Vilja að bankar hætti kúabúskap

Aðalfundi Landssambands kúabænda lauk á sjötta tímanum í gær. Á fundinum voru samþykktar samtals 17 ályktanir og m.a. harðorð ályktun vegna seinagangs lánastofnana við úrlausnir á skuldavanda kúabænda, sem og vegna þeirra úrlausna bankanna að yfirtaka rekstur búa og reka í samkeppni við bændur eins og það er orðað í ályktuninni. Þá lýsti fundurinn yfir þungum áhyggjum af afkomu nautakjötsframleiðslunnar, en á undanförnum árum hafa dunið yfir hana gríðarlegar kostnaðarhækkanir og verð til framleiðenda staðið í stað. Knýjandi er að bæta hagkvæmni framleiðslunnar og í því sambandi hvatti fundurinn m.a. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að mögulegt verði að flytja inn holdanautasæði frá viðurkenndum einangrunarstöðum erlendis í þeim tilgangi.

Sigurður Loftsson var endurkjörinn formaður LK með 33 atkvæðum og aðrir stjórnarmenn voru sömuleiðis endurkjörnir. Í stjórn og varastjórn LK sitja: Guðný Helga Björnsdóttir, Sigurgeir Hreinsson, Jóhann Nikulásson, Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Jóhanna Hreinsdóttir, 1. varamaður og Gunnar Jónsson, 2. varamaður.


Ályktanir aðalfundar LK 2010 fara hér á eftir:


1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, gagnrýnir harðlega seinagang lánastofnana við úrlausnir á skuldavanda kúabænda. Beita þarf í sem ríkustum mæli almennum skuldaleiðréttingum með það markmið að allir sitji við sama borð og að þau bú sem voru rekstrarhæf fyrir bankahrun eigi sér áframhaldandi rekstrargrundvöll.


Það er með öllu óviðunandi að rekstraraðilar séu mánuðum saman í óvissu um stöðu búreksturs síns. Því er mikilvægt að þau bú sem eru í óvissuástandi varðandi áframhaldandi rekstur fái lausn sinna mála sem fyrst, hvort heldur sem niðurstaðan verði sú að sértækum aðgerðum verði beitt til að koma skuldastöðunni í viðráðanlegt form, eða sú að búreksturinn geti ekki staðið undir skuldunum.


Afar mikilvægt er að skekkja ekki samkeppnisstöðu bænda í milli við úrlausnir einstakra mála. Þá er ólíðandi að bankarnir taki yfir rekstur búa og reki í samkeppni við bændur. Fundurinn bendir á að við skuldbreytingu erlendra lána er nauðsynlegt að hafa fyrirvara vegna hugsanlegs ólögmætis þeirra. Þá hvetur fundurinn bændur, sem standa í samningum við bankana, til að fara vel yfir þá samninga sem í boði eru og leita sér aðstoðar búnaðarsambanda eða annara hæfra aðila.


 


2. Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 26. og 27. mars 2010 leggur áherslu á að Landssamband kúabænda, Bændasamtök Íslands, búnaðarsambönd og aðrir hagsmunaaðilar starfi náið saman að úrlausn á skuldavanda bænda. Þá bendir fundurinn á að mikilvægt er að miðla sem mestum upplýsingum til bænda um þau úrræði sem standa til boða.


 


3. Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 26. og 27. mars 2010 beinir því til fulltrúa bænda í verðlagsnefnd búvöru að þeir beiti sér af fullum þunga til að ná fram þeirri hækkun á mjólkuverði til bænda sem framreikningur á verðlagsgrundvelli kúabús gefur tilefni til. Þá leggur fundurinn mikla áherslu á að verðlagsnefnd búvöru haldi áfram vinnu við að minnka þann óeðlilega mun sem er á framlegð þeirra vara sem nefndin verðleggur. Minnir fundurinn í því sambandi á eftirfarandi bókun sem gerð var við síðustu verðákvörðun nefndarinnar. “Verðlagsnefnd mun á næstu 24 mánuðum leitast við að minnka þörf á verðtilfærslu í verðlagningu mjólkurvara sem undir hana heyra”.


 


4. Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 26. og 27. mars 2010, leggur áherslu á að dýralæknaþjónusta í dreifðum byggðum landsins verði ekki skert frá því sem verið hefur.  Með dýravelferð í huga þarf að  tryggja að ávallt sé dýralæknir á vakt í öllum héruðum landsins.


Mikilvægt er að komið verði til móts við þá sem búa fjærst þjónustu dýralækna með því að nýta heimildir um ávísun og afhendingu dýralyfja til varðveislu hjá bændum.


 


5. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27 mars 2010, telur ástæðu til að ætla að á næstu árum verði umtalsverðar breytingar á rekstrarumhverfi nautgriparæktarinnar. Ýmsar blikur eru á lofti, erfið staða ríkissjóðs og versnandi fjárhagssstaða neytenda kunna að koma niður á stuðningi við greinina og greiðsluvilja kaupenda. Þar að auki hlýtur verndað umhverfi framleiðenda að leggja greininni þær skyldur á herðar að þróa hana til aukinnar hagkvæmni. Afdrifaríkustu breytingarnar gætu annars vegar orðið vegna aðildar að ESB og hins vegar vegna WTO samninga. Því fagnar fundurinn þeirri stefnumótunarvinnu sem LK og Auðhumla hafa hafið með hagkvæmari framleiðslu að markmiði og felur LK að halda áfram þeirri vinnu með eftirfarandi markmið í huga:


– Tryggja stöðu nautgriparæktarinnar sem eins af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar.


– Tryggja að þeir sem við greinina starfa hafi af því viðunandi afkomu og vinni við ásættanleg starfsskilyrði.


– Efla samkeppnishæfni greinarinnar.


– Við vinnuna verði sett mælanleg markmið þar sem það er hægt


Til að ná þessum markmiðum leggur fundurinn til að staðfastlega verði unnið að því að lækka framleiðslukostnað um 35% á næstu 10 árum. Til að það náist þarf sérstaklega að huga að eftirfarandi:


– Draga verulega úr kostnaði greinarinnar vegna viðskipta með greiðslumark.


– Öll viðskipti með kvóta verði á kvótamarkaði


– Ræða þarf sérstaklega um stærðarþróun í greininni. Hvaða áhrif hefur mjög ör þróun haft, m.a. á verð greiðslumarks? Er hægt að ná markmiði um lækkun framleiðslukostnaðar samhliða takmörkun á stærð einstakra rekstrareininga? Á að hækka framleiðsluskylduna?


– Draga úr fjárfestingakostnaði í vélum og öðrum tæknibúnaði


– Auka rekstrarvitund bænda.


– Leiðbeiningar og rannsóknir taki í auknum mæli mið af hagkvæmnissjónarmiðum.


– Reynt verði að þróa frekar verktöku/samvinnu í landbúnaði.


– Bæta nýtingu  fjárfestinga í nautgriparæktinni.


– Víða er ónýtt pláss í fjósum, hagkvæmara er að nýta það heldur en að byggja meira


– Auknar afurðir bæta nýtingu fjárfestinga.


– Lægra vaxtastig er nauðsyn í landbúnaði eins og öðrum atvinnurekstri, en er þó á annarra höndum en bænda.
 
– Fóðuröflun og fóðurverkun þarf að verða ódýrari.


– Bætt áburðarnýting. 


– Bætt fóðurnýting


– Lægri vélakostnaður.


– Hugsanlega aðrar verkunaraðferðir.


– Notkun nýrra fóðurplantna, t.d.nýrra grasstofna og belgjurta.


– Betri kýr.


– Kýrnar eru aðalframleiðslutæki kúabænda. Betri kýr eru því lykilatriði í aukinni hagkvæmni.


Markmið stefnumörkunarinnar þarf jafnframt að vera það að auka skilning almennings á þýðingu greinarinnar fyrir verðmætasköpun á Íslandi.


 


6. Aðalfundur Landssamband kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, vekur athygli á nýjum möguleikum sem skapast hafa í kynbótum nautgripa með tilkomu nýrrar þekkingar við val kynbótagripa. Þessar aðferðir verða hins vegar ekki nýttar nema hjá stórum kúakynjum sem innihalda mikla stofnstærð og er áhyggjuefni hversu gífurlegur munur verður á aðstæðum stórra og lítilla kúastofna vegna þessa. Því hvetur fundurinn fagþjónustu landbúnaðarins í samvinnu við hagsmunaaðila að leita allra leiða til að treysta samkeppnisstöðu íslenskrar nautgriparæktar.


Greinargerð


Um þessar mundir eiga sér stað gífurlegar framfarir í kynbótum nautgriparæktar á heimsvísu. Farið er að velja kynbótagripi á grunni greininga á erfðamenginu. Þessi aðferð er talin geta aukið kynbótaframfarir um tugi prósenta samanborið við núverandi ræktunarskipulag og er talin vera sambærileg bylting og tilkoma sæðinga var á sínum tíma. Þessi tækni nýtist hins vegar ekki nema hjá þeim kúastofnum sem hafa mikla stofnstærð og þar sem skýrsluhald er áreiðanlegt. Af þessum völdum má búast við að aðstöðumunur til aukningar afkastagetu og hagkvæmni í mjólkurframleiðslunni milli stórra og lítilla kúastofna muni aukast gríðarlega, þeim minni í óhag.


 


7. Aðalfundur Landssamband kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, hvetur til þess að áfram verði markvisst leitað arðbærra markaða fyrir íslenskar mjólkurafurðir erlendis, eftir því sem hægt er með hóflegum tilkostnaði. Fundurinn tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í niðurstöðu stefnumörkunarhóps um útflutning mjólkurvara frá síðasta hausti og hvetur til að unnið verði eftir henni.


 


Greinargerð


Í niðurstöðu stefnumörkunarhóps um útflutning segir m.a. um kaup á umframmjólk:


“Keypt verði af bændum magn mjólkur umfram greiðslumark, sem nemur 2% af greiðslumarki.  Fyrir mjólkina verði greitt a.m.k. sem nemur breytilegum kostnaði á vel reknu búi t.d. 40,00 kr. Greitt verði fyrir mjólkin í sömu hlutföllum og aðra innleggsmjólk út frá efnamagni og í réttu hlutfalli við greiðslumark hvers og eins. Þessi mjólkurkaup yrðu grunnur að framleiðslu mjólkurvara til útflutnings auk framleiðslu sem til fellur úr greiðslumarksmjólk. En um leið er tryggt nægjanlegt framboð mjólkur verði óvæntar breytingar á framleiðslu eða sölu innanlands. Öll önnur mjólk sem innvigtuð er umfram greiðslumark, og nýtt í framleiðslu vara til útflutnings, verði gerð upp eftirá og alfarið í takt við það skilaverð fyrir sem úr því fæst.  Slíkt uppgjör fara fram tvisvar á ári. Til að þessar hugmyndir geti gengið eftir, er afra brýnt að tryggð verði ákvæði búvörulaga um forgang mjólkur innan greiðslumarks að innanlandsmarkaði. Óviðunandi er að útflutningur mjólkurafurða sé rekin til langframa með undirballans. Aðstæður á erlendum mörkuðum munu ávallt stjórna því hvaða skilaverð bændur og vinnslan munu fá fyrir framleiðsluna. Því er afar nauðsynlegt að leita allar leiða til að lækka framleiðslu og vinnslukostnað mjólkur.“


Fundurinn leggur sérstaka áherslu á þau atriði sem þarna koma fram, en bendir jafnframt á  mikilvægi þess að hámarka á hverjum tíma svo sem kostur er virði umframmjólkur til framleiðenda. Til dæmis ætti að vera óþarfi að flytja út til sölu mjólkurduft fyrir minni framlegð en fæst fyrir hana til fóðurs hjá mjólkurframleiðendum sjálfum.


 


8. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, felur stjórn LK að vinna að því í samstarfi við BÍ og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar að öll viðskipti með greiðslumark í mjólk, sem færist milli lögbýla fari í gegnum sameiginlegan tilboðsmarkað sem taki til starfa eigi síðar en kvótaárið 2011 Þá telur fundurinn koma til greina að setja því mörk hversu mikið greiðslumark má vera í eigu sama aðila og á sama lögbýli þó ekki undir 1% af heildargreiðslumarki.


 


9. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, leggur til breytingu á skiptingu framlaga úr Búnaðarlagasamningi vegna kúasæðinga, þannig að 10 kr. verði greiddar á ekinn km. vegna sæðinga og það sem eftir stendur verði greitt út á stöðugildi. Hvatt er til þess á þeim svæðum þar sem akstur er hvað mestur að ráðnir verði staðbundnir verktakar til að annast sæðingar. Skipulögð verði námskeið til að afla þeim réttinda og stuðla að þjálfun þeirra.


 


Greinargerð


Mjög mikill munur er á akstri á sæðingu milli einstakra svæða á landinu. Að jafnaði er hann 28 km/sæðingu, allt frá 15 km. á þéttbýlustu svæðunum upp í rúmlega 50 km. þar sem lengst er á milli búa. Með þessum breytingum verður öllum þeim fjármunum sem ætlaðir eru úr Búnaðarlagasamningi til sæðingastarfseminnar deilt út með jöfnun kostnaðar í huga. Eðlilegt er að Endurmenntunarsjóður bænda komi að þjálfun staðbundinna verktaka. Jafnframt verði leitað allra leiða til að auka notkun bænda á sæðingum á hverju svæði þar sem almenn notkun sæðinga er algert grundvallaratriði við ræktun og framþróun á svo litlum kúastofni sem sá íslenski er.


 


10. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, tekur undir afstöðu Búnaðarþings og leggst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fundurinn hvetur til að aðildarumsókn að sambandinu verði dregin til baka.


Fundurinn lýsir  yfir stuðningi við þá vinnu sem er í gangi á vegum BÍ, LK og SAM vegna umræddra aðildarviðræðna.


Greinargerð


Aðild Íslands að ESB þýðir m.a. afnám tolla á öllum vörum, þar með töldum landbúnaðarvörum á innri markaði ESB. Tollar á innfluttum landbúnaðarvörum til Íslands eru mesta vernd sem íslenskur landbúnaður nýtur og styður við innlenda landbúnaðarframleiðslu. Verði tollar af landbúnaðarvörum afnumdir mun markaðshlutdeild íslenskrar landbúnaðarvöru dragast saman um tugi prósenta með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir bæði störf í landbúnaði og tengdum fyrirtækjum og þar með byggðir landsins. Það stríðir gegn hagsmunum og matvælaöryggi þjóðarinnar að leggja niður stóran hluta innlendrar landbúnaðarframleiðslu og minnka aðgengi íslenskra neytenda að innlendum landbúnaðarvörum. Óheftur innflutningur landbúnaðarvara er ekki  trygging fyrir því að verð til íslenskra neytenda muni lækka í kjölfarið.


 


11. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, leggur áherslu á eftirfarandi atriði við framkvæmd mjólkursamnings.


– B- og C- greiðslum verði hagað þannig að þær stuðli að sem mestum jöfnuði milli framleiðslu og sölu á einstökum tímabilum. Skoðað verði sérstaklega hvort framkæmanlegt sé með góðu móti að taka upp mánaðaskiptingu þessara greiðslna.


– Ekki verði frekari fjármunir fluttir af beingreiðslum yfir í aðra flokka mjólkursamningsins fyrr en í fyrsta lagi þegar verðtryggingarákvæði hans hafa að fullu tekið gildi á ný.


 


12. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, leggur þunga áherslu á að fram fari endurskoðun á innheimtu og nýtingu búnaðargjalds. Fundurinn fagnar ályktun nýliðins Búnaðarþings um skipun nefndar vegna þessa og hvetur til að störfum hennar verði hraðað. Jafnframt leggur fundurinn áherslu á eftirtalin atriði í þessu sambandi.


– Gætt verði jafnræðis við skipun nefndarinnar  hvað varðar hagsmuni og sjónarmið.


– Fyrstu skrefum í lækkun búnaðargjalds verði flýtt sem kostur er.


– Greiðslum af búnaðargjaldi í Bjargráðasjóð verði hætt og sú tryggingavernd sem þannig hefur fengist verði sótt á almennan markað.


– Niðurlagning búnaðargjalds kemur ekki til greina  án þess að áður hafi verið fundnar tryggar leiðir til að fjármagna félagskerfi bænda.


– Lögð verði áhersla á að treysta lagalegar forsendur búnaðargjaldsins gagnvart  fjármögnun félagskerfisins. Komi hinsvegar til breytinga á búnaðargjaldi af lagatæknilegum ástæðum hljóti allir, sem nú njóta af því tekna, að sitja við sama borð.


– Verkefnum í leiðbeiningaþjónustu verði forgangsraðað, þannig að skilgreint verði hvað teljist nauðsynleg grunnþjónusta sem kosta skal sameiginlega og hvaða þjónusta skuli seld.


 


13. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, brýnir stjórn LK að ná löngu tímabæru samkomulagi við tryggingafélögin um tryggingar bænda og þá sérstaklega þann hluta sem á að leysa Bjargráðasjóð af hólmi.


 


14. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, skorar á ríkisstjórn og Alþingi að afgreiða sem fyrst frumvarp um breytingar á ákvæðum búvörulaga sem varðar forgang greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkaði.


 


15. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, skorar á stjórnvöld að falla frá þeim áformum að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Fundurinn telur afar mikilvægt að efla sjálfstætt ráðuneyti um grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, landbúnað og sjávarútveg, við þær aðstæður sem nú blasa við í þjóðfélaginu.


 


16. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, skorar á ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðar og fjármálaráðherra að endurnýja nú þegar Búnaðarlagasamning og hann verði ekki skertur meira en orðið er.


 


17. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, lýsir þungum áhyggjum af afkomu nautakjötsframleiðslunnar. Á undanförnum árum hafa dunið yfir hana gríðarlegar kostnaðarhækkanir, einkum í formi hækkana á áburði og fóðri. Verð til framleiðenda hefur staðið í stað síðustu tvö ár og á undanförnum áratug hefur raunverð til framleiðenda lækkað um rúmlega fjórðung. Því er ljóst að afkoma þessarar framleiðslu fer hratt versnandi. Fundurinn hvetur stjórn LK að gæta að hagsmunum greinarinnar til að tryggja áframhaldandi tilvist hennar. Einnig er orðið knýjandi að endurnýja erfðaefni hérlendra holdanautakynja oghvetur fundurinn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir að mögulegt verði að flytja inn holdanautasæði frá viðurkenndum einangrunarstöðum erlendis í þeim tilgangi.


Greinargerð


Framleiðsla og sala nautgripakjöts hefur haldist í góðu jafnvægi síðustu mánuði og hafa þessar afurðir náð að halda hlutdeild sinni á markaði, þrátt fyrir mikið framboð annarra kjöttegunda. Árið 1994 voru Angus og Limousine holdakynin flutt til Íslands á formi fósturvísa, en ástæða innflutningsins var að “fá gripi með betri og hagkvæmari kjötframleiðslueiginleika”. Tilraunir hafa sýnt að þessar væntingar hafa gengið fullkomlega eftir.Í upphafi voru fluttir inn tveir systkinahópar. Nú, 16 árum síðar er skyldleikaræktarhnignun farin að gera verulega vart við sig í holdahjörðum bænda. Ekki er mögulegt fyrir bændur að fá nýtt blóð í hjarðirnar, þar sem hjarðirnar samanstanda af því erfðaefni sem þegar hefur verið flutt inn. Þessi staða er farin að standa rekstrarhæfni búanna verulega fyrir þrifum. Auk þess hafa orðið miklar framfarir í ræktun kynjanna erlendis á þeim tíma sem liðinn er frá innflutningi, ávinnings af þeim framförum njóta hérlendir holdanautabændur ekki að neinu leyti.  Ljóst er að sú aðferðafræði sem viðhöfð var við innflutninginn árið 1994 er gríðarlega kostnaðarsöm. Fyrir liggur að efnahagslegt svigrúm fyrir innflutning af slíku tagi er mjög takmarkað.Núverandi lagarammi um innflutning á erfðaefni búfjár heimilar ekki aðra aðferðafræði en þá sem að framan er greind. Nýlegar breytingar á lögum um innflutning búfjár og erfðaefnis þeirra heimila innflutning á svínasæði til notkunar á hérlendum svínabúum. Eðlilegt er að slíkar lagabreytingar nái einnig til innflutnings á djúpfrystu holdanautasæði. 


back to top