.

3. Kosningar
a. Formaður
Þórir Jónsson, Selalæk tók til máls og gaf kost á sér sem formaður félagssins.


Fundarstjóri kynnti niðurstöðu skriflegrar kosningar til formanns félagsins og féllu atkvæði þannig:
Þórir Jónsson 36 atkvæði
Arnheiður Dögg Einarsdóttir 2 atkvæði
Guðni Ragnarsson 1 atkvæði
Auðir seðlar: 1


Fundarstjóri lýsti því yfir að Þórir Jónsson er réttkjörinn formaður Félags kúabænda á Suðurlandi.


Þórir Jónsson tók til máls og þakkaði fyrir stuðninginn en taldi að skarð Sigurðar Loftssonar vandfyllt.



b. 9 fulltrúar í félagsráð og 3 varamenn
Kjörnefnd félagsins hafði undirbúið kosningu í félagsráð fyrir aðalfund. Í kjörnefndinni störfuðu Ólafur Helgason, Ásmundur Lárusson og Hlynur Theodórsson. Fundarstjóri kynnti fyrir fundarmönnum fyrirkomulag kosninganna og dreifði kjörseðlum.

Fundarstjóri gerði tillögu að talninganefnd þeim; Runólfi Sigursveinssyni, Hlyni Theodórssyni, Ara Árnasyni, Reyni Þór Jónssyni, Atla Hróbjartssyni og Hildi Ragnarsdóttur.

Gert var stutt fundarhlé meðan talningarnefnd starfaði.

Fundarstjóri kynnti niðurstöðu úr talningu talningarnefndar. Efiirtaldir hlutu kosningu:

Níu aðalmenn í félagsráð til tveggja ára:
Arnheiður Dögg Einarsdóttir Guðnastöðum 37 atkvæði
Ólafur Helgason Hraunkoti 32 atkvæði
Ragnar Magnússon Birtingaholti 30 atkvæði
Elín B. Sveinsdóttir Egilsstaðakoti 27 atkvæði
Sigurjón Eyjólfsson Eystri-Pétursey 27 atkvæði
Ásgeir Árnason Stóru-Mörk 26 atkvæði
Sigurður Þór Þórhallsson Önundarhorni 25 atkvæði
Ómar Helgason Lambhaga 23 atkvæði
Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ 23 atkvæði


Þrír varamenn í félagsráð til tveggja ára
Ásmundur Lárusson Norðurgarði 21 atkvæði
Guðrún Helga Þórisdóttir Skeiðháholt 20 atkvæði
Ándrés Andrésson Dalsseli 19 atkvæði


c. 8 fulltrúar á aðalfund LK og 8 varamenn
Sigurður Loftsson kynnti tillögu stjórnar um kosningu fulltrúa á aðalfund LK og BsSl.
„Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum Hellu 26. janúar 2009 samþykkir að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund Landssambands kúabænda til félagsráðs. Kosningin skal vera skrifleg og leynileg.“

„Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum Hellu 26. janúar 2009 samþykkir að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands til félagsráðs. Kosningin skal vera skrifleg og leynileg.“
Fundarstjóri bar upp tillögu um kosningu fulltrúa á aðalfund LK.

Samþykkt með einu mótatkvæði.

d. 5 fulltrúar á aðalfund BsSl og 5 til vara
Fundarstjóri bar upp tillögu um kosningu fulltrúa á aðalfund BsSl.


Samþykkt samhljóða.


e. 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara
Samúel Eyjólfsson, Bryðjuholti kom með uppástungu um sömu skoðunarmenn.

Skoðunarmenn til eins árs:
Einar H. Haraldsson, Urriðafossi og María Hauksdóttir, Geirakoti

Til vara:
Daníel Magnússon, Akbraut og Rútur Pálsson, Skíðbakka


Samþykkt samhjóða.



4. Önnur mál
Ólafur Kristjánsson, Geirakoti ræddi um ástandið í þjóðfélaginu og þróun mála. Ef sú staða kæmi upp að það mundi hlaðast upp birgðir af landbúnaðarvörum og almenningur hefði ekki efni á að kaupa þær. Hann fjallaði um hvernig bændur gætu komið til móts við þetta og að þeir væru viljugir að láta eitthvað af hendi rakna. Hann stakk upp á því að það væri t.d. stofnaður stjóður hjá afurðarsölufyrirtækjum til styrktar Mæðrastyrksnefnd eða Fjölskylduhjálparinnar.


Guðni Ragnarsson, Guðnastöðum þakkaði Ólafi hans tillögu og taldi þetta efla ímynd bænda. Hann hafði þó boðið SS þrjár merar en þær voru ekki þegnar af SS. Hann mælti með tillögunni.


Björgvin Guðmundsson, Vorsabæ var sammála tillögunni og vildi að þetta yrði skoðað áfram.


Magnús Sigurðsson, Biringaholti benti á að það fari töluvert til Mæðrastyrksnefndar, þá sérstaklega mjólk fyrir jólin en einnig í annan tíma þegar óvenjulega mikil birgðastaða væri í einstökum vöruflokkum. Hann mælti með tillögunni og að vinna áfram að þessum málum.


Ingibjörg Guðmundsdóttir, Efri-Hól benti á að það þyrfti að hafa sláturleyfishafa einnig með í úthlutunarnefndinni.


Sigurður Loftsson, Steinsholti kom fram með ábendingu um tillöguna, í þá veru að fela stjórn og félagsráðs framkvæmdina að koma úthlutunarnefndinni á laggirnar.


Guðni Ragnarsson, Guðnastöðum var með fyrirspurn til stjórnar um hvort það eigi ekki að mótmæla samningsbroti ríkisins á bændum. Hann spyr hvort að þessi mál séu ekki í öruggum höndum.


Sigurður Loftsson kynnti tillögu stjórnar sem er svohlóðandi.
„Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum Hellu 26. janúar 2009, mótmælir harðlega þeirri ákvörðun stjórnvalda að standa ekki við verðtryggingarákvæði gildandi samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu. Það er mat fundarins að þessi aðgerð ríkisvaldsins sé klárt brot á mjólkursamningnum og ekki verði við annað unað en skera úr lögmæti hennar.“


Þóri Jónssyni Selalæk fannst ástæða til að hnykkja á þessu. Ekki sé hægt að ganga að greininni með þessum hætti. Taldi nauðsynlegt að halda okkar merkjum á lofti.


Gauti Gunnarsson, Læk þakkaði stjórn hennar störf, hann þakkaði einnig fyrir greinargóða skýrslu og reikninga. Hann óskaði nýjum formanni til hamingju og þakkaði fráfarandi formanni hans störf. Hann var ekki ánægður með ástandið og taldi kerfið sem við byggjum við, banvænt og verðlagsnefndin sé ekki að gefa okkur þær hækkanir sem við þurfum. Hann fór fram á að stjórnarmenn LK skýrðu frá því hvernig þeir sjái framtíðina.


Ólafur Kristjánsson, Geirakoti bar fram endurskoðaða tillögu um matvælaaðstoð í samræmi við þær umræður sem fram höfðu farið á fundinum. Tillagan var svohljóðandi:
„Aðalfundur FKS haldinn að Árhúsum Hellu 26. janúar 2009 samþykkir að stjórn Félags kúabænda á Suðurlandi beiti sér fyrir skipan nefndar sem sé til þess ætluð að eiga samstarf við hjálparstofnanir vegna ástandsins í þjóðfélagsins með matvælaaðstoð í huga. Nefndina skipi til dæmis formaður FKS, formaður BsSl og stjórnarformaður Auðhumlu.


Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Guðnastöðum óskaði nýjum formanni til hamingju og þakkaði einnig Sigurði Loftssyni fyrir hans framlag til félagssins. Hún lýsti ánægju með tillögu Ólafs og einnig þakkaði hún MS fyrir þeirra stuðning til bágstaddra. Hún velti því upp hvað við gerum ef það gengur ekki eftir að fá verðtrygginguna til baka. Hún hvatti til að við byðum okkar vörur til þeirra sem standa í mótmælum.


Fundarstjóri bar upp tillögu um matvælaaðstoð.
Samþykkt samhljóða

Fundarstjóri bar upp tillögu um brot á mjólkursamningi.
Samþykkt samhljóða.


Runólfur Sigursveinsson, ráðunautur þakkaði Sigurði Loftssyni fyrir hans störf og samstarf við BsSl. Hann óskaði einnig nýjum formanni til hamingju. Hann greindi frá því að fyrirtækið Skinnfiskur sem vinnur með fiskúrgang, hafi haft samband við sig með samstarf við bændur í huga um nýtingu hráefnissins sem áburðargjafa. Hann kynnti fyrir fundarmönnum fyrirhugaðan fund í því sambandi.


Fundarstjóri frestaði þessum lið og tók fyrir erindi Ernu Bjarnadóttur.


5. Landbúnaðarkerfi ESB. Erna Bjarnadóttir sviðsstjóri félagssviðs BÍ
Erna fjallaði um í fyrirlestri sínum um Ísland og ESB. Hún sagði frá semeiginlegri landbúnaðarstefnu ESB sem breytist stöðugt. Stefnan er í stöðugri endurskoðun og miðað er við að næsta endurskoðun komi fram árið 2013. ESB er að hverfa frá stuðningi við búgreinar og/eða framleiðslu en auka vægi greiðslna á landi. ESB uppfyllir þegar kröfur í samkomulagsdrögum WTO um lækkun á framleiðslutengdum stuðningi. Aukið hefur verið vægi „grænna geiðslna“ og byggðastyrkja. Þetta hefur það í för með sér að aukið vægi markaðarins við verðmyndun búvara og minni útgjöld eru til landbúnaðrmála innan ESB en áður. Landbúnaðarstefna ESB hefur þannig á undanförnum árum tekið stórfelldum breytingum og hefur stækkun ESB til austurs einnig knúið á um þessa þróun. Helstu markmiðin eru í fyrsta lagi að framleiðsluákvarðanir bænda ráðist af markaði án opinberrar íhlutunar. Í öðru lagi að hvetja til að búskapur verði sjálfbær umhverfislega og efnahagslega og í þriðja lagi að gera landbúnaðarstefnuna einfaldari fyrir bændur og framkvæmdaraðila hennnar.

Erna tók fyrir aðild Finnlands að ESB árið 1995. Það kom fram að verð til bænda lækkaði á flestum afurðum um 15-70% en á móti kom að beinar greiðslur hækkuðu á móti þannig að tekjur til bænda lækkuðu um rösk 12%. Matvælaverð í Finnlandi lækkaði um 11% en búunum fækkaði og þau stækkuðu. Samningurinn við ESB var byggður upp með því sjónarmiði að finnskur landbúnaður sé af náttúrlegum ástæðum ekki að fullu samkeppnishæfur við evrópskan landbúnað. Grundvallarforsenda fyrir norðurslóðastuðningnum er að hvorki landbúnaðarframleiðsla stuðningssvæðanna eða fjárhagslegur stuðningur til einstakra búgreina verði umfram það sem hann var fyrir viðkomandi grein á viðmiðunartímabili fyrir aðildina. Efnisleg markmið samningsins voru þau að styrkja hefðbundnar aðalframleiðslugreinar og úrvinnslu, sem falla að náttúrulegum framleiðsluskilyrðum viðkomandi svæðis. Efla fyrirkomulag og form framleiðslu, úrvinnslu og markaðssetningar með búvörur svæðisins. Greiða fyrir markaðssetningu og afsetningu afurða svæðisins. Tryggja verndun umhverfis og að efla búsetu á tilteknu svæði. Styrkir til landbúnaðar í Finnlandi eru þannig samsettir, að skv. sameiginlegri landbúnaðrstefnu ESB (CAP) koma greiðslur á flatareiningu lands, greiðslur á gripi sem Finnland valdi að halda, umhverfisstyrkir greiddir á ræktarland sem eru 55% greiddir af ESB og LFA stuðningur greiddur á ræktarland um 30% greiddur af ESB. Hinn hlutinn er innanlandsstuðningur sem er að fullu fjármagnaður af Finnum en er hluti af sameiginlegri stefnu ESB. Hann samanstendur af norðlægum stuðningi (142, grein) og stuðningi við suður Finnland (141.grein).

Erna fór yfir á hvaða einingar styrkir innan ESB eru greiddir út á og hvernig greiðslum til bænda er háttað. Hún kom inn á að þar sem beinn stuðningur er hærri nú, eru fordæmi fyrir að samið eru um aðlögun eins og t.d. á Kýpur og Slóveníu. Finnar sömdu um að greiða tiltekna upphæð til bænda í eitt ár vegna lækkunar afurðaverðs við tollalækkun. Hún velti fyrir sér ef teknar yrðu greiðslu út á land hér hverskonar viðmið yrðu, hvaða land væri um að ræða og hve háar greiðslur. Hún velti fyrir sé norðlægum stuðningi við bændur á Íslandi ef gengið verður í ESB og hvaða möguleikar væru í stöðunni. Hún velti einnig upp spurningunni ef að Ísland er þegar búið aða yfirtaka mikið af löggjöf ESB og hvað þýðingu það hefði ef að landbúnaður er alveg þar fyrir utan en það væru 3.800 reglugerðir og ákvarðanir sem er svo flókið viðfangsefni að aðeins sérfræðingar geta leyst. Hún taldi mjög brýnt að fyrir lægi í mögulegum aðildarviðræðum markmið og áform stjórnvalda um fjárveitingar til landbúnaðar.


Að erindi Ernu var opnað fyrir umræður.


Þórólfur Sveinsson formaður LK, tók til máls, hann vildi hugsa málið út frá smásöluverslunni og á hvaða verðum munu þeir geta keypt sínar vörur á. Hann nefndi t.d að allur ostur sem nú er framleiddur og seldur í landinu, þarf alla mjólkurframleiðslu í Árnes-, Rangárvallar- og V- Skaftafellssýslu. Hann þakkaði Ernu fyrir hvað hún hefur sett sig vel inn í málin.

Erna sagði að markaðurinn skiptist þannig að Hagar eru með 60% markaðshlutdeild en Kaupás 16-17%. Í skýrslunni um ESB sem gefin var út 2003 kom fram að ekki væri hægt að verja ostamarkaðinn. Hún varaði einnig við hvað markaðurinn væri lítill hér og að það væri auðvelt að undirbjóða vörur.

Elín Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti spurði hvað kostar kerfi EB? Hvað halda svona samningar og eftirlit með þeim? Hvað með matvælafrumvarpið hvað varðar merkingar innlendra afurða.
Erna sagði að stjórnsýslan mundi vaxa, en hafði ekki útreikninga hvað það varðar. Það verður að passa upp á samningsgrundvöllinn til að hann tapist ekki. Hún skýrði frá því að verið er að vinna að merkingu íslenskra matvæla.

Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK, fjallaði um muninn á landeigendum og landnotendum. Hann spurði um afkomu bænda í Finnlandi og hvernig væri staðan á nýjum fjárfestingum þar. Hann velti fyrir sér vígstöðu okkar hvað varðar stóru verslunarkeðjurnar, hann velti einnig upp möguleikanum á sameiningu við stóru afurðarsölufyrirtækin á meginlandinu.

Erna sagði að hún vissi ekki hvaða áhrif styrkirnir hefur á verð á leigu á landi. Hún sagði að afkoman í Finnlandi hefði versnað um 12-17% fyrstu árin. Fjárfestingar bænda drógust saman þegar staðið var í aðildarviðræðum, en eru nú að aukast. Svíar hafa farið þá leið að sameinast stórum afurðasölufyrirtækjum eins og Arla.


Fjölmargar fyrirspurnum var beint til Ernu frá fundargestum. Til máls tóku m.a. Arnheiður Dögg Einarsdóttir Guðnastöðum, Magnús Sigurðsson Birtingaholti, Ólafur Kristjánsson Geirakoti, Ómar Helgason Lambhaga, Pála Kristín Buch Önundarhorni, Sigurjón Hjaltason Raftholti, Einar Hermundsson Egilsstaðakoti, Ingibjörg Guðmundsdóttir Efri-Hól og Runólfur Sigursveinsson.


Í umræðunum kom fram að tollverndin væri ekki að virka. Viðhorf til landbúnaðarins almennt væri að breytast einkum vegna loftslagsbreytinga. Talið var að smásalar hefðu ofurtak á íslenska markaðnum. Skattar eru sérmál hvers lands. Það kom fram að það kæmu eftirlitsaðilar hingað til landsins að taka út og ef ekki væri framfylgt skilyrðunum þá eru styrkir skertir. Ekki er vitað hvað þarf marga eftirlitsaðila hér á landi. Spurt var um hvort kornstyrkir yrðu áfram. Erna sagði að það þyrfti að skilgreina styrkhæft land, en taldi það líklegt. Það kom fram að sú vinna sem væri í gangi á vegum BÍ fælist aðallega á þessu stigi í því að stoppa málið af.


Gert var kaffihlé og voru veitingar í boði FKS.

Önnur mál, framhald
Sigurður Loftsson óskaði nýjum formanni til hamingju, hann ræddi það ástand sem er upp í þjóðfélaginu. Hann fjallaði um það kerfi sem kúabændur byggju við og taldi að breytingar væri þörf. Að lokum tilkynnti hann að hann gæfi kost á sér til formennsku LK, en sú kosning fer fram á aðalfundi LK sem haldinn verður 27.-28. mars n.k.


Þórólfur Sveinsson óskaði nýjum formanni til hamingju og þakkaði Sigurði Loftsyni fyrir þeirra samstarf. Hann ræddi framtíðina og sagði frá vinnu stefnumótunarhóps LK. og það sem hefur tafið vinnu hópsins. Í fyrsta lagi umræðan um aðildarumskókn til EB sem hefði mikil áhrif á greinina. Í öðru lagi er það efnahagsástandið í þjóðfélaginu, ekki er enn ljós staða kúabænda. Hann taldi að næsti vetur yrði kúbændum erfiður þegar verðtrygging samnings er ekki að virka. Þetta mun kosta um 400 milljónir. Niðurstaða stefnumótunar 2002 var að halda þá óbreyttu verði og það gekk eftir. Nú er verið að skoða önnur kerfi. Það verður leitað leiða til að búa greininni önnur starfsskilyrði hvað varðar verðlagningu og stuðningsform.


Guðbjörg Jónsdóttir óskaði nýjum formanni til hamingju og færði fráfarandi formanni Sigurði Loftssyni blómvönd sem þakklætisvott frá félaginu vegna hans framlags. Hún lýsti einnig ánægju sinni með framboð hans til formanns LK.


Þórir Jónsson nýkjörinn formaður FKS sleit fundi kl. 16.30. Hann þakkaði starfsmönnum fundarins þeirra störf og fundarmönnum góða fundarsetu.


back to top