Ungir bændur kanna áform um innflutning kjöts

Samtök ungra bænda hafa sent erindi á 20 fyrirtæki af handahófi sem aðild eiga að Samtökum verslunar og þjónustu vegna ummæla um að samtökin ætluðu að hefja innflutning á kjöti. Erindið sem aðildarfélög SVÞ fengu sent var svohljóðandi:
„Samtök ungra bænda harma afstöðu þinna hagsmunasamtaka þ.e. Samtaka verslunar og þjónustu gangvart innlendri búvöruframleiðslu og hagsmunum bænda.

Undanfarnar vikur hafa Samtök verslunar og þjónustu farið mikinn í almennri umræðu varðandi innflutning á kjöti til Íslands. Greint hefur verið frá því að Samtök verslunar og þjónustu undirbúi nú innflutning á kjötvörum sem munu koma í beina samkeppni við innlenda framleiðslu bænda.


Innlend búvara hefur allt frá hruni haldið aftur af vísitölu neysluverðs og verði mikilvægur hlekkur í því að halda niðri verði á matarkörfu heimilanna. Ekki er nokkur vafi á að með þeirri samfélagslegu ábyrgð sem bændur hafa sýnt með því að koma ekki öllum þeim hækkunum sem þeir hafa þurft út í almennt verðlag hafa þeir tekið á sig birgðar sem fyrir vikið hafa ekki lent á neytendum.


Því þykir Samtökum ungra bænda miður að hagsmunasamtök þín vilji í heild sinni hefja innflutning á kjötvörum til Íslands og stuðla þannig að samdrætti í innlendri framleiðslu og veikara atvinnulíf innanlands. Með því að flytja inn vörur sem nú þegar eru framleiddar á Íslandi er tekin óábyrg afstaða til samfélagsins og vegið að innlendri atvinnustarfsemi.


Því spyrja Samtök ungra bænda fyrirtæki þitt hvort þessi fyrirhugaði innflutningur sé gerður í umboði þíns fyrirtækis?“


back to top