Starfsmannabreytingar hjá Bændasamtökunum

Hjá Bændasamtökum Íslands hafa orðið nokkrar mannabreytingar undanfarin misseri.

Nýr landsráðunautur í bútækni er Unnsteinn S. Snorrason frá Syðstu-Fossum í Borgarfirði. Hann hóf störf sem ráðunautur í bútækni hjá Byggingaþjónustu BÍ 1. júlí sl. Unnsteinn er búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1997 og lauk kandidatsprófi í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands 2001. Unnsteinn hóf meistaranám við sama skóla árið 2004 og var í hlutastarfi hjá BÍ frá mars 2007, samhliða meistaranámi, sem hann lýkur í næsta mánuði. Magnús Sigsteinsson sem starfað hefur á þessu sviði mörg undanfarin ár vinnur áfram hjá BÍ í hlutastarfi.

Þá munu þrír nýir starfsmenn hefja störf nú um mánaðarmótin á sviði nautgriparæktar, þar af tveir í hlutastarfi. Hallgrímur Sveinn Sveinsson hætti hjá samtökunum  1. júlí sl. og Jón Viðar Jónmundsson mun hætta störfum fyrir búgreinina þegar nýir starfsmenn taka við. Jón Viðar mun þó áfram starfa hjá samtökunum og einbeita sér að sauðfjárræktinni í framtíðinni auk þess sem hann mun væntanlega verða nýjum starfsmönnum nautgriparæktarinnar innan handar fyrst um sinn.

Magnús B. Jónsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri mun taka við starfi nautgriparæktarráðunautar hjá Bændasamtökunum um næstu mánaðamót. Magnús verður í hlutastarfi. Magnús þarf vart að kynna, en hann lauk dr. scient prófi í kynbótafræði frá NLH að Ási í Noregi 1969, við búfjárrannsóknir í Noregi til 1970 og nautgriparæktarráðunautur hjá BSSL til 1972. Allt frá þeim tíma hefur hann verið í forsvari fyrir skóla- og fræðslustarf landbúnaðarins á Hvanneyri.


Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir, frá Svertingsstöðum í Eyjafjarðarsveit, tekur einnig við starfi nautgriparæktarráðunautar ásamt Magnúsi um næstu mánaðamót. Hún verður í hlutastarfi fyrst um sinn. Gunnfríður er búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1999 og lauk kandidatsprófi í búvísindum frá LBHÍ 2003. Þá lauk hún meistaraprófi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 2005. Hún er nú doktorsnemi við LBHÍ frá 2006 auk þess sem hún er stundakennari við LBHÍ frá 2006.


Sigurður Kristjánsson frá Ketilstöðum á Tjörnesi, hefur störf á sviði nautgriparæktar í næsta mánuði. Sigurður er búfræðingur frá Hvanneyri 1985, lauk prófi frá undirbúnings- og raungreinadeild Tækniskólans 1987 og búfræðikandidatsprófi frá Búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri 1991. Sigurður var bóndi í Skuggahlíð í Norðfirði frá 1987 til 1999 en frá 1999 til 2006 vann hann við ættfræðigagnagrunn hjá Friðriki Skúlasyni ehf. og ÍE.

Starfsmenn BSSL bjóða nýja starfsmenn BÍ velkomna í hóp íslenskra landbúnaðarráðgjafa og þakkar þeim sem kveðja samstarfið á liðnum árum.


back to top