Enn versnar hagur svínabænda

Sláturfélag Suðurlands hefur lækkaði verð á svínakjöti til bænda um 8% í gær. Þann 8. feb. s.l. hafði verðið hækkað um 9% en nú er sú hækkun tekin til baka og verðið orðið það sama og það var frá 6. júlí í fyrra. Þannig er verð á Grís IA til bænda nú 280 kr/kg. Ástæður lækkunarinnar eru gríðarlegt offramboð á svínakjöti og stöðug undirboð á markaði að sögn Sláturfélagsins. Allt eins má búast við frekari verðlækkunum á næstunni.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hefur svínabúið á Brautarholti á Kjalarnesi verið tekið til gjaldþrotaskipta í annað sinn á 7 árum. Arion banki hefur lagt fram tilboð um yfirtöku og að sögn hefur bankinn ekki önnur áform en halda rekstri búsins áfram. Kröfur bankans í þrotabúið nema um einum milljarði króna. Þetta vekur óneitanlega spurningar um hvernig bankinn hyggst ná þessum fjármunum til baka því ekki er að sjá að hagnaður af rekstri svínabúa sé slíkur að staðið verði undir slíkum skuldbindingum. Þá má einnig spyrja ef bú geta farið í gjaldþrotaskipti með ákveðnu ára millibili og fengið afskrifaðar hundruðir milljóna króna hvers konar stöðu það setur aðra framleiðendur í.


back to top