Skrifað undir nýjan búnaðarlagasamning

Skrifað hefur verið undir nýjan búnaðarlagasamning sem er til tveggja ára en fyrri samningar hafa verið til fimm ára í senn. Ástæða þess að nú er skrifað undir styttri samning en venja er til, er sú óvissa sem skapast hefur vegna erfiðleika í efnahagslífinu. Gildandi búnaðarlagasamningur hefur verið skertur verulega nú þegar en hann rennur út um næstu áramót. Eins og vísbendingar voru um í frumvarpi til fjárlaga komandi árs er um mjög verulegan niðurskurð að ræða frá fyrri samningi.

Heildarfjárhæð samningsins fyrir árið 2011 er 415,3 milljónir króna og 425 milljónir króna árið 2012. Í ár er upphæðin 686,9 milljónir króna, til ráðgjafar, búfjárræktar og þróunarverkefna auk framlags til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Framlög til Framleiðnisjóðs eru skorin nær alveg niður í nýjum samningi. Á yfirstandandi ári eru framlög til sjóðsins 148,3 milljónir króna en verða á næsta ári 15,3 milljónir. Árið 2012 verður upphæðin síðan 25 milljónir króna.


Í samningnum nú er lögð áhersla á að fresta þeim verkefnum sem mögulegt er að fresta en verja búfjárræktarstarf, ráðgjafaþjónustu og störf eins og kostur er. Þrátt fyrir það er ljóst að framlög til ráðgjafaþjónustu og búfjárræktar verða fyrir verulegum skerðingum, eða um 17,1 prósent alls. Þróunar- og jarðarbótaverkefni eru skorin nær alveg niður, aðeins er veitt til þeirra 11,7 milljónum árlega sem ætlað er til framlags í jarð­ræktarsjóð. Ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum til markaðsverkefna.


Þörf á sterkri félagslegri samstöðu
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna segir samninginn nauðarsamning. Hann sé í raun hluti af stærri mynd, þar sem búvörusamningar og fleira sé undir. „Bændasamtökin hafa í samningsgerðinni lagt áherslu á að verja kjör bænda og að verja eftir mætti fagstarf, búfjárrækt og kynbótastarf. Ráðgjafarstarfið er verðmætt en það eru möguleikar á að þróa það og endurskoða. Það er óhjákvæmilegt að gera grundvallarbreytingar á þeirri starfsemi á næstu tveimur árum. Eins er mikilvægt að sem minnst verði gefið eftir í öðru faglegu starfi, eins og fjármálaráðgjöf. Niðurskurðurinn bitnar verulega á ráðgjafarstarfinu og því miður eitthvað misjafnlega. Því er mikilvægt að félagsleg samstaða bænda verði sterk við frekari úrvinnslu á þeirri stöðu sem komin er upp.“


Haraldur segist eftir atvikum ánægður með samninginn þó hann dragi enga fjöður yfir það að um mikið högg sé að ræða. „Það er kúnstugt að hafa átt í viðræðum við þrjár ríkisstjórnir, þrjá landbúnaðarráðherra, um þennan stutta samning. Sem segir meira en mörg orð um hve aðstæður eru óhefðbundnar. Já, eftir atvikum er ég ánægður. Það eru miklir óvissutímar, bændur eru eins og aðrir að takast á við þrengingar. Ef horft er á heildarmyndina vona ég að segja megi að við höfum nálgast viðkvæmt verkefni af ábyrgð.“ / fr


back to top