Málsvörn svínaræktenda af aðalfundi

Svínaræktarfélag Íslands hefur sent frá sér ályktun í kjölfar aðalfundar þann 26. apríl sl., m.a. vegna neikvæðrar og illa upplýstrar umræðu um matvælaverð á Íslandi og þátt íslensks landbúnaðar, þar á meðal svínaræktarinnar í því. Kemur þar einnig fram að aðalfundurinn líti á loforð ríkisstjórnarinnar til verkalýðshreyfingar í nýgerðum kjarasamningum, um frekari lækkun tolla á innfluttar matvörur, sem hreina aðför að íslenskum landbúnaði.

Aðalfundurinn mótmælir einnig þeim áformum að opna landið fyrir innflutningi á fersku kjöti um mitt næsta ár, sem muni ógna góðu heilbrigði íslensks búfjár og heilnæmi matvæla. Er þess krafist að gripið verði til nauðsynlegra mótvægisaðgerða til verndar innlendri búvöruframleiðslu.

Hér að neðan er ályktunin í heild sinni:

Aðalfundur Svínaræktarfélags Íslands haldinn í Bændahöllinni 26. apríl 2008 harmar þá neikvæðu og illa upplýstu umræðu sem fram hefur farið á seinustu vikum um matvælaverð á Íslandi og þátt íslensks landbúnaðar í því, þar á meðal svínaræktarinnar.

Látið hefur verið að því liggja, bæði af hálfu einstakra fjölmiðla, einstakra stjórnmálamanna, að ógleymdum forstjóra öflugustu smásölukeðjunnar í landinu, að íslensk svínarækt sé ekki landbúnaður, eða í besta falli svo óþjóðlegur landbúnaður, að ekki sé verjandi að vernda þessa grein með háum tollmúrum, eins og sagt er. Þá hefur verið gefið í skyn að einungis séu í húfi jafn mörg störf og nemur fjölda svínabúa í landinu.

Hér er um mikla vanþekkingu að ræða eða vísvitandi blekkingar, nema hvort tveggja sé. Í landinu eru um þessar mundir rúmlega 4.000 gyltur og gera má ráð fyrir að þær séu í frumframleiðslunni að skapa um 80-90 ársverk. Við slátrun og úrvinnslu á svínakjöti eru um 400 störf þannig að samanlagt skapar svínaræktin ein og sér mörg hundruð störf í landinu.

Hvað þjóðlegheitin varðar dregur fundurinn stórlega í efa að svínaræktin noti í reynd meiri erlend aðföng, reiknað í gjaldeyri, en hinar svonefndu hefðbundnu greinar landbúnaðarins. Í því sambandi má t.d. nefna að svínaræktin notar mun minna af eldsneyti, innfluttum áburði, vélum og tækjum o.fl.

Fundurinn minnir á að einungis er ár liðið frá því tollar á innflutt kjöt og kjötvörur voru lækkaðir um 40% og magnkvótar tollfrjáls kjötinnflutnings auknir til muna. Vart er við því að búast að kjötframleiðslan í landinu sé búin að aðlagast þessum breyttu aðstæðum. Með það í huga lítur fundurinn svo á að loforð ríkisstjórnarinnar til verkalýðshreyfingarinnar í nýgerðum kjarasamningum um enn frekari lækkun tolla á innfluttar matvörur sé hrein aðför að íslenskum landbúnaði. Á sama tíma er fyrirhugað, skv. framlögðum stjórnarfrumvörpum á Alþingi, að opna landið fyrir innflutningi á fersku kjöti um mitt næsta ár, sem tvímælalaust mun ógna góðu heilbrigði íslensks búfjár og heilnæmi matvæla.

Aðalfundurinn mótmælir framangreindum áformum og krefst þess, verði þau að veruleika, að gripið verði til nauðsynlegra mótvægisaðgerða til verndar innlendri búvöruframleiðslu.


back to top