Viðvörunarkerfi almannavarna prófað í dag

Í dag, þriðjudaginn 29. maí klukkan 16:00, verður prófað viðvörunarkerfi almannavarna, sem sendir neyðarskilaboð (SMS) í farsíma. Með kerfinu er hægt að senda skilaboð í farsíma á fyrirfram ákveðnu svæði til að vara íbúa og ferðamenn við aðsteðjandi hættu. Svæðið sem valið er til prófunar í dag er á þjónustusvæði símafyrirtækjanna í Vík í Mýrdal, en boðin geta borist í farsíma sem eru nokkuð frá Vík. Skilaboðin verða send frá Neyðarlínunni, númerinu 112 og verða á íslensku og ensku og eiga að berast í alla farsíma, erlenda og innlenda á ofangreindu svæði.

Með viðvörunarkerfinu getur Neyðarlínan kallað fram alla farsíma, sem eru innan þjónustusvæðis símafyrirtækjanna á tilteknu svæði og sent þeim neyðarskilaboð.
 
Að verkefninu standa Neyðarlínan, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Síminn, Nova, Vodafone og hugbúnaðarfyrirtækið Samsýn. Margir aðilar hafa lagt sitt af mörkum við þróun og prófanir á kerfinu og einnig veitti Alþingi fjárveitingu til verkefnisins.
 
Viðvörunarkerfið er mikilvægt skref í að auka öryggi íbúa landsins og ferðamanna og verður notað í framtíðinni ásamt öðrum hefðbundnum viðvörunum almannavarna til að vara við hættu.
 


back to top