4. fundur – haldinn 14. júní 2017

Á fundinn sem haldinn var á Stóra Ármóti mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson Gunnar Kr. Eiríksson. formaður, Sigurjón Eyjólfsson og Helgi Eggertsson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð. Sigurður Loftsson var á fundinum meðan holdagripabúið var til umræðu. Höskuldur Gunnarsson og Hilda Pálmadóttir voru á fundinum meðan umræða um holdagripabúið og Stóra Ármót fór fram.

1. Fundurinn byrjaði á vettvangsgöngu og skoðun við byggingarframkvæmdir holdagripafjósins á Stóra Ármóti.

2. Bygging holdagripafjóssins. Sigurður Loftsson formaður Nautís og Sveinn Sigurmundsson fóru yfir stöðu mála. Búið er gera grunn, haugkjallara og plötu. Veggir eru að rísa. Búið er að kaupa mikið af efni og búnaði en kostnaður stendur í 65 milljónum í dag og er þá búið að girða megnið af úthringnum. Búið er að taka fósturvísa í Noregi sem heppnaðist vel. Næstu skref fyrir utan að halda áfram með bygginguna eru að finna hentugar kýr í verkefnið og vinna að því að afla tilskilinna leyfa við innflutninginn. Stefnt er að því að setja fósturvísana í kýrnar um miðjan september.

3. Stóra Ármót. Farið var yfir fyrirhugaðar breytingar á fjósinu á Stóra Ármóti en í sumar verður fjósinu breytt í lausagöngufjós með legubásum. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 24 milljónir en fengist hefur styrkloforð upp á 1,7 milljónir úr fjárfestingastuðningi í nautgripasamningi. Bústjórar gáfu yfirlit um búrekstur og vorverk.

4. Aðalfundargerðin. Farið var yfir þau skilaboð sem stjórnin fékk á aðalfundinum og þær tillögur sem samþykktar voru en stjórnin fól formanni og framkvæmdastjóra að ræða við forsvarsmenn MAST um langtímasamning um þau verkefni sem snúa að úttektum í samræmi við búvörusamninga.

5. Undirritanir stjórnar vegna stofnunar nýrra bankareikninga á nýju einkahlutafélögunum og vegna yfirfærslu eigna Kynbótastöðvar Suðurlands yfir í Kynbótastöð ehf.

6. Sveinn greindi frá starfsemi BSSL en þar kom m.a. fram að Halla Kjartansdóttir vinnur sem verktaki við túnkortagerð og að í haust er fyrirhugað að Gunnar Ríkharðsson sem vinnur við bændabókhald komi að úttektum vegna landgreiðlsna og jarðræktarstyrkja. Sveinn og Ólafur Þór munu einnig sinna þeirri vinnu eftir því sem þörf er á og aðstæður þeirra leyfa. Sveinn lagði fram yfirlit yfir kostnað við endurskoðun fyrirtækjanna. Kostnaður er nærri 3 milljónir og framkvæmdastjóra falið að leita leiða við að lækka þann kostnað.

7. Umsókn um tímabundið skotleyfi á álft. Í samráði við lögfæðing og framkvæmdastjóra Bændasamtakanna hefur verið lögð inn umsókn í nafni bústjóra Stóra Ármóts um tímabundið skotleyfi á álft.

8. Önnur mál. Óskað var eftir því af hálfu stjórnar að fundargerðir kæmu fyrr og jafnar inn á heimasíðu Búnaðarsambandsins. Rætt um að útbúa eyðublað fyrir þá bændur sem eru með leigutún og ætla að sækja um landgreiðslur en þá þarf undirskrift landeigenda.

Fleira ekki og fundi slitið
Sveinn Sigurmundsson

 


back to top