Aðalfundur FKS 1. feb. 2010

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn mánudaginn 1.febrúar 2010 í Árhúsum Hellu.

Fundurinn hófst með léttum hádegisverði kl. 11:30 í boði félagsins en fundarstörf hófust kl 12:00.


Fundarsetning: Formaður félagsins Þórir Jónsson setti fundinn og gerði tillögu að starfsmönnum fundarins þannig að fundarstjóri verði Valdimar Guðjónsson og ritari Guðbjörg Jónsdóttir, var tillaga hans samþykkt. Starfsmenn fundarins tóku til starfa og var gengið til dagskrár.


1. Skýrsla formanns- Þórir Jónsson
„Ágætu félagar og gestir.


Það má segja að störf félagsráðs hafi verið með hefðbundnu sniði. Félagsráð hélt fimm fundi á árinu.
Á fyrsta fundi sem haldinn var 5. febrúar var kjörin ný stjórn. Guðbjörg Jónsdóttir á Læk sem var ritari og varaformaður gaf ekki kost á sér, í hennar stað var kosin Arnheiður Dögg Einarsdóttir á Guðnastöðum. Þá var fyrrverandi gjaldkeri félagsins sá sem hér stendur orðinn formaður og í hans stað var Elín Bjarnveig Sveinsdóttir Egilsstaðarkoti kjörin gjaldkeri.
Kosning fulltrúa félagsins á aðalfund Landsammands kúabænda og á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands fór einnig fram á þessum fundi.


Á þeim fundi voru afgreiddar tillögur sem síðasti aðalfundur félagsins hafði samþykkt.


Önnur tillagan fjallaði um brot á samningi við mjólkurframleiðendur, hún var send formanni BÍ og formanni LK. Það hefur eflaust verið lóð á vogaskálina um að gerð var breyting á mjólkursamningnum sem fór svo í atkvæðagreiðslu s.l. vor.


Hin tillagan hljóðaði upp á söfnun til Mæðrastyrksnefndar. Sú söfnun var sett af stað í samvinnu við MS og stóð hún til áramóta. Þátttaka kúabænda á Suðurlandi í þeirri söfnun var með ágætum og hefur skilað rúmlega 800.000 kr. sem Mæðrastyrksnefnd hefur svo notað til kaupa á mjólkurvörum.
Félagið vill þakka kúabændum það sérstaklega. Að sýna samstöðu og samhjálp á þessum tímum er mikils virði og enn er vilji til þess að söfnunin haldi áfram út þetta ár.


Ýmis erindi hafa verið flutt á fundum félagsráðs.


Á fund félagsráðs 16. mars flutti erindi Daði Már Kristófersson um efnahagshorfur og framtíðarmöguleika kúabænda
Þann 29. september kom stjórnarformaður Auðhumlu, Egill Sigurðsson og flutti okkur ítarlegt erindi um stöðu og horfur í mjólkuriðnaðinum.


Einnig fluttu erindi á þeim fundi formaður og framkvæmdarstjóri LK.
Formaður L.K. Sigurður Loftsson flutti erindi um verðlagsmál og ESB umræðuna en framkvæmdarstjóri LK Baldur Helgi gerði úttekt á afsetningu nautgripakjöts og ræddi tillögur starfshóps um gæðamál mjólkur og flokkun. En nú 1.febrúar tekur ný reglugerð gildi um gæðamál mjólkur.


Það er ekki ofsögum sagt að skuldastaða bænda hafa verið fyrirferðamikil á fundum félagsráðs. Það er að verða eitt og hálft ár síðan hrunið varð og í raun hafa lánamál bænda verið í biðstöðu en nú hillir undir aðgerðir í þeim málum.


Runólfur Sigursveinsson ráðunautur Bssl. hefur borið hitann og þungann af þeirri vinnu í formi upplýsinga og ráðgjafar til bænda og farið yfir stöðuna almennt á hverjum félagsráðsfundi.
Þann 30. nóvember flutti erindi á fundi félagsráðs Ólafur Björnsson hrl. Um réttarstöðu bænda í lánamálum. Afar fróðlegt erindi og annar vinkill á þeim málum.


Aðalfundur Landsambands kúabænda var haldinn á Hótel Sögu 27.og 28 mars þar átti Félag kúabænda á Suðurlandi 9 fulltrúa, þar fékk skýrsla stefnumörkunarhóps Landssambands kúabænda mikla umfjöllun, einnig fjöldi tillagna m.a. tillaga um endurskoðun samþykkta LK og samræmingu á samþykktum aðildarfélagana. En niðurstaða nefndar um það verður kynnt síðar hér á fundinum.
Kjör fulltrúa LK á Búnaðarþing til næstu 3 ára fór fram á fundinum þetta árið. Árshátíð kúabænda var haldinn á Hótel Sögu að fundi loknum.


Á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands sátu 5 fulltrúar frá félaginu, allnokkur umræða var um kynbótastarfið í nautgriparækt og skýrsluhald. Þá voru á aðalfundi Bssl kosnir fulltrúar Bssl á Búnaðarþing til 3 ára.


MS á Selfossi stóð fyrir samráðsfundi 22. apríl um meðferð mjólkur hjá bændum sem formaður sótti. Afar mikilvægt gott framtak hjá MS. Þörf er á að virkja saman bændur, tæknimenn mjaltavélbúnaðar og dýralækna til þess að ná sem bestum tökum á meðferð mjólkur.


Stjórn FKS var boðuð á fund með stjórn Bssl 17. desember s.l. þar voru teknir fyrir þeir þættir hjá Bssl sem lúta að nautgriparæktinni.
Ræktunarmál, fóðurleiðbeiningar og rekstrarráðgjöf. Í skoðun er að fara í samvinnu á næstu vikum um að setja greininni markmið til 2.– 3. ára.


Félagið styrkti sýningu ,,Sunnlenskra sveitadaga” nú á vordögum sem Jötunn Vélar á Selfossi stóðu fyrir


Framleiðsla nautgripakjöts á s.l. ári var 3.761 tonn aukning 4,3% frá árinu áður en sala 3.753 tonn aukning um 3,9%.
Það er ánægjulegt að aukning er í neyslu á nautakjöti frá fyrra ári og það er eina kjötgreinin sem bætir við sig markaðshlutdeild á árinu. En vekur athygli að það fer 15% minna af innleggi í UN1 Úrval og 6% minna K1U miðað við síðasta ár.


Það er 4 vikna bið eftir slátrun á kúm hjá SS en jafnvægi í framboði ungnauta.
Hjá Sláturhúsi Hellu er 2-3 vikna bið eftir slátrun á nautgripum. Ásetningur sláturgripa á síðasta ári nánast sá sami og 2008.
Verð á afurðum heldur ekki í við verðlagsþróun.


Verð á UN1 A, algengasta flokki nautgripakjöts, var 324,50 kr/kg. í desember 1997.
Ef nautakjötsverðið hefði fylgt almennri þróun verðlags í samfélaginu, væri það 640 kr/kg. Í dag er það hjá sama sláturleyfishafa 464 kr/kg og hefur svo verið í tæp 2 ár. Raunlækkun til framleiðenda á þessum 12 árum er því 28%.


Það sjá allir að framlegð þessarar greinar er slök. Síðasta verðhækkun í mars 2008, en staðgreiðsla afurðastöðva á innleggi er mikils virði fyrir bændur.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvað hallað hefur á afkomu greinarinnar vegna verðhækkana á aðföngum. Hvað geta bændur unað því lengi ?


Hér á Suðurlandi eru 253 bú í mjólkurframleiðslu, en greiðslumark mjólkur í nóvember sl. var 45.078.767 lítrar
Á nýliðnu verðlagsári nam heildarinnlegg mjólkur á landsvísu 126.339.040 lítrum. Þetta er mesta framleiðsla á einu verðlagsári hingað til.


Neyslan hefur breyst á liðnu ári farið úr dýrari vörum í ódýrari. Útflutningur á mjólkurvörum hefur ekki gengið eftir eins og væntingar stóðu til, verðlagning mjólkur utan greiðslumarks hefur enn ekki verið birt.
Það er krafa kúabænda að MS gefi út verð á mjólk utan greiðslumarks á yfirstandandi verðlagsári sem fyrst.


Þá er það ótækt að það frumvarp sem liggur fyrir Alþingi um breytingar á ákvæðum sem varða afsetningu mjólkur utan greiðslumarks skuli ekki vera tekið til þinglegrar meðferðar. Um það efni verður lögð fram tillaga frá stjórn hér á fundinum.


Kúabændur vænta þess að leiðrétting á lágmarksverði mjólkur fari að líta dagsins ljós. Á haustfundi LK kom fram að verðlagsgrundvöllur kúabús frá 1.sept sýndi hækkunarþörf upp á 4,48% eða 3,18 krónur. Þá er ekki tekið tillit til þeirrar leiðréttingar fjármagnsliða sem geymd hefur verið frá verðlagningu 1.apríl 2008 ef hún er talin með var hækkunarþörfin þá 8,34%.


Staðan er alvarleg fyrir þá kúabændur sem stóðu í miklum fjárfestingum árin fyrir hrun, ef ekki fást skýr svör um meðferð lánamála þeirra.
Í ofanálag hellast verðhækkanir yfir, á rekstrarvörum og þjónustu. Að einhverju leiti verður að velta þessum hækkunum áfram út í verðlagið .


Síðasta ár var hagstætt hér sunnanlands bæði með tilliti til heyverkunar og kornuppskeru.
Efnahagsforsendur í landinu aftur á móti mjög óhagstæðar. Áburðarverð hefur ekki verið birt enn hjá innflutningsaðilum en líkur á sama verði og s.l. vor.
En við horfum bjartsýn til næsta vors, vetur konungur hefur ekki farið mikinn það sem af er vetri.


Að lokum vil ég þakka sunnlenskum kúabændum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu. Takk fyrir.“


2. Reikningar félagsins – Elín Bjarnveig Sveinsdóttir gjaldkeri félagsins kynnti reikninga félagsins vegna ársins 2009.
Tekjur félagsins á árinu 2009 voru 1.401.878 kr og hagnaður ársins var 244.639 kr. Eignir félagsins 31.12.2009 voru 1.443.142 kr á bankareikningi.


Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrlsu stjórnar og reikninga félagins

Nokkrar fyrirspurnir voru um reikningana úr sal varðandi stofnun kennitölu og styrk til Jötunn Véla sem gjaldkeri gerði betur grein fyrir.

Reikningar félagsins voru bornir upp og samþykktir samhljóða.


3. Kosningar:
(a) Formaður
Kosning formanns var leynileg og skrifleg. Atkvæði fóru þannig:
Þórir Jónsson 28, Elín Bjarnveig Sveinssdóttir 1, ógild atkvæði 1.
Þórir Jónsson er því réttkjörinn formaður félagssins


(b) 9 fulltrúar í félagsráð og 3 varamenn.
Kosning fulltúa í félagsráðs til tveggja ára. Kjörnefnd hafði undirbúið kosningu félaga í félagsráð. Í kjörnefninni unnu Ólafur Helgason, Ásmundur Lárusson og Hlynur Theódórsson. Fundarstjóri skipaði talningarnefnd í henni starfa Runólfur Sigursveinsson, Margrét Ingjaldsdóttir, Björn Harðarson og Ásmundur Lárusson.
Atkvæði fóru þannig:

Aðalmenn
1-2 Bóel Anna Þórisdóttir 29 atkv.
1-2 Jóhann Nikulásson 29 atkv
3-4 Björn Harðarson 27 atkv
3-4 Jórunn Svavarsdóttir 27 atkv
5 Samúel U. Eyjólfsson 25 atkv
6 Katrín Birna Viðarsdóttir 24 atkv
7-8 Guðbjörg Jónsdóttir 23 atkv
7-8 Kjartan Magnússon 23 atkv
9 Reynir Þór Jónsson 18 atkv

Til vara
Sævar Einarsson 14 atkv
Guðni Þór Guðmundsson 13 atkv
Pétur Guðmundsson 13 atkv


(c) 9 fulltrúar á aðalfundi LK og 9 varamenn
Fundarstjóri bar upp tillögu stjórnar.
Aðalfundur Félags kúabænda haldinn í Árhúsum Hellu 1. febrúar 2010 samþykkir að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund Landssambands kúabænda til félagsráðs. Kosningin skal vera skrifleg og leynileg.
Tillagan var samþykkt samhljóða.


(d) 5 fulltrúar á aðalfund BsSl og 5 til vara
Fundarstjóri bar upp tillögu stjórnar.
Aðalfundur Félags kúabænda haldinn í Árhúsum Hellu 1. febrúar 2010 samþykkir að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands til félagsráðs. Kosningin skal vera skrifleg og leynileg.
Tillagan var samþykkt samhlóða.


(e) 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara
Tillaga var um sömu skoðunarmenn og áður Maríu Hauksdóttir og Einar Haraldsson og til vara Daníel Magnússon og Rút Pálsson.
Tillagan var samþykkt samhljóða.


4. Stefnumótun danskra kúabænda til 2013. Hvað má læra á henni?
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK
Baldur Helgi hélt erindi um stefnumótun danskra kúabænda til ársins 2013 og hvað við íslenskir kúabændur gætum lært af henni. Hann fjallaði um þróun mjólkurframleiðslunnar í Danmörku á síðustu árum og um stöðu búgreinarinnar. Það kom fram að um tveir þriðju framleiðslunnar er til útflutnings. Mikil sveifla er á mjólkurverði til bænda og gríðarleg skuldsetning er, en um eða yfir 80% framleiðslunnar fer fram í nýlegum fjósum. Stefnumörkunin er yfirgripsmikil og er sett fram í níu eftirfarandi liðum:
1) Arðsöm mjólkurframleiðsla
2) Skilvirk kjötframleiðsla
3) Samkeppnishæf framleiðsluaðstaða
4) Fæðuöryggi
5) Fyrirtækjastjórnun
6) Þjónusta við kúabændur morgundagsins
7) Dýraheilbrigði
8) Besta ráðgjöfin
9) Samskipti og sýnileiki greinarinnar


Niðurstaða Baldurs Helga er sú að við getum lært af Dönum með því að setja okkur skýr og mælanleg markmið. Þeirra markmið eru sett þannig fram að aðeins bestu búin eigi möguleik á að ná þeim. Þeir erum óhræddir að tala um óþægilegu hlutina og vinna í þeim andstætt því sem hér tíðkast. Hann fjallaði um ráðgjafaþjónustuna sem er á tímamótum og leiðir til að tryggja samkeppisstöðu greinarinnar um fólk og fjármagn.

Að erindinu loknu opnaði fundarstjóri fyrir umræður

Katrín Birna Viðarsdóttir spurði hvort að þessar upplýsingar væru inn á vef LK. Baldur Helgi sagði að það væri í vinnslu.

Guðmundur Stefánsson spurði um hvort að það sé nýtt að Danir setji sér markmið og spurði hvort að það sé hægt að ná þeim.

Baldur Helgi sagði að að Danir hefðu reynslu af markmiðasetningu og hægt væri að ná þessum markmiðum af þeim sem draga vagninn, það er verið að vinna eftir þessum markmiðum til að lifa af.


5. Ávarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði fundarmenn og gat um nokkur mál sem varða landbúnaðinn. Hann taldi mjólkurframleiðsluna vera eina öflugastu búgreinina og að allir þeir sem koma að vinnslu afurðanna mega vera stoltir af. Hann ræddi þau viðhorf sem verið hafa til landbúnaðar á síðustu árum um að flytja inn allar landbúnaðarvörur. Taldi að nú væru breyttir tímar því að ekki væri til gjaldeyrir í landinu til þess innflutings. Hann kom inn á matvælaöryggi þjóðarinnar og stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Hann telur brýnt að tryggja lagaumhverfi landbúnaðarins og hefur hann skipað nefnd til að fara ofan í jarða- og ábúendalöggjöfina til að styrkja stöðu landbúnaðarins. Hann ræddi um löggjöf sem liggur fyrir hjá ríkistjórn um að framfylgja búvörusamningum um skráningu á framleiðslunni. Hann kom inn á samkeppni og um þau grunnatriði sem tekist er á um. Hann taldi að grunngildi samvinnuhugsjónar og félaghyggju eiga vel við núna. Hann ræddi um umsóknarferli að aðildarumsókn til ESB og þá vinnu sem er í gangi. Hann kynnti að á vef ráðuneytisins væri aðgengileg sú vinna sem er í gangi varðandi ESB og lítur að ráðuneytinu, enda á umræðan að vera upplýst og opinber. Hann ræddi um stöðu grunnatvinnuveganna í landinu og nauðsyn þess að standa vörð um þá. Hafði áhyggjur af því hvernig fer þegar búið er að leggja ráðuneytið niður. Að lokum lagði hann áhersu á það að ríkinu bæri skylda til að grípa inn í ef skuldastaða greinarinnar fer á versta veg.

Að ávarpinu loknu opnaði fundarstjóri fyrir stuttar fyrirspurnir til Jóns Bjarnasonar ráðherra.

Egill Sigurðsson tók undir með Jóni um mikilvægi þess að að eiga öflugan landbúnað. Hann spurði hvort áætlun sé að afgreiða frumvarpið til landbúnaðarnefndar. Hann hvatti ráðherra áfram í þessu máli.

Jóhann Nikulásson spurði Jón út frá ávarpi hans um hvað hann ætti við ef menn væru inni í kerfinu eða ekki og hvort að það væru aðrar breytingar á reglugerðinni.

Ómar Helgason spurði út í sameiningu ráðuneyta, hvort hann muni sporna við því og hvernig?

Jón Bjarnason rakti stöðu mála varðandi vinnu ríkistjórnarinnar. Hann taldi að þeir sem væru með heimavinnslu ættu ekki að vera inni í kerfinu, vildi hann meina það, að það ætti bara að vera tiltekinn fjöldi lítra (10.000 l/bú) sem framleiða mætti umfram greiðslumarks í heimavinnslu. Hann vitnaði til samstarfssamnings ríkisstjórnarinnar og taldi að þar væru verkefni sem hann vildi ráðast í á undan því að stokka upp ráðuneytin.

Samúel Eyjólfsson spurði um skerðingar til Lífeyrisjóðs bænda, hvort það verði leiðrétt eða hvort það ætti að varpa þessum kostnaðarauka út í verðlagið.

Jón taldi jákvætt að framlenging búvörusaminganna var gerð. Hann ræddi niðurskuðinn og skýrði frá því að farið verður í skoða þessi mál og búnaðarlagasaminginn í samstarfi við BÍ.

Þórir Jónsson þakkaði Jóni Bjarnasyni fyrir að koma á fundinn. Hann fjallaði um framleiðslu umfram greiðslumark. Hann taldi að það væri ekkert u.þ.b í þessu máli og taldi lögin skýr hvað þetta varðar. Hann minnti á að það væri lykilatriði að breyting á lögunum gengi eftir eins og frumvarpið boðar.


6. Af vettvangi Landsambands kúabænda – Sigurður Loftsson fomaður LK
Sigurður Loftsson, formaður LK fór yfir verðlagsmál og kynnti verðlagsgrundvöll kúabús 1.sept 2008 til 1.des. 2009. Niðurstaðan er sú að grunvöllurinn sýnir hækkurarþörf uppá 5,76 kr/ltr. Verðlagsnefnd hefur hist og hefur verið að skoða verðþol afurða á markaði. Hann taldi að það sem skiptir mestu máli er hver verður þróun aðfangakostnaðar og á fjármagnskostnaði. Skilaboðin eru að ekki hefur verið tekin ákvörðun um verðhækkun. Nautakjötsmarkaður er í þokkalegu jafnvægi, en pressa er á innflutning. Verð til framleiðenda hefur staðið óbreytt í 22 mánuði. Eins og í mjólkinni þá er verðþol markaðarins ekki mikið.
Sigurður fjallaði um nýjar flokkunarreglur á mjólk sem tóku gildi frá og með 1. feb 2010. Helstu breytingar eru að verðskerðing vegna líftölu og lyfjaleifa er á vikugrunni í stað mánaðar. Greiðslur fyrir úrvalsmjólk verða 2% af afurðastöðvaverði eða 1,42 kr/ltr. Flokkun vegna frírra fitrusýra er tekin upp við gildistöku en verðskerðing frá 1. jan 2011. Önnur breyting er að 1. flokkur vegna líftölu fer í 200 þús.
Mál sem unnið er að á vegum stjórnar LK. Sæðingakostnaður þar sem starfshópur er að greina kostnaðinn einkum á strjálli svæðum og athuga hvað er eðilegt að gera. Snorri Sigurðsson er að fara yfir á vegum LK hvort að ástæða sé að endurskoða aðbúnaðarreglugerðina.
Skipting b- og c-greiðslna. Verið er að athuga hvort að það sé ástæða til að deila b og c greiðslum eftir mánuðum. Ákveðið verður að leggja tillögu þess efnis fyrir aðalfund LK. Annað málefni sem verið er að skoða fyrir aðalfund hvort að ástæða verður til að stofna kvótamarkað. Til að tryggja gegnsæi viðskipta með kvóta og þar verði allur kvóti seldur. Breytingar á búvörulögum sem hafa verið ræddar hér fyrr á fundinum er málefni sem LK hefur verið vinna að í langan tíma. Sigurður ræddi um stefnumótunarvinnu LK og að lítið hefur miðað síðustu mánuði m.a. vegna ESB mála. Hann ræddi nauðsyn þess að mynda minni starfshóp til að fara betur ofan í málefnin. Sigurður ræddi um stefnumörkun danskra kúabænda og taldi við gætum lært mikið af þeim. Hann ræddi um ársfund fagráðs í nautgriparækt og þær áherslur sem þar kæmu fram.
Að erindinu loknu opnaði fundarstjóri fyrir umræður

Bóel Anna Þórisdóttir spurði nánar út í nýju reglugerðina varðandi fríar fitusýrur. Hvort að einstök mæling gilti. Hún spurði einnig hvort að kröfurnar séu meiri eða minni hér í samanburði við önnur lönd.

Guðmundur Stefánsson spurði um sæðingarstarfsemina. Hann spurði hvort að það eigi að sameina sæðingastarfsemina á landsvísu. Hann taldi að það væru ekki aðeins um að ræða landfræðilegar orsakir á lágum kostnaði hér. Heldur einnig vel reknu fyrirtæki og góðu fyrirkomulagi að þakka.

Sigurður svaraði varðandi gæðamálin, þá gildir margfeldismeðaltal mánaðarins en ekki einstök mæling. Fríar fitusýrur eru vandamál annarsstaðar en ekkert land hefur tekið upp skerðingu nema Norðmenn sem eru að herða sínar reglur úr 1,3 í 1,1. Varðandi endurskoðun á sæðingarstarfsemi þá er ekki verið að sameina starfsemina á landsvísu.

Samúel Eyjólfsson spurði hvort að það séu margir bæir sem eru með of háar fitusýrur.

Sigurður sagði að um 5% búa hefðu verið í vandræðum, en það hefur verið unnið í því að leysa þessi mál og taldi að þessi tala hafi lækkað.

Jórunn Svavarsdóttir spurði um geymdu mjólkurverðs hækkunina, hún spyr hvort að hún sé nokkuð gleymd.

Sigurður taldi að verðlagsgrundvöllurinn væri að verða úreltur. Sagði að geymda hækkunin væri ekki gleymd.

Birna Þorsteinsdóttir talaði um búnaðarsjóðsgjaldið og vildi brýna formanninn í því að ná fram lækkun. Hún spyr um hlut LK í búnaðarmálagjaldinu.

Daníel Magnússon spurði um orsök fyrir fríum fitusýrum, telur þær verða mismunandi milli kúa sem eru mjólkaðar með sömu tækjum.

Sigurður upplýsti að LK hafi fengið 50 milljónir á síðasta ári út úr búnaðargjaldinu. Sigurður sagði frá nefnd sem fjallaði um málið milli búnaðarþinga, en niðurstöðuleysi nefndarinnar er áhyggjuefni en málið mun fara fyrir komandi búnaðarþing. Taldi að útslagið á fríum fitusýrum sé í tækniþættinum en margir aðrir þættir hafa einnig áhrif.


7. Til kynningar, breyting á samþykktum LK – Þórir Jónsson
Þórir fór yfir vinnu laganefndar LK og kynnti tillögu að breytingum á lögum LK. Í nefndinni störfuðu auk hans Jóhannes Jónsson og Jóhanna Hreinsdóttir. Nokkrar umræður voru um þessar breytingar. Tillagan verður tekin til umfjöllunar meðal félagráðs FKS svo og á komandi aðalfundi LK.


8. Önnur mál
Björn Harðarson talaði um aðgerðir bankana þegar kemur að því að lánin eru tekin úr frystingu. Hann brýndi BSSL og FKS í að tryggja að samræming sé á vinnunni og úrræðunum til þeirra sem málið varðar.

Valdimar Guðjónsson spurði Baldur Helga um þá nefnd sem hann situr í vegna umsókar í ESB.

Arnheiður Dögg Einarsdóttir spurði um móttframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

Guðbjörg Jónsdóttir þakkaði fyrir góð erindi á fundinum. Hún vakti athygli á lágum launum stjórnarmanna. Hún lagði fram tillögu til hækkunar stjórnarlaunum, sem hún dró síðan til baka og lagði til að félagsráð tæki málið frekar til endurskoðunar. Hún svaraði spurningu Arnheiðar um mótframlagið og sagði að áætlað er að framlagið verði greitt út að fullu fyrri hluta ársins eins langt og fjárveitingin nær. En þetta mál er eitt af því sem er til skoðunar í viðræðum BÍ og landbúnaðarráðuneytisins.

Baldur Helgi skýrði frá vinnu sinni um Evrópumál.

Fundarstjóri lagði fram tillögu stjórnar:


Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum á Hellu 1.febrúar 2010 krefst þess af ríkisstjórn og ráðherra landbúnaðarmála, að tekið verði til þinglegrar meðferðar sem fyrst, frumvarp um breytingar á ákvæðum laga sem varðar markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks og ákvæði um álagningu dagsekta verði skýrð og einfölduð. Þannig verði óvissu um framleiðslu og afsetningu mjólkur utan greiðslumarks eytt og að allir framleiðendur sem og afurðastöðvar verði jafnir fyrir þeim lögum og reglum sem í gildi eru.

Greinargerð:
Öll framleiðsla á lögbýli, bæði sem seld er í afurðastöð og heimaunnin mjólk telst með í uppgjöri greiðslumarks fyrir viðkomandi lögbýli samkvæmt útgefinni reglugerð.
Heimavinnsla mjólkur og sala fer nú vaxandi og það er eðlilegt að tölulegar upplýsingar liggi fyrir um þá vinnslu. Þeir framleiðendur sem ætla að fara út í heimavinnslu eða eru komnir af stað er enginn greiði gerður með því að óvissa ríki um mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks. Hér er ekki verið að leggja stein í götu heimavinnslu en sú framleiðsla sem og önnur þarf að fara að þeim leikreglum og lögum sem eru í gildi.
Vöntun á úrræðum til að tryggja ákvæði búvörulaga um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkaði geta valdið miklu uppnámi ef miklu magni mjólkur utan greiðslumarks verður beint inn á innanlandsmarkað.
Sunnlenskir kúabændur leggja áherslu á að það frumvarp sem liggur fyrir Alþingi fái þá afgreiðslu að óvissu verði eytt.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

Jóhann Nikulásson fjallaði um þá glufu sem framleiðsla utan greiðslumarks vegna heimavinnslu er.

Daníel Magnússon vill að aðalfundur FKS beini því til sveitarfélaga að sporna við vargfugli vegna útbreiðslu salmonellusmits. Hann óskaði eftir því að bændur fengju að endurskoða skráningu á mjólkurmælingum áður en niðurstöðutölurnar eru gerðar opinberar, því það skila ekki allir sínum mjólkurskýrslum sjálfir.


Þórir Jónsson tók til máls. Hann þakkaði fyrir stuðninginn í kosningu til formanns, hann þakkaði einnig þeim sem hættu í félagsráði fyrir samstafið og óskaði nýjum félagsráðsmönnum til hamingju.


Fleira ekki rætt og Þórir Jónsson formaður FKS sleit fundi kl 16:07


back to top