5. fundur haldinn 9. október 2018.

Á fundinn sem haldinn var á Stóra Ármóti mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson, Gunnar Kr. Eiríksson. formaður, Sigurjón Eyjólfsson og Helgi Eggertsson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð. Á fundinn mætti einnig Birkir Þrastarson klaufsnyrtir og bústjórarnir á Stóra Ármóti Hilda Pálmadóttir og Höskuldur Gunnarsson og sátu undir þeim liðum sem að þeim snéri.

1.Starfsemi Nautís

Stjórnin mætti kl 10:00 í einangrunarstöð Nautís á Stóra Ármóti en þar tók bústjórinn Baldur Indriði á móti stjórninni og hann ásamt Sveini Sigurmundssyni fóru yfir starfsemi búsins síðustu mánuði en í september fæddust 12 kálfar, 7 kvígur og 5 nautkálfar af Aberdeen Angus kyni. Burður gekk vel, mikill lífsþróttur í kálfunum og hafa þeir vaxið frá 1 kg og að 1,5 kg á dag þessar fyrstu vikur. Baldur sýndi síðan nautkálfana gegnum gler á einangrunardeildinni en þar voru þeir settir inn 4. október. Þá kom fram að fósturvísar hafa verið settir upp í 35 kúm á síðustu dögum.

2. Fundur formanns og framkvæmdastjóra  með rektor LbhÍ.

Rektor landbúnaðarháskólans Sæmundur Sveinsson óskaði eftir fundi með formanni og framkvæmdastjóra BSSL en erindi hans var að óska eftir því að framkvæmdastjóri tæki að sér stjórnarformennsku í fjárræktarbúinu á Hesti. Þá var tillaga um tilraunastarf á Stóra Ármóti og samstarf við LbhÍ frá síðasta aðalfundi til umræðu. Fram kom í máli rektors að frekar væri horft til tilraunastarfs á skólabúinu á Hvanneyri en á Stóra Ármóti en hann vildi samt ekki loka á samstarf að svo stöddu. Framkvæmdastjóri greindi stjórninni frá því að hann myndi ekki taka að sér stjórnarformennsku Hestbúsins, verkefnin heima fyrir væru næg.

3. Tilraun með þaramjöl á Stóra Ármóti í haust.

Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir efnafræðingur hjá Matís hefur unnið að því að undirbúa tilraun/athugun með þaramjöl í fóðri mjólkurkúa á Stóra Ármóti í haust og hefst hún á næstu dögum. Verkefnið gengur m.a út á að sjá hvaða efni úr þaramjölinu berist í mjólkina og í hvaða magni.

4. Vettvangsganga og starfsemi búsins rædd.

Til fundarins mættu bústjórarnir Hilda og Höskuldur. Fjósbreytingin hefur virkað vel og afurðir síðustu 12 mánaða komin í 6900 kg eftir árskú. Þá hefur heilsufar batnað og dýralæknakostnaður minnkað. Sköfuróbótinn sem hreinsar heil gólf virkað vel. Kýrnar eru hreinar og sællegar. Heyjaðar voru 1200 rúllur og heygæði meiri en vænta mátti miðað við sláttutíma og fóru fundarmenn yfir efnagreiningar á heyjunum. Athygli vakti afar breytilegt selen innihald. Í ljós kom að þar sem selen var í áburði var selen magn vel yfir mörkum en á móti mjög lítið þar sem ekki var selen í áburði sem borin var á. Sökum bleytu og ótíðar var ekki hægt að loka nema 6 ha af flögum því ekki var hægt að komast um. Korn af 13 ha var þreskt um daginn en lengi vel leit út fyrir að uppskera yrði lítil sem engin. Góður septembermánuður bætti aðeins um en uppskera er ca 3000 kg ha en þurrefnisinnihald liggur ekki fyrir. Um daginn var 170 lömbum slátrað. Fallþungi um 15.5 kg sem er mun minna en í fyrra.

5. Hugleiðing um framtíð sauðfjársæðinga.

Sveinn ræddi hugmynd sem hann hefur verið að þróa með sér. Stofna nýtt ehf á landsvísu um sauðfjársæðingar í landinu sem gæti heitið Sauðfjársæðingastöð Íslands eða bara Sauðís. Aðilar að þessu fyrirtæki væru búnaðarsamböndin/heimamenn, Bændasamtökin/Ráðgjafarmiðstöðin og Landssamtök.Sauðfjárbænda. Þetta fyrirtæki væri þá í eigu og undir stjórn þeirra fyrirtækja og samtaka sem að starfseminni koma og sauðfjárbænda í landinu.

6. Beiðni Vopnfirðinga um að við yfirtökum sæðingar þar.

Óformlegt erindi kom frá Nautgriparæktarfélagi Vopnfirðinga um að við yfirtækjum rekstur sæðinga í Vopnafirði þar sem frjótæknir þeirra væri að komast á aldur.

7. Til fundarins mætti Birkir Þrastarson klaufsnyrtir.

Farið var yfir erindi sem borist hafði um atriði sem betur mætti fara við klaufsnyrtingu en því miður hafa myndast biðlistar sem til stendur að vinna á. Rætt var um endurmenntun og þjálfun klaufsnyrta.

8. Úttektarvinna við jarðræktarstyrki og landgreiðslur framundan.

Bændabókhaldsmennirnir Ólafur Þór og Gunnar Ríkharðsson munu hafa tíma til að sinna vinnu við úttektirnar þar sem skilum á skattframtölum og ársreikningum er að mestu lokið. Allt starfsfólk BSSL kemur að þessarri og auk Helgu og Sveins koma þau Halla Kjartansdóttir og Kristján Bjarndal eftir þörfum.

Fleira ekki og fundi slitið

Sveinn Sigurmundsson


back to top