Sláttur hafinn í Austur-Landeyjum

Sláttur er hafinn á nokkrum bæjum í Austur-Landeyjum að því er fram kemur á www.mbl.is. Guðlaug Björk Guðlaugsdóttir á Voðmúlastöðum segir að þar hafi verið slegnir 8 hektarar af snemmsprottnu afbrigði af vallarfoxgrasi.
Guðlaug Björk segir, að slátturinn hefjist nú á svipuðum tíma og í fyrra en sprettan hafi verið mjög góð í vor þar sem hlýtt hafi verið í veðri. Í fyrra hófst sláttur í Landeyjum þann 4. júní, 2007 hófst hann 8. júní, 2006 þann 13. júní og 2005 þann 4. júní.
Metið er hins vegar frá 2003 þegar sláttur hófst þann 28. maí.

Guðlaug segir, að einnig sé byrjað að slá á fleiri bæjum í Landeyjunum, þar á meðal Hólmum og Guðnastöðum. Reikna megi með, að fyrsta slætti ljúki um miðjan júní en síðan líði einn til einn og hálfur mánuður þar til hægt verður að slá hána.back to top