5. fundur 2000

Fundargerð


Þann 27. júní 2000 var haldinn fundur í stjórn Bs.Sl. í húsi þess. Allir stjórnarmenn mættir ásamt Guðmundi Jóhannessyni, ráðunaut, Ara Teitssyni, formanni BÍ, Magnúsi Sigsteinssyni, Byggingaþjónustu BÍ og Guðmundi Stefánssyni, forstöðumanns Lánasjóðs landbúnaðarins.



  1. Rætt um afleiðingar jarðskjálftanna á Suðurlandi.
    Ari Teitsson ræddi um mismunandi mat á fasteignum eftir því hvenær hefur verið endurmetið í hverju sveitarfélagi. Hann og Þorfinnur ræddu við Frey Jóhannesson hjá Viðlagasjóði og fór Ari yfir ýmis atriði sem máli skipta við mat á skemmdum og uppgjör á tjónabótum.
    Guðmundur Stefánsson, forstöðum. Lánasjóðs landbúnaðarins, taldi að á flestum jörðum væri ekki vandamál með útgreiðslu bóta gagnvart veðum sjóðsins. Á einstökum jörðum muni þurfa að skoða málin betur. Hægt væri að afgreiða lánsumsóknir á mjög stuttum tíma.
    Magnús Sigsteinsson sagði að Byggingaþjónustan væri þegar byrjuð að aðstoða bændur varðandi áætlanir um endurbyggingar.

    Ákveðið að gefa út fréttabréf þar sem tjónþolar fá upplýsingar um það sem gera þarf og um þá þjónustu sem í boði er. Lagðir voru fram punktar sem gætu nýst í því skyni. Þá var rætt um tjón á því sem ekki er brunatryggt og þar með ekki viðlagatryggt, t.d. veitulagnir einstaklinga, framræsluskurði og ræktun. Möguleiki er á að hin almenna deild Bjargráðasjóðs komi þar að.
    Ákveðið var að þetta málefni hafi forgang hjá Búnaðarsambandinu og ákveðið verður á næstu dögum hvaða starfsmaður sinni þessu.


  2. Valur greindi frá störfum samráðsnefndar um sauðfjárrækt (sbr. síðasta stjórnarfund). Í nefndinni eru Valur Oddsteinsson, Árni Þorvaldsson og Jens Jóhannsson og með þeim starfar Fanney Ólöf Lárusdóttir, ráðunautur. Nefndin hefur efasemdir um að rétt sé að stefna öllum bændum í kynbótaskýrsluhald. Eftirlit með beitarþoli verði aukið og útgáfu gæðahandbókar eða reglna verði flýtt.
    Valur lagði áherslu á hagræðingu á öllum sviðum sauðfjárræktarinnar og nefndi ekki síst aukinn fallþunga sem auka myndi hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu.

Fleira ekki gert. Fundargerð upplesin og samþykkt.

Guðmundur Stefánsson
fundarritari


back to top