Tíðarfar ársins var lengst af hagstætt

Veðurstofan hefur birt stutt yfirlit um tíðarfar ársins 2011. Ítarlegri umfjöllun um einstaka veðurfarsþætti ársins er að finna á heimasíðu Veðurstofunnar, www.vedur.is. Þetta stutta yfirlit frá Veðurstofunni fer hér á eftir:
„Tíðarfar var lengst af hagstætt á árinu um meginhluta landsins. Síðari hluti vors og fyrri hluti sumars voru þó óhagstæð um stóran hluta landsins en þeirrar erfiðu tíðar gætti lítið á Suðvesturlandi.

Hiti
Þrátt fyrir tvö mikil kuldaköst, var árið 2011 í heild hlýtt. Í Reykjavík var hiti um 1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 0,4 stigum ofan við meðalhita áranna 1931 til 1960. Er þetta 16. árið í röð þar sem hiti er ofan meðallags í Reykjavík og 17. til 18. hlýjasta ár frá upphafi samfelldra mælinga 1871.


Í Stykkishólmi var hiti 0,9 stigum ofan meðallags og er það 20. til 23. hlýjasta frá upphafi mælinga þar 1845. Á Akureyri var hiti 0,8 stigum ofan meðallags og hið 13. í röð ofan meðallags og það 30. á hlýindalistanum.


Sérlega kalt var norðaustanlands síðari hluta maímánaðar og langt fram eftir júní. Mikið kuldakast gerði um land allt um mánaðamótin nóvember/desember og stóð nokkuð fram í desember. Á Akureyri var júní sá kaldasti síðan 1952, en hiti var við meðallag á Suðurlandi. Óvenjuhlýtt var hins vegar á landinu í apríl og nóvember. Aprílmánuður var í hópi allra hlýjustu mánaða norðaustan- og austanlands og nóvember nærri jafnhlýr að tiltölu.


Úrkoma
Árið var frekar úrkomusamt í heild. Í Reykjavík var úrkoma um 10% umfram meðallag. Það telst þó ekki óvenjulegt. Þurrt var þar í júní, en aprílmánuður var óvenjuúrkomusamur og var aðeins einn sólarhringur þurr í mánuðinum. Úrkoma mældist um 30% umfram meðallag á Akureyri og þar var sérlega úrkomusamt í maí og október. Á undanförnum árum hefur úrkoma á Akureyri mælst óvenjumikil og er 2011 tíunda árið í röð þar sem úrkoma hefur verið yfir meðallagi á þeim slóðum.


Snjór
Í Reykjavík eru alhvítir dagar þegar orðnir 10 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990, en fjöldinn er í meðallagi sé miðað við árabilið 1971 til 2000. Munar langmestu um óvenjuþrálátan snjó í desember. Alhvítir dagar hafa ekki orðið jafnmargir í þeim mánuði frá upphafi samfelldra snjóhuluathugana í Reykjavík 1921. Þrátt fyrir að alhvítt hafi verið á Akureyri alla daga desembermánaðar er fjöldi alhvítra daga þar á árinu um 30 færri en í meðalári.


Þann 29. desember mældist snjódýpt í Reykjavík 33 cm. Það er meira en mælst hefur áður í þeim mánuði, eldri met (32 cm) eru frá 31. árið 1978 og 22. árið 1984. Lesa má um mestu snjódýpt á Íslandi í sérstakri fróðleiksgrein og neðst í henni er tafla yfir mestu snjódýpt í einstökum mánuðum í Reykjavík.Sólskinsstundir
Árið var sólríkt í Reykjavík. Sólskinsstundir voru nærri því 200 fleiri en í meðalári og er þetta tólfta árið í röð sem stundirnar eru fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar hins vegar 66 færri heldur en í meðalári og hafa þær ekki verið jafnfáar síðan 2002.


Loftþrýstingur
Mikil umskipti urðu á milli áranna 2010 og 2011. Fyrra árið var þrýstingur með því allra hæsta sem um getur en síðara árið var hann með lægsta móti og hefur ekki verið jafn lágur í Reykjavík síðan metárið 1990. Meðalþrýstingur síðustu fjóra mánuði ársins hefur aldrei orðið jafnlágur í Reykjavík og nú.


Vindhraði
Meðalvindhraði á mönnuðum stöðvum var sá mesti síðan 1993. Sérlega illviðrasamt var í apríl. Illviðri sem náðu til meginhluta landsins voru ekki mörg á árinu.“


back to top