6. fundur – haldinn 12. október

Stjórnarfundur BSSL 6/2015.

Á fundinn sem haldinn var í fundarsal BSSL og hófst kl 15:30 mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson formaður, Jón Jónsson, Baldur Indriði Sveinsson og Gunnar Kr. Eiríksson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð. Hrafnhildur Baldursdóttir nýráðinn tilraunastjóri mætti á fundinn þegar málefni Stóra Ármóts voru til umfjöllunar.
1. Sveinn sagði frá viðræðum sínum við formann LK Sigurð Loftsson um að Stóra Ármót komi að sem einangrunarstöð við innflutning á erfðaefni fyrir holdanaut. Formlegt erindi hefur þó ekki komið og hugmyndirnar aðeins til kynningar. Stjórnarmenn tóku vel í að leggja verkefninu lið en töldu ástæðu til að fara varlega. Skynsamlegt þykir að huga að byggingu einangrunarstöðvar sem væri innan tvöfaldrar girðingar eins og reglugerðin kveður á um og Sveini falið að kanna hvar heppileg staðsetning slíkrar stöðvar væri.
2. Hrafnhildur greindi frá störfum sínum sem tilraunastjóra en hún er í 40 % starfshlutfalli fyrst um sinn og hóf störf 1. september. Hún vinnur að því að skipuleggja tilraun sem átti að hefjast um sl.áramót um áhrif fóðrunar á efnasamsetningu mjólkur og þá einkum fitu. Stjórnin lýsti ánægju sinni með ráðningu Hrafnhildar en tilraunastarf á Stóra Ármóti hefur verið í óvissu frá síðustu áramótum.
3. Rætt var um væntanlegan fund í kvöld á Hótel Selfossi sem Búnaðarsambandið stendur fyrir en til fundarins mæta Erna Bjarnadóttir Hagfræðingur BÍ og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og fjalla um tollasamninga Íslands við ESB. Ragnar Lárusson mun stýra fundi en haft hefur verið samband við formenn svína,- kjúklinga,- og kúabænda og munu þeir koma með undirbúnar fyrirspurnir til ráðherra um væntanleg áhrif af samningunum.
4. Sveinn fór yfir starfsmannahald hjá Kynbótastöðinni. Árni Gunnarsson sem starfað hefur sem afleysingarmaður og þá einkum á Vikursvæðinu hefur látið af störfum. Bjarki Guðmundsson frá Vestri-Sámsstöðum mun sinna afleysingum á því svæði fyrst um sinn og Guðmundur Skúlason mun leysa af á tveimur starfsvæðum, þ.e. á svæði Braga og Halldórs.
5. Ákveðið var að hækka gjald fyrir klaufskurð þar sem gjaldið stendur ekki undir kostnaði. Tímagjald úr kr 6.500,- í kr 7.500,- á klst. Komugjald úr kr 17.000,- í 18.000,- kr á klst.
6. Sveinn greindi frá nýjum hrútum og væntanlegri djúpfrystingu nú í nóvember.
7. Starfsemi og starfsmannahald Búnaðarsambandsins var til umræðu en Kristín Björnsdóttir hefur verið að glíma við alvarleg veikindi frá því í sumar. Óvíst er hvenær hún kemur til starfa en nú eru batahorfur góðar og vonandi nær hún heilsu sem fyrst. Sigrún Valdimarsdóttir hefur verið okkur til aðstoðar í bændabókhaldi en fyrirhugað er að hún komi til starfa hjá okkur í fullt starf um áramót. Guðbjörg Jónsdóttir aðstoðaði við gerð vsk skýrslna í ágústmánuði.
Fleira ekki og fundi slitið og þá var gengið til kvöldverðar á Hótel Selfossi þar sem Erna Bjarnadóttir og Sigurður Ingi snæddu með stjórninni fyrir fundinn um tollasamninginn sem haldinn var seinna um kvöldið.
Sveinn Sigurmundsson

 


back to top