Sunnlenskir kúabændur vilja eyða óvissu um markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi var haldinn í Árhúsum, Hellu 1. febrúar sl. Þórir Jónsson á Selalæk var endurkjörinn formaður félagsins en í skýrslu hans komu fram m.a. áhyggjur af stöðu bænda, bæði vegna skuldastöðu yngri bænda og eins vegna raunlækkunar á afurðaverði. Hann nefndi sem dæmi að afurðaverð á nautakjöti til bænda hefði lækkað um 28% á 12 árum og þá hefði engin hækkun komið til á mjólkurverði til bænda á liðnu ári þó veruleg hækkun hafi orðið á nær öllum aðföngum á sama tíma.

Á aðalfundinum flutti Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK erindi um stefnumörkun danskra kúabænda til 2013.  Sigurður Loftsson formaður LK kynnti ýmis mál sem unnið hefur verið að á vettvangi LK síðustu vikur og mánuði. Þar ber hæst umfjöllun um verðlagningarmál. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hækkun á afurðaverði en fyrir liggur töluverð hækkunarþörf  út frá forsendum verðlagsgrundvallar.


Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði fundarmenn og gat um nokkur mál sem varða landbúnaðinn, m.a. um nauðsyn þess að styrkja löggjöfina um jarða- og ábúðarlögin út frá forsendum landbúnaðarins. Hann sagði að vinna væri að hefjast að frumkvæði ráðuneytisins um þau mál. Einnig ræddi hann ESB-umsókn, matvælalöggjöfina og um búvörusamingana og núverandi búvörulög


Á aðalfundinum var samþykkt eftirfarandi tillaga:
.
„Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum á Hellu 1. febrúar 2010 krefst þess af ríkisstjórn og ráðherra landbúnaðarmála, að tekið verði til þinglegrar meðferðar sem fyrst,  frumvarp um breytingar á ákvæðum laga sem varðar markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks og ákvæði um álagningu dagsekta verði skýrð og einfölduð. Þannig verði óvissu um framleiðslu og afsetningu mjólkur utan greiðslumarks eytt og að allir framleiðendur sem og afurðastöðvar verði jafnir fyrir þeim lögum og reglum sem í gildi eru.“
                                                          
Greinargerð:
Öll framleiðsla á lögbýli, bæði sem seld er í afurðastöð og heimaunnin mjólk telst með í uppgjöri greiðslumarks fyrir viðkomandi lögbýli samkvæmt útgefinni reglugerð.
Heimavinnsla mjólkur og sala fer nú vaxandi og það er eðlilegt  að tölulegar upplýsingar liggi fyrir um þá vinnslu. Þeir framleiðendur sem ætla að fara út í heimavinnslu  eða eru komnir af stað  er enginn greiði gerður með því að óvissa ríki um mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks. Hér er ekki verið að leggja stein í götu heimavinnslu en sú framleiðsla sem og önnur þarf að fara að þeim leikreglum og lögum sem eru í gildi.
Vöntun á úrræðum til að tryggja ákvæði búvörulaga um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkaði geta valdið miklu uppnámi ef miklu magni mjólkur utan greiðslumarks verður beint inn á innanlandsmarkað.


Sunnlenskir kúabændur leggja áherslu á að það frumvarp sem liggur fyrir Alþingi fái þá afgreiðslu að óvissu verði eytt.


back to top