8. fundur 2007

Þann 7. desember 2007 var haldinn stjórnarfundur BSSL á skrifstofu sambandsins.

Þessir voru mættir: Þorfinnur Þórarinsson, Egill Sigurðsson, Guðni Einarsson, Ragnar Lárusson og Guðmundur Stefánsson. Einnig sat fundinn Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.

Fyrir var tekið: 1. Brunavarnir í sveitum. Fundinn sat undir þessum lið Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri BÁ. Þorfinnur fór yfir þær breytingar sem hafa orðið í sveitum með tilliti til brunahættu, einkum hvað varðar sjálfvirkan rafbúnað í fjósum. Kristján fór yfir byggingarefni sem eru allmikið notuð en hafa ekki viðkenningu frá eldvarnareftirliti og standast ekki kröfur byggingareglugerðar og hafa komið við sögu í brunum undanfarið. Þá ræddi hann um rafbúnaðinn og einkum rafknúnar hurðir sem ekki eru opnanlegar eftir að rafmagn fer af. Fram kom að ábyrgð á að byggingaefni standist reglugerð liggur hjá byggingameistara en ekki hjá eftirlitsaðilum. Rætt var um breyttar ástæður fyrir hólfun húsa í eldvarnarhólf, útgönguleiðir, reykskynjara með boðtæki, aðgang að vatni til slökkvistarfa. Fram kom tillaga um að brunavarnarkerfi í gripahúsum verði tekið inn sem styrkhæf framkvæmd skv. búnaðarlagasamningnum. Einnig að óska eftir samstarfi við Brunavarnir Árnessýslu um úttekt á nokkrum fjósum með tilliti til brunavarna. Ákveðið að setja upp reykskynjara með boðtæki í fjósið á Stóra-Ármóti.

 2. Heygæði og leiðbeiningar. Fundinn sátu undir þessum lið Runólfur Sigursveinsson og Jóhannes Símonarson. Runólfur skýrði frá niðurstöðum úr heysýnum og stöðunni á kjarnfóðurmarkaðnum.Þá sagði hann frá nýju fóðurmatskerfi sem er í undirbúningi og farið er að nota á Norðurlöndum. Þá var rætt um Sunnu- og Sómaverkefnin. Jóhannes taldi rétt að leggja áherslu á greiningu og heimsóknir til einstakra bænda og samanburðarskýrslu milli búa en ekki sé farið út í aðgerðaáætlanir nema þörf sé á.

 3. Klaufskurðarbás. Lagt fram yfirlit um kostnað við kaupin á klaufskurðarbásnum. Útlagður kostnaður Bssl. er nál. 3,5 millj. fyrir utan bíl sem til þarf. Klaufskurður er hafinn og er almenn ánægja með hann.

 4. Sauðfjársæðingar. Sveinn fór yfir ganginn í þeim upphafi sauðfjársæðingatímans.

 5. Lóð Kynbótastöðvarinnar. Lagður fram leigusamningur til 20 ára um lóð kynbótastöðvarinnar í Þorleifskoti, milli Kynbótastöðvarinnar og landeigenda Laugardæla. Stjórnin felur framkvæmdastjóra að fullnusta samninginn fyrir hönd Kynbótastöðvarinnar

 6. Landbúnaðarsýningin 2008. Sveinn skýrði frá stöðu mála varðandi undirbúning, mönnun nefnda, merki sýningarinnar o.fl. Ræddur ýmis undirbúningur.

 7. Formannafundurinn o.fl. 2008. Ákveðið að halda formannafundinn með nokkru hátíðasniði í tilefni af 100 ára afmælinu. Stefnt að því að hafa síðdegisfund og enda á kvöldverði. Stefnt að því að halda fundinn á hótelinu á Selfossi 18.janúar. Rætt um tilnefningu á nýjum heiðursfélögum. Kynnt prufuprentun af dagatali fyrir 2008.

 8. Bændabókhaldið. Sveinn skýrði stöðuna í þeirri starfsemi.

 9. Önnur mál. Framkvæmdastjóri þakkaði stjórninni sýndan heiður á fimmtugsafmæli hans.

 
Fleira ekki fyrir tekið, fundargerð upplesin og samþykkt.

Guðmundur Stefánsson, fundarritari  back to top