Sveppur í korni drepur ær í Þverárhlíð í Borgarfirði

Töluverðar búsifjar urðu á bænum Sigmundarstöðum í Þverárhlíð þar sem sveppur í íslensku þurrkuðu byggi er talinn hafa drepið tíu ær, allar með lömbum og tvær til viðbótar hafa veikst. Veikin líkist Hvanneyrarveikinni, sem margir bændur kannast við, en er ekki sú sama.
Á vef Skessuhorns, www.skessuhorn.is er rætt við Einar Guðmann Örnólfsson bónda á Sigmundarstöðum sem sagði að sveppurinn gæti myndast í þurrkuðu korni þegar raki kæmist að því og virtist sem ekki þyrfti mikið til.

„Þetta er ekki myglusveppur sem myndast, heldur einhver önnur gerð og pensilín virkar ekki til að drepa hann. Við erum því varnarlausir gagnvart þessu, því fátt er um önnur sýklalyf. Þessar ær sem eru farnar hér voru allar tvílembdar utan ein sem var þrílembd svo skaðinn er töluverður. Þarna fóru 10 ær sem áttu einhver ár eftir og 21 lamb, það munar um minna. Ærnar láta ekki lömbunum heldur drepast þær en þótt þær hefðu náð að bera er ólíklegt að lömbin hefðu lifað. Við krufningu kom í ljós að þau voru líka orðin smituð. Ég veit ekki hvort fleiri en þessar tvær sem þegar sýna einkenni, hafi veikst. Líklegast er að sveppurinn hafi verið í korni sem ég gaf fyrir 3 til 4 vikum síðan, svo meðgöngutíminn er einhver.“

Að sögn Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis hjá Landbúnaðarstofnun er þessi sveppur ekki einskorðaður við íslenskt bygg. „Þetta hefur því miður líka sést í innfluttu korni og full ástæða til að vara bændur við. Ef einhver grunur leikur á því að þurrkað korn hafi blotnað eða komist í það raki að gefa það ekki, hvort sem það er innlent eða erlent. Ég hef sé þrjú tilfelli, að þessu meðtöldu í Borgarfirðinum, þar sem bændur hafa orðið fyrir miklum skaða vegna gjafar á skemmdu korni. Og það nær engri átt að geta ekki fylgst með því að korn sem flutt er til landsins, sé í þeim gæðaflokki sem sagt er,“ sagði Sigurður Sigurðarson.


www.skessuhorn.is
www.bbl.is


back to top