1. fundur 5. febrúar

Stjórnarfundur BSSL haldinn 5. febrúar 2021.

Á fundinn sem haldinn var á Stóra Ármóti mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson, Gunnar Kr. Eiríksson. formaður, Björn Helgi Snorrason og Helgi Eggertsson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð.

1. Heimsókn í Nautís
Á næstunni er von á 13 kálfum undan Jens av Grani og Angus kvígunum sem fæddar eru 2018 og 2019. Þá bera 3 íslenskar kýr í vor með fósturvísum undan Emil av Lillebakken. Kálfarnir 6 sem eru í einangrun eru núna 6 mánaða og nautin um 400 kg á fæti. Vöxtur er jafn og góður en nautin sýna um 1500 gr á dag í þungaaukningu.

2. Framtíð Stóra Ármóts
Fyrir fundinum lá samantekt um stöðu og hlutverk Stóra Ármóts. Ljóst er að ekkert samstarf er sem stendur við LBHÍ og líka að skólinn hefur markað sér stefnu um að vera með fóður- og nautgripatilraunir á Hvanneyri. Góðir möguleikar eru á að framkvæma jarðræktartilraunir á Stóra Ármóti þar sem um mismunandi jarðvegsgerðir er að ræða. Góð samvinna og samlegðaráhrif við starfsemi Nautís. Sú hugmynd að hætta með féð og taka fjárhúsið undir Angus holdakýr með það að markmiði að selja lífdýr hlaut ekki hljómgrunn meðal stjórnarinnar. Bæði er að í gjafabréfinu eru tilmæli um að sauðfjárrækt sé stunduð á búinu og líka að æskilegt væri að gera meira af athugunum eða tilraunum tengdu sauðfé. Þá var á það bent að hófleg sauðfjárbeit væri landbót og hefði jákvæð áhrif á bindingu kolefnis. Sú hugmynd hefur komið fram að nota kúabúið sem ræktunarkjarna þegar farið verður að nota úrval út frá erfðamörkum í ræktunarstarfinu. Fundarsalurinn hefur nýst til bændafunda og námskeiðahalds og margir möguleikar á að nota búið bændum til hagsbóta. Þá var samþykkt að hefja undirbúning við að kaupa mjaltaþjón og leggja tillögur þar um ásamt fjármögnun fyrir næsta stjórnarfund.

3. Fjárhagsstaða Bssl og fyrirtækja þess.
Fjárhagsáætlanir hafa að mestu farið eftir og flest fyrirtækjanna með góða eða jákvæða niðurstöðu á síðasta ári.

4. Tillögur stjórnar BÍ um nýtt félagskerfi.
Varaformaður BÍ Oddný Steina Valsdóttir sendi nýjar upplýsingar og hugmyndir um breytingu á félagskerfinu en þar kemur m.a fram að Búnaðarþing verður 22. og 23. mars nk og þá verður tillaga stjórnar BÍ um breytingu á félagskerfi bænda tekin fyrir til afgreiðslu. Verði hún samþykkt verður stefnt að því að tillögurnar nái fram að ganga á miðju ári.

5. Aukið samstarf og samvinna við BÍ.
Sveinn greindi frá því að framkvæmdastjórar þeirra búnaðarsambanda sem eru með einhverja starfsemi hafa ásamt tveimur stjórnarmönnum BÍ fjallað um hlutverk og starfsemi búnaðarsambanda og skilað greinargerð þar um. Þar kemur m.a fram að mikilvægt sé að búnaðarsamböndin haldi þeim verkefnum sem þau hafa og frekar að þau fái ný verkefni en um leið að vera tenging BÍ við bændur á svæðinu. Í tillögum BÍ er rætt um aukna samvinnu við búnaðarsamböndin sem m.a gætu falist í eflingu á félagsstarfi bænda heima í héraði, innheimtu félagsgjalda þeirra félaga búnaðarsambanda sem eru aðilar að BÍ og fleira.
6. Breytingar á lögum BSSL.
Á næsta Búnaðarþingi á að leggja fram breytingar á samþykktum BÍ. Óhjákvæmilegt er að laga lög Búnaðarsambandsins að þeim og auk þess fara yfir aðrar breytingar. Málið verður til umræðu hjá okkur á næsta aðalfundi og nauðsynlegt að skipa laganefnd. Stjórnin ræddi um aðild að Búnaðarsambandinu en í dag eru aðildarfélög sem mynda fulltrúalýðræði sem tryggir dreifingu fulltrúa um svæðið á aðalfund. Ekki þótti ástæða til að huga að breytingum á því og taka upp beina aðild að búnaðarsambandinu eins og sum búnaðarsambönd hafa gert.

7. Sauðfjársæðingastöð.
Sæddar voru 11.750 ær með fersku sæði frá stöðinni og um 400 ær með frystu sæði. Aukning um nærri 1400 ær milli ára sem er gleðilegt. Búið er að koma á BS nemendaverkefni við LBHÍ þar sem skoða á tengsl við gæðamat á hrútasæði við fanghlutfall einstakra hrúta. Þá er líka hugmynd um að nota fjárbúið á Stóra Ármóti við að skoða mismunandi aðferðir við frystingu hrútasæðis.

8. Kynbótastöð.
Sveinn greindi frá því að frjósemi á sumum kúabúa er léleg og reynt hefur verið að fara yfir málið með frjótæknum og fá þá til að ræða við bóndann um leiðir til úrbóta. Nú í janúar fóru Þorsteinn dýralæknir, Úlfhéðinn frjótæknir og Sveinn í heimsókn á stórt kúabú þar sem frjósemi er ábótavant og funduðu með bændunum um úrbótaleiðir.

9. Önnur mál
Rætt var um það fjármagn sem fengist fyrir heita vatnið á Stóra Ármóti. Sveinn greindi frá að endurskoðandinn teldi að tekjurnar af heita vatninu tilheyrði Stóra Ármóti ehf og ættu að tekjufærast þar. Hinsvegar er skuld Stóra Ármóts við Búnaðarsambandið rúmar 30 milljónir og því alveg hægt að greiða hana niður ásamt vaxtagreiðslum eftir því sem búið ræður við. Þá ræddi Gunnar um að hann vildi skoða samning Stóra Ármóts við Selfossveitur og ef ástæða væri til að eiga fund með stjórn Selfossveitna. Erlendur Ingvarsson sagðist ekki mundi gefa kost á sér áfram í stjórn Búnaðarsambandsins en hann hefur setið í 9 ár en kosið verður um fulltrúa Rangæinga í stjórn á næsta aðalfundi.

Fleira ekki og fundi slitið
Sveinn Sigurmundsson

 

 

 

 


back to top