Útflutningur á heyi fer vaxandi

Útflutningur á heyi frá Íslandi hefur rúmlega fjórfaldast á síðustu sex árum að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Stærstur hlutinn fer á Færeyjamarkað, en Svíar, Grænlendingar, Danir og Rússar hafa einnig keypt hey hin síðustu ár og á þessu ári hefur hey verið sent til Frakklands og Belgíu auk Færeyja. Að sögn Gísla S. Halldórssonar hjá Matvælastofnun eru Danmörk og Belgía að byrja, en aðallega hefur þetta farið til Færeyja.

Gísli segir að til ESB-landa gildi sömu reglur og hér og því þurfi ekki sérstök vottorð þangað, en þess þurfi á Færeyjamarkað. Til að standast kröfur þurfa túnin að vera fjárheld, friðuð og einungis má bera tilbúinn áburð á þau. Þá má hvorki hafa komið upp riða né garnaveiki á bænum.


Nokkrir aðilar standa í útflutningi, úr Borgarfirði, af Austurlandi og úr Rangárvallasýslu, þaðan sem mesti útflutningurinn er. Þau hey koma að stærstum hluta af túnum í Gunnarsholti á Rangárvöllum.


Vaxandi markaðir erlendis
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands nam útflutningur á heyi árið 2006 rúmlega 300 tonnum að andvirði 6,5 milljóna, sem allt fór til Færeyja. Síðan þá hefur salan rúmlega fjórfaldast og fluttu Íslendingar út rúm 1.344 tonn af heyi árið 2011 að andvirði 43 milljóna.
Í janúar 2012 var útflutningur um 200 tonn, þar af 12,5 tonn til Frakklands. Í mars fór sending til Belgíu.


Toppgras ehf. í Hjarðartúni, við Hvolsvöll, hefur flutt út hey s.l. þrjú ár og selt mest til Færeyja. Á árinu 2010 var selt hey til Danmerkur og Svíþjóðar og hafa einnig selt á þessu ári til Frakklands. Til stendur að reyna fyrir sér á Noregsmarkaði í haust.


Toppgras selur hey í 20 kg böggum undir heitinu Heklagrass. Heyverkunin fer þannig fram að heyið er sett í heyrúllur á sumrin, látið verkast í rúllunum fram á veturinn og þá er heyið sett í 20 kg bagga.


Hafsteinn Jónsson, einn af aðstandendum Toppgrass, segir mikinn tíma og yfirlegu fara í markaðssetninguna erlendis og segir að útflutningsverðið sé talvert betra en það á innanlandsmarkaðnum.


Heyverkunin hjá Toppgrasi ehf. fer fram á leigulandi í Gunnarsholti og stefna þeir á að auka framleiðsluna talsvert á þessu ári, meðal annars með aukinni túnrækt.


Morgunblaðið 28. mars 2012, Ingvar P. Guðbjörnsson ipg@mbl.is


back to top