Tilraunastarfið á Stóra-Ármóti – Átgeta íslenskra mjólkurkúa.

Nú í vetur stendur yfir rannskókn á Stóra-Ármóti á átgetu íslenskra mjólkurkúa.  Tilurð rannsóknarinnar er þörf á bættum jöfnum fyrir átgetu íslensku mjólkurkýrinnar í NorFor fóðuráætlunarkerfinu.  Tilraunamaður er Baldur I. Sveinsson en hann sér um gjafir, mælingar og sýnatöku á fóðri.

Hrafnhildur Baldursdóttir vann jöfnur í M.Sc. verkefni sínu við landbúnaðarháskólann í Ås, Noregi (UMB) árið 2010 þar sem hún vann úr þeim gögnum sem þá þegar hafði verið aflað um átgetu íslensku mjólkurkýrinnar. Jöfnurnar hafa verið góð byrjun til að nálgast átgetu íslenskra mjólkurkúa við innleiðingu NorFor kerfisins á Íslandi.  Hins vegar þarf frekari gögn um átgetuna svo hægt sé að stilla jöfnurnar enn betur af og þróa kerfið áfram líkt og stöðugt er gert fyrir hin mjólkurkúakynin í NorFor kerfinu.  Það er markmið M.Sc. verkefnis Lilju Daggar Guðnadóttur við LbhÍ undir leiðsögn Jóhannesar Sveinbjörnssonar og Grétars Hrafns Harðarsonar.

Í febrúar-apríl 2013 fóru fram átmælingar hjá 18 kúm. Allar kýr fengu sama fóður, heilfóður með u.þ.b. 55% kjarnfóðri. Mælingarnar stóðu yfir í 9 vikur. Át og nyt var skrásett daglega og þyngd og holdastig voru skráð vikulega ásamt því að mjólkursýni og gróffóður-, heilfóður-, kjarnfóður- og byggsýni voru tekin reglulega. Þá var stubblengd heilfóðurs einnig mæld.
Seinni hluti rannsóknarverkefnisins byrjaði nú í nóvember 2013 og lýkur í apríl 2014. Mjólkurkúm á Stóra Ármóti er skipt upp í 3 meðferðarhópa, A: Heilfóður með 55% kjarnfóðri, B: Heilfóður með 45% kjarnfóðir og C: aðskilin fóðrun sem stefnir að 45% kjarnfóðri. Meðferð C byggir á því að gróffóðurátið stýrist af kjarnfóðuráti, kvígur fá þar 8,5 kg kjarnfóður og kýr fá 10 kg kjarnfóður á dag. Kúnum er raðað jafnt á meðferðir eftir aldri, nyt á fyrri mjaltaskeiðum og burðartíma, 14 kýr í meðferð. Kýrnar byrja í meðferð 3 vikum eftir burð, en mælingar byrja 4 vikum eftir burð. Meðferð lýkur 16 vikum eftir burð. Kýrnar fá allan dagsskammtinn af fóðrinu að morgni, en því er ýtt að þeim reglulega yfir daginn til að líkja eftir heilfóðurkerfinu sem gefur oft á dag. Baldur Sveinsson sér um gjafir, mælingar og sýnatöku á fóðri.
Daglega er gögnum um átgetu og nyt aflað, og vikulega eru kýrnar vigtaðar og holdastigaðar. Auk þess er upplýsingum um fóðrið aflað reglulega. Þurrefnisstig heilfóðurs og gróffóðurs er áætlað daglega og sýni eru tekin af þeim og sameiginlegt sýni fyrir hverja viku sent í efnagreiningu. Leifum úr hverjum meðferðarhóp er einnig safnað saman úr hverri meðferð fyrir sig og tekið af þeim sýni til efnagreiningar vikulega auk þess sem þær eru þurrefnismældar á staðnum. Bygg og kjarnfóðursýni eru tekin vikulega til efnagreiningar. Þar að auki eru tekin mjólkursýni vikulega og stubblengd heilfóðurs er áætluð.


back to top