Villandi fréttaflutningur af vöruflæði milli Íslands og ESB

Vegna frétta undanfarna daga um að íslensk stjórnvöld vinni að innleiðingu frjáls vöruflæðis milli Íslands og ESB hefur landbúnaðarráðuneytið sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

„Í tilefni af fréttaflutningi um að stjórnvöld vinni nú að því að innleiða frjálst flæði matvöru milli Íslands og Evrópusambandsins vill landbúnaðarráðuneytið taka fram eftirfarandi:
Undanfarin misseri hefur staðið yfir vinna innan Stjórnarráðsins sem miðar að innleiðingu hérlendis á Evrópureglum um öryggi matvæla. Samhliða þessu hefur staðið yfir endurskoðun á undanþágum sem Ísland hefur fram til þessa notið frá viðauka I við EES-samninginn um heilbrigði dýra og afurða þeirra, sem leitt getur til upptöku samræmdra reglna á þessu sviði um annað en það sem varðar lifandi dýr.

Þær breytingar sem af þessu starfi geta leitt fela fyrst og síðast í sér samræmingu á lögum og reglum um öryggi matvæla. Slík samræming er til einföldunar og greiðir eðli máls samkvæmt fyrir gagnkvæmum milliríkjaviðskiptum. Innleiðing Íslands á matvælalöggjöf Evrópusambandsins og yfirtaka á reglum viðauka I hefði hins vegar ekki í för með sér breytingu á tollum eða tollkvótum sem Ísland beitir í milliríkjaviðskiptum, hvorki gagnvart Evrópusambandinu né öðrum ríkjum. Að sama skapi hefði slík breyting ekki áhrif á þá tolla og tollkvóta, sem Evrópusambandið beitir í viðskiptum við Ísland. Að þessu virtu má vera ljóst að villandi er að fjalla um frjálst vöruflæði milli Íslands og Evrópusambandsins í þessu sambandi, sem gefur til kynna önnur viðskiptakjör en gilda í raun.“


back to top