Segir ríkið hafa farið offari gegn landeigendum og bændum

Rætt var um framkvæmd laganna um þjóðlendur utan dagskrár á Alþingi í dag að ósk Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem sagði að framkvæmd laganna væri með ólíkindum og fjármálaráðherra hafi farið offari gegn landeigendum og bændum. Sagði Björgvin, að þeirri herferð yrði að ljúka.

Þá sagði Björgvin, að öllu væri snúið á hvolf í málsmeðferð óbyggðanefndar. Landeigendur þurfi að sanna að þeir eigi landið og þinglýst landamerkjabréf frá 19. öld og fram á þá 20. séu ekki tekin gild. Sönnunarbyrðinni sé snúið við og í raun tekinn upp tvöfaldur eignarréttur í landinu. Einn í þéttbýli og annar í dreifbýli.


Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði embætti sínu ætlað að gæta hagsmuna alls almennings og því bæri að koma á framfæri við Óbyggðanefnd hvar vafi léki á um eignamörk eignarlands og almenninga. Sagði Árni, að samkvæmt dómum Hæstaréttar væru þinglýst landamerki ekki fullnaðarsönnun fyrir eignarétti á landi heldur þyrfti að skoða önnur gögn til að meta hvort þinglýst landamerki væru í samræmi við önnur gögn.


Árni sagði að að kröfur ríkisins innan þinglýstra eignamarka væru ekki endanleg niðurstaða. Ríkinu væri skylt að gera kröfur þar sem um óvissu væri að ræða og Óbyggðanefnd og dómstólar gætu síðan skorið úr. Ekki hefði staðið til með lögum um þjóðlendur að breyta gildandi sönnunarfærslukröfum um eignarrétt heldur hefði afstaða Hæstaréttar til eignaréttar á landi verið ein af ástæðum þess, að farið var út í að setja lög um þjóðlendur og lýsa kröfum ríkisins.


Árni sagði, að hann hefði lagt til að á þessu stigi málsins verði farið yfir það hvernig staðið sé að framkvæmdinni með það að markmiði að stytta óvissutíma vegna krafna ríkisins um þinglýstra jarða. Lagt hefði verið til, að sjálfstæð rannsóknarvinna Óbyggðanefndar geti hafist áður en ríkið lýsti sínum kröfum. Það myndi leiða til að tíminn styttist og meiri líkur væru á, að kröfurnar verði í samræmi við endanlega niðurstöðu.


Jón Kristjánsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði m.a. í umræðunni, að logandi ófriður væri á þeim svæðum, þar sem kröfugerð ríkisins hefði verið lögð fram. Virðist hafa verið stígandi í kröfugerðinni. Þetta styrjaldarástand væri ekki þolandi og því yrði að linna. Sagði Jón, að ef breyta þyrfti lögum væri hann tilbúinn til að taka þátt í þeirri vinnu.


Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði hins vegar að ekki væri hægt að breyta leikreglum á miðri leið þótt hægt væri að einfalda málsmeðferðina.


Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði sjálfsagt og eðlilegt að farið verði yfir það hvort einfalda megi og létta framkvæmd þjóðlendulaganna. Þá skipti miklu máli, hvernig staðið væri að framhaldinu nú þegar þjóðlendur væru að verða til.


Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sagði að sú óvenjulega staða hefði komið upp, að hann hefði getað tekið undir nánast hvert orð í ræðu Steingríms. Sagðist Guðni hafa talið, að kröfugerð ríkisins í þjóðlendumálum hefði verið mjög óbilgjörn. Tilgangur laganna hefði verið sá að tryggja eignamörk bújarðanna. Í langflestum tilvikum hefðu mál fallið þannig, að þinglýst eignamörk hefðu haldið.


back to top