Samþykkt að sameina ráðgjafastarfsemi BÍ og búnaðarsambandanna

Aukabúnaðarþing 2012 samþykkti nú fyrir skömmu að stofna skuli félag um leiðbeiningaþjónustu bænda. Mikil samstaða var um stofnun félagsins en alls voru 41 búnaðarþingsfulltrúi því samþykkur. Engin mótatkvæði voru greidd. Stefnt er að því að nýtt fyrirtæki taki til starfa um komandi áramót.
Á síðasta búnaðarþingi var samþykkt ályktun þar sem sagði að stefnt skyldi að því að sameina ráðgjafarþjónustu búnaðarsambanda og Bændasamtaka Íslands í eina rekstrareiningu. Sú ályktun var niðurstaða vinnu milliþinganefndar sem skipuð var á búnaðarþingi 2011 en sú nefnd fékk meðal annars danska ráðgjafan Ole Kristensen til að gera úttekt og vinna tillögu að nýju skipulagi slíks félags. Í framhaldi af því var skipaður starfshópur og ráðinn verkefnisstjóri til að útfæra tillögurnar enn frekar. Þær tillögur voru lagðar til grundvallar starfi auka búnaðarþings sem starfaði í dag.

Niðurstaða þingsins  var sú að samþykkja eftirfarandi ályktun:
Búnaðarþing – aukaþing 2012, samþykkir að stofna félag um leiðbeiningaþjónustu bænda. Félagið verði í eigu Bændasamtaka Íslands, en með sjálfstæðri stjórn og fjárhag. Stjórn félagsins skulu skipa framkvæmdastjóri BÍ auk fjögurra fulltrúa sem þingið velur. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Umboð stjórnar gildir til búnaðarþings 2013. Þingið felur stjórninni að ljúka nauðsynlegri undirbúningsvinnu og samningagerð til að starfsemi félagsins geti hafist í byrjun næsta árs. Búnaðarþing heimilar stjórn BÍ framsal fjármuna af búnaðargjaldi samtakanna og aðra fjármuni til stofnunar og rekstrar.


Búnaðarþing – aukaþing 2012, felur stjórn og starfsmönnum hins nýja félags að leggja áherslur í starfi og uppbyggingu þess. Í þeirri vinnu verði m.a. tekið mið af þeim greiningum og tillögum sem fram hafa komið á fyrri stigum.


Töluverðar umræður urðu um málið á þinginu í dag. Almennt voru þingfulltrúar á því að um framfaraspor yrði að ræða og líkur til að með stofnun félags um leiðbeiningaþjónustu á landsvísu megi takast að efla faglegan styrk ráðgjafar fyrir bændur um land allt. Þó var því komið á framfæri að skiptar skoðanir væru á umræddum áætlunum heima í héraði hjá bændum og ekki væru allir sáttir við stofnun félagsins. Borin var upp tillaga um að ályktun um stofnun félagsins yrði send í almenna atkvæðagreiðslu meðal bænda. Sú tillaga naut hins vegar lítils stuðnings og var felld með 35 atkvæðum gegn 2.


Á þinginu var kosin stjórn félagsins en eins og segir í ályktuninni hér að ofan er Eiríkur Blöndal framkvæmdstjóri Bændasamtakanna einnig í þeirri stjórn í krafti starfs síns. Aðrir þeir sem skipa stjórnina eru Guðbjörg Jónsdóttir á Læk, Guðmundur Bjarnason á Svalbarði, Guðný H. Jakobsdóttir í Syðri-Knarrartungu og Sveinn Sæland á Espiflöt. Varamenn eru Björn Halldórsson á Akri, Guðrún Lárusdóttir í Keldudal, Jóhannes Sveinbjörnsson í Heiðarbæ og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson í Bakkakoti.


back to top