2. fundur haldinn 3. apríl 2019

Stjórnarfundur BSSL haldinn 3. april 2019.

Á fundinn sem haldinn var í fundarsal Búnaðarsambandsins mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson, Gunnar Kr. Eiríksson. formaður, Sigurjón Eyjólfsson og Helgi Eggertsson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð. Á fundinn mættu svo Þórir Ólafsson fyrir hönd endurskoðunarfyrirtækisins Álands, Ólafur Þór Þórarinsson og félagskjörnu endurskoðendurnir, Valdimar Guðjónsson og Páll Eggertsson.

 

  1. Reikningar lagðir fram og skýrðir.

Rekstrartekjur fyrirtækjanna með Stóra Ármóti er 299,4 milljónir sem er aukning frá fyrra ári úr 292 milljónum. Rekstrargjöld eru 308 milljónir og er því rekstrartap upp á 8,6 milljónir. Fjármunaliðir  skila 3,2 milljónum sem er   ívið minna en á fyrra ári. Tap með  vaxtatekjum er því 5,4 milljónir króna en eftir skatta sem eru 1,9 milljónir er það 7,3 milljónir. Samkvæmt efnahagsreikningi er eigið fé 247,6 milljónir. Eignir eru alls 305,5 milljónir. Veltufjármunir eru 160,3 milljónum á móti 161,6 milljónir. Eiginfjárhlutfall vex úr 91,6 % í 93 %.

Bændabókhaldið veltir 39,8 milljónum og er með 1,8 milljón í hagnað.

Kynbótastöð ehf  er með veltu upp á 158,5 milljónir og tap upp á 13,8 milljónir króna.

Búnaðarsambandið er með veltu sem nemur 69,7 milljónum og hagnað upp á 825 þúsund krónur en þegar búið var að taka tillit til dótturfélags og skatta er tapið 7,3 milljónir.

Rekstrartekjur á Stóra Ármóti voru 60,3 milljónir en rekstrargjöld eru 55,7 milljónir og hagnaður 4,2 milljónir þegar búið er að taka tillit til skatta og fjármagnsliða. Ef samstæðureikningurinn við Stóra Ármót er skoðaður þá er heildarveltan 299,4 milljónir og bókfærðar eignir 305,5 milljónir.

Að loknum umræðum þar sem Þórir skýrði reikningana ennfrekar voru þeir undirritaðir.

 

  1. Undirbúningur fyrir aðalfund.

Aðalfundurinn verður föstudaginn 12. apríl að Hótel Dyrhólaey í Mýrdal. Fundurinn hefst kl 11:00 og verður að venju byrjað á því að flytja skýrslur og skýra reikninga. Nýr formaður BÍ, Guðrún S. Tryggvadóttir verður gestur fundarins. Nefndir sem starfa á fundinum verða fjárhags-,  og allsherjarnefnd. Stjórnin ákvað að leggja til að árgjald til sambandsins yrði kr 6000,- fyrir starfsárið 2019. Þá var ákveðið að leggja það til við fundinn að Búnaðarsambandið sæi um innheimtu félagsgjalda. Kosið verður um stjórnarmann og varamann hans úr Vestur-Skaftafellssýslu Fram kom að Sigurjón Eyjólfsson gefur ekki kost á sér til stjórnarsetu þar sem hann er hættur búskap. Þá verður kosið til Búnaðarþings til næstu tveggja ára.

 

  1. Önnur mál.

Erlendur ræddi rekstrarniðurstöðu Stóra Ármóts sem gæfi tilefni til að hafa áhyggjur af afkomu kúabúa um þessar mundir. Sveinn ætlar að fá Runólf hjá RML til að greina reksturinn og bera saman við önnur bú.

Fleira ekki og fundi slitið

Sveinn Sigurmundsson


back to top