Útlit fyrir verðhækkun á mjólk

Ekkert lát virðist vera á hækkunum á aðföngum til búrekstrar. Verðlagsnefnd búavara mun koma saman í byrjun næsta mánaðar til að meta grundvöll mjólkurverðsins. Búast má við verðhækkunum.
Tveir stærstu fóðursalar landsins tilkynntu nýlega um 4-8% hækkun á kjarnfóðri. Koma þær til viðbótar verðhækkunum undanfarinna mánaða. Landssamband kúabænda segir að kjarnfóðurverð hafi hækkað um ríflega fjórðung á síðustu tólf mánuðum.
Áburður og sáðvörur hafa hækkað í verði og þá er ótalin olían á vélarnar og önnur aðföng til búrekstrar.

Hækkun á fóðri kemur einkum fram í kostnaði við framleiðslu á svína- og kjúklingakjöti og mjólk en breytingar á ýmsum öðrum rekstrarvörum hafa áhrif á allan kostnað búanna.


Verðlagning á svína- og kjúklingakjöti er frjáls og ræðst af framboði og eftirspurn. Þessar vörur hafa hækkað í verði á undanförnum mánuðum, miðað við vísitölu neysluverðs, en þó ekki fylgt fóðurverðshækkunum.


Grundvöllur framreiknaður
Opinber verðlagning er á mjólk. Verðlagsnefnd búvara framreiknar svokallaðan verðlagsgrundvöll kúabús. Breytingar á verði aðfanga eiga að leiða til hækkunar eða lækkunar á tekjum búsins og þar með afurðaverðinu.
Verðlagsnefndin kemur saman í byrjun júní til að taka inn nýjustu breytingar. „Það liggja fyrir talsvert stórir kostnaðarliðir að vori sem við höfum verið að hinkra eftir,“ segir Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda.


Kúabændur hafa reiknað út að þær hækkanir sem orðið hafa á helstu aðföngum síðustu tólf mánuði svari til 1,2 milljóna króna hækkunar útgjalda hjá meðal kúabúi. Það þýðir að hækka þurfi mjólkurverð til bænda um 6 krónur á lítra. Mjólkurverðið var hækkað um rúmlega 3 krónur 1. febrúar og því standa eftir tæpar þrjár krónur.


Sigurður tekur fram að hækkanir á fóðri komi misjafnlega niður og ekki sé búið að reikna nákvæmlega hvernig þær komi við vísitölubúið.


„Þetta eru beinir kostnaðarliðir sem leggjast á búin. Ef þeir fást ekki leiðréttir með hækkun afurðaverðs lækka laun bóndans, tapið eykst eða ávöxtun fjárfestingarinnar minnkar,“ segir Sigurður.


Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði leiða til hækkunar á kostnaði við vinnslu mjólkur. Ekki liggur fyrir hversu mikið. Þá gera bændur kröfu um leiðréttingu launaliðar, til samræmis við kjarasamninga.


Ekki liggur fyrir hver hækkunarþörfin er eða um hvað næst samkomulag í verðlagsnefndinni. „Það er einnig hlutverk okkar að leggja mat á það hversu miklar hækkanir við teljum hægt að setja út. Ekki þýðir að keyra upp hækkanir sem við fáum svo aftur í bakið í minnkandi sölu,“ segir Sigurður.


Góð uppskera víða um heim er eina tryggingin fyrir því að verð á fóðri og matvælum fari að lækka. Ekki er útlit fyrir sérstaka uppskeru í Evrópu og Ástralíu, að sögn Ernu Bjarnadóttur, hagfræðings Bændasamtaka Íslands, og því ekkert í spilunum sem bendir til lækkunar. Góðar uppskeruhorfur í Suður-Ameríku geta leitt til lækkunar á verði fóðurs sem byggist á sojabaunum. Þá teljast það jákvæð tíðindi að olíuverð hefur hætt að hækka.


Matvælaverð
36% hækkun varð á matarvísitölu FAO í apríl, frá sama mánuði 2010.


25% hækkun hefur orðið á kjarnfóðurverði á Íslandi á tólf mánuðum.


100 þúsund króna hækkun hefur orðið á rekstrarkostnaði meðal-kúabús á mánuði hverjum.


0% Verðbreytingar á innlendum búvörum og grænmeti hafa ekki leitt til hækkunar á vísitölu neysluverðs undanfarna tólf mánuði.

www.mbl.is, Helgi Bjarnason helgi@mbl.is


back to top