Styrkir vegna sauðfjársæðinga – hvati til notkunar á verndandi hrútum

Ákveðið hefur verið að greiða styrki til bænda sem nota hrúta með verndandi og/eða mögulega verndandi arfgerðir. Styrkirnir eru hugsaðir til að hvetja til notkunar á hrútum með þessar arfgerðir og þar með hvetja til innleiðingar á verndandi arfgerðum m.t.t. riðumótstöðu. Matvælaráðuneytið leggur fram fjármagn og mun ráðuneytið einnig sjá um að greiða út styrkina í gegnum Afurð.

Fyrirkomulag:

  • Innheimt verður fyrir notkun á sæði með hefðbundnum hætti og samkvæmt því sem búnaðarsamböndin hafa þegar auglýst.
  • Styrkir verða síðan greiddir til bænda eftir áramót og miðast styrkgreiðslur við skráðar sæðingar í Fjárívs.
  • Bændur þurfa því að skrá sæðingarnar inn í Fjárvís.is (undir „skrá sæðingar“, ekki er nóg að skrá sæðinguna eingöngu í fangskráningu) og þarf skráningum að vera lokið eigi síðar en mánudaginn 8. janúar til þess að styrkur fáist.
  • Styrkur á sædda á með hrút sem ber verndandi arfgerð (ARR/x) verður 1.030 kr.
    Styrkur á sædda á með hrút sem ber mögulega verndandi arfgerð verður 515 kr. (Hrútar sem teljast með mögulega verndandi arfgerð eru merktir í hrútaskrá með ljósgrænu flaggi en þeir bera breytileikana T137, C151 eða H154 (AHQ)).

Á myndinni má sjá Móða frá Þernunesi sem er gráhöttóttur leistóttur með stjörnu og lauf  og ber verndandi arfgerðina ARR


back to top