Umsóknarfrestur jarðræktarstyrkja framlengdur til 21. september

Nú hefur Búnaðarstofa gefið út frest til að skila inn jarðaræktarumsóknum til 21. september.  Því ættu þeir bændur sem hafa staðið í ræktun þetta sumarið og geta nýtt sér jarðræktarstyrki ættu að drífa í að skila inn umsókn á Bændatorgið, torg.bondi.is.  Nánari upplýsingar veitir starfsfólk Búnaðarstofu, Búnaðarsambanda og RML.

Leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar um jarðabætur

Sjálfkrafa fyllist út nafn, heimili, kennitala og upplýsingar um bú þess notanda sem er skráður inn í Bændatorgið. Eins er rétt að fara vel yfir þær upplýsingar sem eru forskráðar, svo öll númer séu rétt.

Fylla þarf út virðisaukaskattsnúmer (vsk nr.), netfang og ÍSAT númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein (krafa gerð um það samkvæmt verklagsreglum). Athugið að ISAT númer og vsk nr. verða að vera í samræmi við skráningu hjá Ríkisskattstjóra (RSK.IS), sem og að vsk.nr. verður að vera opið. Samanburður verður gerður á þessu við yfirferð umsókna. Í framtíðinni verður um beina tengingu við RSK að ræða, og er þá óþarfi fyrir umsækjendur að fylla þessar upplýsingar út. Þá er nauðsynlegt að fylla út upplýsingar um bankareikning sem leggja á styrk inn á, og er það á ábyrgð umsækjanda að fylla þessar upplýsingar rétt út.

Reglan er að landnúmer jarðar sem ræktað er á sé tengt því búsnúmeri sem fylgir umsókn og búrekstur tilheyrir. Undantekningar geta þó verið frá þessu. Bændatorgið leitar að landnúmeri samkvæmt opinberri landnúmeraskrá Þjóðskrár.

Athugið að aðeins er hægt að sækja um styrk á einu landnúmeri í hverri umsókn. Til að sækja um á fleiri en einu landnúmeri þarf að fylla út aðra umsókn. Reglan á að vera að spilda sé skráð í JÖRÐ, skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands í jarðrækt, og að til sé stafrænt túnkort í landupplýsingakerfi Bændasamtakana Íslands (loftmyndagrunnur). Við úttekt er gerð krafa til þess að allar spildur séu hnitaðar í þann grunn, og skal úttektarmaður hnitsetja nákvæmlega þá spildu eða þess hluta spildu sem sótt er um jarðræktarstyrk fyrir.

Spildur sem eru skráðar í JÖRÐ eiga að vera aðgengilegar í útfyllingu umsóknar. Velja skal þá spildu eða spildur sem sótt er um styrk fyrir ræktun á. Stærð spildurnar kemur fram ásamt nafni og möguleika á að skoða loftmynd af spildunni í JÖRÐ. Til að fara beint á spilduna þarf fyrst að skrá sig inn í forritið JÖRÐ.IS í öðrum glugga. Smellt er á Bæta við til aðfæra upplýsingar um spildu yfir á umsókn. Velja má fleiri en eina spildu í hverjum lið við útfyllingu umsóknar. Framlög má veita til sáningar á ræktarlandi þar sem korn-, tún-, grænfóður- og olíujurtarækt er ætluð til fóður- og matvælaframleiðslu, beitar eða iðnaðar. Framlög má aðeins veita ef heildarflatarmál ræktunarinnar er a.m.k. 2 ha. Uppskera er kvöð. Framlag á hvern ha. fyrir hvert bú er kr. 17.000 á ha. frá 1-30 ha. og kr. 12.000 á ha. frá 30-60 ha. Framangreind stærðarmörk eru 2,5 sinnum hærri á svínabúum. Greitt er út á heila ha. og venjulegar reglur um upphækkanir gilda. Framlög skerðast á hvern ha. hlutfallslega ef fjármunir hrökkva ekki til. Ef afgangur verður deilist hann jafnt á alla ræktaða ha. (3. gr. verklagsreglna).

Rétt er að undirstrika að í þeim tilfellum sem grasfræi er skjólsáð með grænfóðri eða korni fæst jarðræktarstyrkur viðkomandi uppskeruár. Þó svo að uppistaða uppskeru 1. árs sé grænfóður eða korn og uppskera 2. árs sé gras fæst aðeins einn jarðræktarstyrkur vegna framkvæmdarinnar.

Sjá nánar verklagsreglur í viðaukum II og III í Reglugerð um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum 2015 nr. 1100/2014 /

 


back to top