1. fundur 2008 – haldinn 31. janúar

Þann 31. janúar 2008 var haldinn stjórnarfundur BSSL á skrifstofu sambandsins.

Þessir voru mættir: Þorfinnur Þórarinsson, Egill Sigurðsson, Ragnar Lárusson og Guðmundur Stefánsson. Einnig sat fundinn Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri. Guðni Einarsson boðaði forföll vegna veðurs.

Í upphafi var farið yfir framgang hátíðarformannafundarins og svo var fyrir tekið:

  1. Ákvörðun um aðalfund. Stefnt að því að halda hann 18.apríl í Aratungu.
  2. Farið yfir stöðu dótturfyrirtækja Búnaðarsambandsins. Reikningar fyrir sl. ár liggja ekki fyrir en skoðaðar voru bráðabirgðatölur úr bókhaldi.
  3. Jóhannes Símonarson kom á fundinn og sat hann undir þessum lið. Hann skýrði frá undirbúningi Landbúnaðarsýningarinnar, sem haldin verður á Hellu 22.-24.ágúst í sumar. Haft hefur verið samband við fjölmarga aðila, félagasamtök og fyrirtæki, sem munu taka þátt í sýningunni á einhvern hátt. Fengið hefur verið veffangið ,,landbunadarsyning.is”. Kynnt voru drög að samningi við Rangárbakka, hestamiðstöð Suðurlands.ehf. og Rangárhöllina ehf. um sýningarsvæðið á Hellu.
  4. Farið var yfir stöðu Bændabókhaldsins. Á fundinn kom Skafti Bjarnason og sat fundinn til loka þessa dagskrárliðar. Útskýrði hann reksturinn og áherslur varðandi hann á næstu misserum og lagði fram áætlun þar að lútandi.
  5. Sveinn skýrði frá fundi fagráðs í hagfræði. Runólfur Sigursveinsson sat fundinn undir þessum lið. Stefnt er að því að endurskoða reglur um búrekstraráætlanir sem styrkhæfar eru skv. búnaðarlagasamningi. Rædd var um útlitið í búrekstri í ljósi gífurlegra hækkanna á rekstrarvörum og stefnt að því að Búnaðarsambandið efli áburðarleiðbeiningar í vetur og standi fyrir námskeiðum um áburðarnotkun.
  6. Farið yfir rekstur og starfsemi tilraunabúsins á Stóra-Ármóti. Rætt um að nýta framleiðslumöguleikanna betur þar og um möguleika á að gera þar áburðartilraunir í vor.

Fleira ekki fyrir tekið, fundargerð upplesin og samþykkt.

Guðmundur Stefánsson, fundarritari


back to top