6. fundur 2000

Fundargerð


Þann 30. ágúst 2000 var haldinn stjórnarfundur Bs.Sl. Allir stjórnarmenn mættir ásamt framkvæmdastjóra.

Í upphafi fundar kynnti formaður viðurkenningarskjal frá Landssambandi kúabænda, sem veitt var fyrir frumkvæði í notkun nýrrar tækni í upplýsingamiðlun til kúabænda. Einnig fór hann orðum um nýafstaðna velheppnaða kúasýningu sem Búnaðarsamband Suðurlands stóð fyrir. Í tilefni af þessu þakkaði hann starfsmönnunum mjög vel unnin störf og tóku aðrir fundarmenn undir það. Formaður afhenti síðan blómvönd frá stjórn til starfsmanna sem Guðmundur Jóhannesson veitti viðtöku.  1. Þorfinnur skýrði frá því að einn fundur hafi verið haldinn með landeigendum Laugardæla um mörk milli Stóra-Ármóts og Laugardæla. Áfam verður unnið að lausn málsins.
  2. Sveinn framkvæmdastjóri skýrði frá því að hann hafi setið 16 fundi í nefnd um salmonellusýkingu sem kom upp sl. vetur. Tíðni smits í sýnum af bæjum hefur snarminnkað og er að hverfa.
  3. Valur skýrði frá störfum nefndar um framkvæmd sauðfjársamningsins. Nefndin telur hæpið að allir bændur geti farið í eins ítarlegt skýrsluhald og sauðfjárræktarfélögin eru með, en telur rétt að setja lágmarksskilyrði. Búfjáreftirlit verði sem einfaldast og skilvirkast. Gæðahandbók verði sem einföldust og skilyrði hennar hafi ekki aukakostnað í för með sér. Varðandi vottun á ástandi beitilands bendir nefndin á markvissa uppgræðslu og hagabætur í heimalöndum og eftirlit með nýtingu afrétta ásamt mikilli fjárfækkun. Enn er óljóst hvernig verður staðið að gæðastýringarþætti samningsins af hálfu Framkvæmdanefndar búvörusamninga. Valur fór nokkrum orðum um hagkvæmni aukins fallþunga fyrir slátrunina og kjötvinnsluna.
  4. Sveinn skýrði frá horfum um uppkaup á greiðslumarki sauðfjár á Suðurlandi. Samið hefur verið um sölu á 4300 ærgildum frá 43 bændum. Rúmlega 30 bændur í viðbót hafa fengið samningseyðublöð send.
  5. Sveinn skýrði frá úttekt á jarðskjálftatjónum á ræktun og tjónum sem hafa valdið röskun á rekstri búa. Um er að ræða 14 mál.
  6. Sveinn skýrði frá starfsemi Búnaðarsambandsins. Mikil vinna hefur verið við skráningu hrossa og sýningar. Sýningargjöld standa ekki undir kostnaðinum. Vaxandi vinna er við bókhald og skattframtöl. Fram kom að gjaldskrá Bssl og Kynbótastöðvarinnar hefur hlotið staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins. Meðal haustverka verður ómskoðun gimbra, kvíguskoðun, úttekt jarðabóta, áframhaldandi efling Sunnuverkefnisins og búrekstrargreining fyrir sauðfjárbændur og hrossabændur. Þá verður myndaður hópur áhugafólks um fjósbyggingar. Ákveðið var að halda formannafund í haust og athuga með fyrirlestur um áhrif hugsanlegrar inngöngu Íslands í EB á íslenskan landbúnað. Í nóvember fara 6 ráðunautar í kynnisferð til Nýja-Sjálands. Ákveðið var að Búnaðarsambandið styrki ferðina. Egill spurðist fyrir um lífeyrisskuldbindingar Búnaðarsambandsins. Málið er í athugun.
  7. Sveinn skýrði frá starfsemi Kynbótastöðvarinnar. Sumarsæðingar eru alltaf að dragast saman. Yfir hluta sumarleyfatímans sinnir hver frjótæknir tveimur svæðum.
  8. Fram kom að verið er að þróa samstarf við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Fyrirhugað er að 30% staða hjá Bs.Sl. tilheyri þessu samstarfi. Fyrirhugað er að starfsmaður frá Bútæknideild verði mánaðarlega til viðtals hjá Bssl og verði þá safnað viðtalstímapöntunum fyrirfram.
  9. Ákveðið var að boða alla varastjórnarmenn á næsta stjórnarfund, sem haldinn yrði nálægt mánaðamótum september-október.
  10. Farið að Stóra-Ármóti í skoðunarferð og farið yfir helstu tilraunaverkefni með Grétari tilraunastjóra.
Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt.

Guðmundur Stefánsson
fundarritari


back to top