Sýklalyfjanotkun dýra á Íslandi er mun minni en í Evrópu

Í Morgunblaðinu í dag er mjög áhugaverð grein eftir Ingvar P. Guðbjörnsson um sýklalyfjanotkun í dýrum á Íslandi, miðað við aðrar Evrópuþjóðir.  Þar er vísað til hádegisfundar sem var í Bændahöllinni í fyrri viku um „Hvaða áhætta felst í innflutningi á hráu kjöti?“  Karl G. Kristinsson yfirlæknir á sýklafræðideild landspítalans hélt þar fyrirlestur undir yfirskriftinni „Innflutt fersk matvæli og sýkingaráhætta“ og Vilhjálmur Svansson dýralæknir á Keldum hélt fyrirlestur „Er smitsjúkdómastöðu íslensks búfjár ógnað af innflutningi á hráu kjöti?.“   
Í greininni dregur Ingvar saman helstu niðurstöður af hættunni sem fylgir því að flytja inn ferskt kjöt, en meiri sjúkdómahætta er af innfluttu kjöti en af því íslenska er og kemur þar margt til.  Það er þó mjög skýrt að sýklalyfjanotkun dýra er langminnst hér á landi, en næstu lönd á eftir okkur eru Noregur og Svíþjóð.  Langmest er sýklalyfjanotkunin dýra í Ungverjalandi og Spáni en þar á eftir eru Belgía, Portúgal og Holland.  Sýklalyfjanotkun manna er þó með því mesta hér á landi miðað við aðrar Evrópuþjóðir.
Heimild: Morgunblaðið 9. apríl 2013, Ingvar P. Guðbjörnsson


back to top