Samkeppniseftirlitið gagnrýnir samruna KS og Mjólku harðlega

Samkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun og álit um samruna Kaupfélags Skagfirðinga (KS), Mjólku og Vogabæjar. Samkeppniseftirlitið gerir ekki athugasemdir við samruna KS og Vogabæjar og kemst sömuleiðis að þeirri niðurstöðu að eftirlitið hafi ekki lögsögu varðandi samruna KS og Mjólku. Fyrirtækin séu bæði afurðastöðvar í mjólkuriðnaði og samruni þeirra falli ekki undir gildissvið samkeppnislaga enda sé ákvæði í búvörulögum sem heimili sameiningu afurðastöðva. Þrátt fyrir þetta gagnrýnir Samkeppniseftirlitið samrunann harðlega og segir að um sé að ræða samkeppnishamlandi aðgerð.

Samkeppniseftirlitið beinir jafnframt þeim tilmælum til ráðherra að hann beiti sér fyrir afnámi 71. greinar búvörulaga um samruna afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Sömuleiðis að búvörulögum verði breytt með þeim hætti að heimilt verði að skipta upp mjólkurafurðastöðvum.


Í áliti Samkeppniseftirlitsins er því haldið fram að samvinna mjólkursamlaga innan Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) sé skaðleg fyrir neytendur og framleiðendur og leiði til hærra vöruverðs. Þá gagnrýnir eftirlitið landbúnaðarráðuneytið harðlega fyrir samkeppnishamlandi vinnubrögð við undirbúning lagafrumvarpa og reglna. Er þar sérstaklega tiltekið frumvarp til breytinga á búvörulögum þar sem gert var ráð fyrir að refsa mætti afurðastöð sem tæki við mjólk utan kvóta og setti á innanlandsmarkað. Þetta gagnrýndi Samkeppniseftirlitið meðal annars með minnisblaði til ráðuneytisins en það taldi ljóst að ef lagafrumvarpið hefði orðið að lögum hefði það komið sér illa fyrir Mjólku í samkeppni við afurðarstöðvarnar innan SAM. Rétt er þó að halda til haga að samkvæmt lögum skal umframmjólk markaðssett erlendis og í umræddu fraumvarpi var ekki verið að breyta þeim lögum heldur eingöngu verið að taka upp refsiábyrgð.


Álitið snertir mjólkuriðnaðinn í heild
Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri KS vildi ekki tjá sig mikið efnislega um álit samkeppnisstofnunar en sagði ljóst að álitið sneri að mjólkuriðnaðinum í heild en ekki aðeins sameiningu KS og Mjólku. Hins vegar væri ljóst að með þessum ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins væri samruni KS og Vogabæjar og KS og Mjólku staðfestur.


Rögnvaldur Ólafsson varaformaður SAM tók í sama streng og Þórólfur. „Það er ljóst að ákvæði búvörulaga eiga við um sameiningu KS og Mjólku og mér þykir tilkynning Samkeppniseftirlitsins í hæsta máta furðuleg í því ljósi. Ég hefði haldið að það væri Alþingis að setja lög og Samkeppniseftirlitsins að vinna eftir þeim.“


Fyrirkomulag hér á landi leiðir ekki til hærra vöruverðs
Einar Sigurðsson framkvæmdastjóri Mjólkursamsölunnar segir félagið hafna því að það fyrirkomulag sem sé hér á landi á mjólkurvinnslu og sölu leiði til hærra vöruverðs til neytenda en ella. „Mjólkursamsalan er félag í eigu um 700 kúabænda um allt land og við bendum á mjólkurvinnslan er eina atvinnugreinin með beinni aðkomu neytenda að verðlagningu með setu fulltrúa stéttarfélaga í verðlagsnefndum hráefnis frá bændum og afurða til neytenda. Mjólkuriðnaðurinn hefur farið í gegnum gríðarlega hagræðingu undanfarin ár og afkoma í greininni undanfarið og tölulegar staðreyndir sýna glöggt að þeim ávinningi hefur verið skilað til neytenda í formi lægra vöruverðs en ella og bænda í formi hærra afurðaverðs“ segir Einar.


Einar segist jafnframt telja að Samkeppniseftirlitið hafi öll þau tæki sem þarf til að sinna eftirliti með starfsháttum á þessum markaði og öll gögn Mjólkursamsölunnar standi eftirlitinu vitaskuld opin.


Fagnar áliti Samkeppniseftirlitsins
Ólafur M. Magnússon forstjóri Mjólku fagnar áliti og ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. „Ég get tekið undir hvert orð í áliti Samkeppniseftirlitsins. Hvernig búið er um hnútana í þessari grein er með ólíkindum. Það er ekkert launungarmál að það er algjörlega nauðsynlegt að auka samkeppni í þessari grein sem við erum að starfa í. Sú skoðun mín breytist ekkert þó að við förum að vinna með Kaupfélagi Skagfirðinga. Það á að afnema allar undanþágur frá samkeppnislögum í þessari grein eins og öðrum.“


Ólafur segir gleðiefni að í áliti Samkeppniseftirlitsins sé það staðfest að tilkoma Mjólku á markaðinn hafi haft afgerandi áhrif til lækkunar á vöruverði til neytenda. Jafnframt er  gleðiefni að fá KS inn sem sterkan bakhjarl fyrir Mjólku. „Kaupfélag Skagfirðinga er félag sem hefur staðið mjög vel vörð um sína hagsmuni og sinna umbjóðenda og borið höfuð og herðar yfir önnur samvinnufélög í landinu. Ég vona að Mjólka verði áfram það afl sem að muni veita aðhald á þessum markaði.“


Smellið hér til að skoða ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um samruna KS og Vogabæjar.


Smellið hér til að skoða ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um samruna KS og Mjólku.


Smellið hér til að skoða álit Samkeppniseftirlitsins um málið í heild sinni.


back to top