Bændum er brugðið

Haraldur Benediktsson formaður BÍ ritar leiðara í nýtt Bændablað þar sem hann fjallar um þingsályktun ríkisstjórnarinnar um að sækja um aðild að ESB. Þar gagnrýnir hann harðlega Vinstri græna sem fyrir kosningar lofuðu á bændafundum að þeir myndu standa vörð um sjálfstæði Íslands og lýstu því yfir að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu. Í seinni hluta leiðarans, sem er birtur hér í heild sinni undir, ræðir Haraldur um nýfallinn úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Leiðari 10. tbl. Bændablaðsins, 28. maí 2009.


Bændum er brugðið
Augljóst er af tillögudrögum þingsályktunar um aðildarumsókn að ESB að það á að setja íslenska grunnatvinnuvegi þjóðarinnar í gapastokkinn. Ótvírætt er að íslenskur landbúnaður mun veikjast umtalsvert við inngöngu í ESB og gæðum og hollustu innlendrar búvöruframleiðslu yrði kastað fyrir róða. Matvæla- og fæðuöryggi er verulega ógnað og hætt er við að byggðir leggist í eyði og fjöldi fólks sem nú starfar við ýmsan matvælaiðnað missi vinnuna.


Það er með hreinum ólíkindum að ný vinstri­stjórn á Íslandi vilji innleiða hér hina miklu ójafnaðarstefnu sem felst í landbúnaðarkerfi ESB. Þar skara stærstu ríkin eld að sinni köku með því að halda aftur af landbúnaði nýrra aðildarríkja til að skapa sér pláss á mörkuðum þeirra. Svo er talað um opinn og frjálsan markað sem undirlagður er af meðgjöf og forskoti ESB-sjóða sem okkur er ætlað að standa undir. Hve langan tíma tekur það stórfyrirtæki ESB að eignast allt hillupláss stórmarkaðanna hér á landi? Fyrirtæki sem í dag hafa sölsað undir sig gífurlegar fjárhæðir úr sameiginlegum sjóðum ESB. Stórfyrirtæki og landgreifar eru að taka hæstu fjárhæðirnar af landbúnaðarstyrkjum ESB en ekki bændur sem strita við matarframleiðslu.


Stórmarkaðir, sem í dag láta innlend matvælaframleiðslufyrirtæki greiða sér sérstakar þóknanir fyrir það eitt að bjóða vörur þeirra, auk ríflegra afslátta og skilaréttar, munu verða mjög auðsveipir til að þurfa ekki að eiga á hættu að fá hingað erlendar verslanakeðjur. Staðreyndin er sú að verð til neytenda lækkar ekki með því að sauma að bændum og framleiðendum vöru, heldur fyrst og fremst með samkeppni á smásölumarkaði.


Þingsályktunartillaga ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna er ekki sú bráðaaðgerð sem íslenskt þjóðfélag þarf á að halda í dag. Bændur gengu til samninga við fyrri ríkisstjórn um lækkun á útgjöldum hins opinbera til landbúnaðar. Það var vegna þess að þeir töldu nauðsynlegt að hefja hér aðgerðir og uppbyggingu á nýjan leik. Núna er staðan sú, tæpum mánuði síðar, að sá samningur er eina áþreifanlega plaggið um nauðsynlegar aðgerðir í ríkisfjármálum. Bændur greiða þessa dagana atkvæði um samninginn en spyrja sig hvers vegna forysta þeirra gerði slíkan samning þegar enginn annar hreyfir legg né lið. Jú, vegna þess að bændur vilja koma að raunverulegum lausnum, ekki skyndiboðum um allsherjarlausn.


Allur kraftur fer í umræðu um aðildarumsókn Vinstri grænna og Samfylkingar að ESB. Þingmenn Vinstri grænna eru hlaupandi í allar áttir undan digurbarkalegum yfirlýsingum sínum í kosningabaráttunni um að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu. Ómur orða þeirra á framboðsfundum með bændum lifir enn. Fimm nýja þingmenn fengu þeir vegna þess að þeir ætluðu að standa vörð um sjálfstæði Íslands. Þeim bændum, sem kusu það ágæta fólk, hlýtur að vera brugðið þegar blasir við að undan íslenskum landbúnaði molnar við ESB-aðild.


Um úrskurð Samkeppniseftirlitsins
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur hrakið að langstærstum hluta úrskurð Samkeppniseftirlitsins um starfsemi BÍ. Hins vegar er athyglisvert hvernig úrskurðurinn er matreiddur af stjórnvaldinu í almenna umræðu. Þar er búin til frétt um niðurstöðuna og reynt að fullyrða að ekkert hafi komið fram sem breyti fyrri afgreiðslu. Úrskurðurinn er hins vegar mjög athyglisverður fyrir Bændasamtökin. Viðurkennt er að Samkeppniseftirlitið fór fram með offorsi gagnvart bændum. Þannig er sektarfjárhæðin lækkuð verulega og felld úr gildi meginúrskurðarorð Samkeppniseftirlitsins um að brjóta þurfi niður samtök bænda og gelda þau í opinberri umræðu um hagsmuni bænda. Fréttatilkynning sem matreidd er fyrir fjölmiðla af eftirlitinu sjálfu gerir því lítil skil. Víst er sárt að sitja undir sekt og sök um lögbrot fyrir það að hafa varið hagsmuni bænda. Eins að vera opinberlega dæmd af viðskiptaráðherra úr ræðustóli Alþingis áður en formlegur úrskurður lá fyrir. Slíkt hlýtur að vera einsdæmi að ráðherra í ríkisstjórn geti leyft sér að dæma félagasamtök með þeim hætti.


En fegrunaraðgerð sem að framan er lýst er ekki til að auka trúverðugleika á vandaðri meðferð mála. Vitneskja málsaðila BÍ af úrskurðinum kom úr hádegisfréttum RÚV. Er það þetta sem er kölluð opin stjórnsýsla? Fjölmiðlar duttu síðan í þá gryfju að gefa því ekki gaum sem er raunveruleg niðurstaða. Reynt er að þyngja refsingu Bændasamtakanna með slíkri framsetningu.


Ef lesnir eru úrskurðir áfrýjunarnefndar þá heyrir til undantekninga að jafn mikinn viðsnúning sé þar að finna eins og í þessu máli. Eftir situr að Bændasamtökin fá áfram að vera samtök bænda. Hins vegar er Samkeppniseftirliti falið að ræða við þau um starfshætti þeirra, eitthvað sem þau hafa og höfðu fyrir þennan málarekstur skyldu til að gera. Bændasamtökin hafa alla tíð lýst vilja sínum til málefnalegrar umræðu og bent á sérstöðu sína. Hver verður síðan forgangsröð yfirvalda samkeppnismála? Hver eru viðbrögð þeirra við undirboðum á markaði og langtímaframleiðslu og sölu á vörum undir kostnaði hjá opinberum fjármálastofnunum í samkeppni við bændur?


Haraldur Benediktsson


back to top