4. fundur 2000

Fundargerð


Þann 8. júní 2000 var haldinn fundur í stjórn Bs.Sl. í húsi þess. Allir stjórnarmenn mættir ásamt framkvæmdastjóra. 1. Gestir eru væntanlegir á fundinn (sjá neðar) og var farið yfir þau málefni sem ástæða var til að ræða við þá. Einkum var rætt um sauðfjársamninginn og hvaða áhrif uppkaup á greiðslumarki munu hafa á Suðurlandi. Sú hugmynd kom fram að stofna stuðningshóp sauðfjárbænda sem ynnu með sauðfjárræktarráðunautum að úttekt á stöðunni í greininni og leiðbeiningum í tengslum við gæðastjórnunar ákvæðið.

  Þá mættu eftirtaldir gestir á fundinn:
  Sigurgeir Þorgeirsson framkvæmdastjóri B.Í.
  Sólrún Ólafsdóttir búnaðarþingsfulltrúi
  Ólöf Lárusdóttir sauðfjárræktarráðunautur
  Árni Þorvaldsson Bíldsfelli formaður Félags sauðfjárbænda í Árn.
  Jens Jóhannsson Teigi fyrir Félag sauðfjárbænda í Rang. og
  Þórhildur Jónsdóttir Ketilsstöðum formaður Félags sauðfjárbænda í V-Skaft.

  Sveinn reifaði þær hugmyndir sem fram hafa komið og gæðastýringarþátt nýja búvörusamnings.
  Sigurgeir fór yfir hugmyndir og áform B.Í. um gæðastýringu samkvæmt nýja sauðfjársamningnum. Hann taldi að ekki réðist við það að taka flestalla sauðfjárbændur í rekstrartengda ráðgjöf með núverandi forriti Búhag. Markmiðið með gæðastýringu er þó bættur rekstur. Margir tóku til máls. Fram kom að óvissa er hjá sauðfjárbændum hvort þeir ná gæðavottun, en sum héruð eiga allt undir því og þess vegna þarf að liggja sen fyrst fyrir í hverju gæðastýringin felst.
  Fanney lagði fram yfirlit yfir þá þætti er varða gæðastýringu í sauðfjárrækt.
  Rætt um hvort hægt sé að sameina útttekt á gæðastýringu útttekt annars t.d. forðagæslumanns eða héraðsdýralæknis.
  Ákveðið var að skipa í 3 manna nefnd til að vinna með sauðfjárræktarráðunaut að útfærslu búfjársamningsins á þessu svæði. Stjórnin tilnefndi Val Oddsteinsson í nefndina. Sauðfjárræktarfélögin á svæðinu skipa hina tvo.


 2. Á fundinn kom Katrín Andrésdóttir héraðsdýralæknir. Hún kynnti stöðuna í salmonellumálinu og þær reglur sem gilda þegar bæir eru settir í farbann. Þessi mál horfa nú til betri vegar.


 3. Rætt um landamerki milli Laugardæla og Stóra-Ármóts. Sveinn Sigurmundsson vinnur áfram að upplýsingaöflun varðandi þetta mál en óskar eftir að draga sig í hlé náist ekki samkomulag um mörk vegna skyldleika við ábúendur Laugardæla.
  Til fundarins komu Ásbjörn Blöndal frá Selfossveitum og Þorvaldur Guðmundsson stjórnarformaður veitanna. Selfossveitur hafa borðað rannsóknarholu í Stóra-Lambhaga, sem er ofan við Lambhagatá, sem er landamerkjapunktur fyrir Stóra-Ármót. Aðilar voru sammála um að flýta því að koma landamerkjum á hreint.


 4. Sveinn sagði frá ferð hans, Eggerts og Þorfinns að Rala og Hvanneyri. Rætt var við forsvarsmenn Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rala um tilraunastarfið á Stóra-Ármóti. Áfram unnið að drögum þar að lútandi um samstarfssamning við Rala og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
  Áhugi er hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri að staðsetja hlutastarf hjá Bs.Sl. til þess að sinna námskeiðshaldi og verknámsnemum.
  Í kjölfar viðræðna við Bútæknideild Rala á Hvanneyri hefur verið skrifað bréf þar sem óskað er eftir samstarfi um leiðbeiningar á bútæknisviði.
  Einnig ræddu þeir við stjórnarformann Framleiðnisjóðs Bjarna Guðmundsson á Hvanneyri og mættu þar jákvæðum viðhorfum.
  Farið var yfir ný drög að samningi Rala, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Stóra-Ármóts ehf. um tilraunastöðina á Stóra-Ármóti. Drögin eru komin til aðstoðarmanns ráðherra sem boðar til næsta fundar.


 5. Rætt um starfshætti stjórnar og stefnumótun fyrir Bs.Sl. Allir stjórnarmenn tóku til máls og ákveðið að taka þessi mál betur til umræðu síðar.


 6. Önnur mál:
  Eggert spurði um lífeyrisskuldbindingar Bs.Sl. Sveinn ætlar að taka það saman fyrir næsta fund.
  Sveinn kynnti kúasýningu sem á að vera í Ölfushöll 26. ágúst n.k.

Fundargerð upplesin og samþykkt.

Guðmundur Stefánsson
fundarritari


back to top