Óska eftir úrræðum fyrir bændur

Einar Kr. Guðfinnsson og Guðlaugur Þór Guðlaugsson, þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa sent formönnum Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og Viðskiptanefndar bréf og óskað eftir sameiginlegum fundi nefndanna þar sem farið verði yfir skuldamál í landbúnaði og þau úrræði sem standi bændum til boða.

Bréf þingmannanna til formanna nefndanna:


Atli Gíslason, formaður Sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar


Lilja Mósesdóttir, formaður Viðskiptanefndar.


Undirritaðir óska hér með eftir að haldinn verði sameiginlegur fundur Sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar og Viðskiptanefndar Alþingis þar sem farið verði yfir skuldamál í landbúnaði  og þau úrræði sem bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa boðið upp á gagnvart bændum í ljósi skuldastöðu þeirra.


Það er ljóst að skuldamál landbúnaðarins hafa all mikla sérstöðu.  Rekstur búa og heimila er samantvinnaður og þarf því að taka á þeim málum með nokkuð öðrum hætti en hjá einstökum atvinnugreinum eða gagnvart heimilunum í landinu. Þessi mál eru og  þess eðlis að þau snerta verkefnasvið beggja nefnda, Sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar og Viðskiptanefndar og er því farið fram á sameiginlegan fund nefndanna.


Þess er eindregið farið á leit að þessi fundur verði haldinn í þessari viku, þar sem árlegt Búnaðarþing hefst nú á sunnudaginn. Ósk okkar er sú  að á fundinn verði boðaðir fulltrúar Bændasamtakanna og Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytisins. Að loknum þessum fundi verði tekin ákvörðun um hvort ástæða sé til að kalla jafnframt fyrir nefndina fulltrúa fjármálafyrirtækja.


Virðingarfyllst,


Einar K. Guðfinnsson


Guðlaugur Þór Þórðarson.


 


back to top