Samkeppniseftirlitið vill endurskoðun búvörulaga

Samkeppniseftirlitið leggur til að búvörulög verði tekin til endurskoðunar til að auka samkeppni hér á landi og telur að slíkt yrði neytendum og öllu þjóðfélaginu til bóta. Þetta kemur fram í tillögum sem eftirlitið leggur fram í nýrri skýrslu um verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði sem kynnt var í gær. Haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, ráðherra landbúnaðar- og samkeppnismála, í Fréttablaðinu í dag að ekki standi til að kollvarpa landbúnaðarstefnunni vegna samkeppnislegra ástæðna. Þó komi til greina að gera breytingar á gildandi fyrirkomulagi.

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins segir að mikilvægt sé að stjórnvöld grípi til aðgerða til að efla samkeppni. Það eigi ekki „síst við um málefni er varða vinnslu og sölu landbúnaðarafurða. Ljóst er að yfirvöld hafa ekki dregið fullnægjandi lærdóm af þeim jákvæðu áhrifum sem reynslan sýnir að heilbrigð samkeppni getur haft á ýmis svið landbúnaðar.[…] Með hliðsjón af ofangreindu telur Samkeppniseftirlitið m.a. mjög mikilvægt að búvörulög verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu og auka virka samkeppni á mörkuðum fyrir landbúnaðarafurðir neytendum og þjóðfélaginu öllu til hagsbóta“.


Steingrímur segist í viðtali við Fréttablaðið ánægður með skýrsluna en að ekki standi til að kollvarpa þeirri landbúnaðarstefnu sem er við lýði þrátt fyrir tillögur Samkeppniseftirlitsins. „Þarna vegast á ýmsir ólíkir hagsmunir. Frá hreinu samkeppnislegu sjónarmiði má færa rök fyrir slíkri endurskoðun. Hinum megin frá koma sjónarmið sem snúa að fæðuöryggi og byggð í landinu. Landbúnaður ætti sér ekki tilverugrundvöll á Íslandi ef innflutningur væri óheftur. Ég sé því ekki fyrir mér að við förum að kollvarpa landbúnaðarstefnunni bara vegna þess að það yrði jákvætt í samkeppnislegu tilliti. Það getur komið til greina að gera breytingar á fyrirkomulaginu en þá þarf líka að ná fram öðrum markmiðum til að við getum staðið vörð um innlenda framleiðslu og innlendan matvælaiðnað. Við verðum að geta staðið undir 50% af matvælaframleiðslu til að stuðla að fæðuöryggi.“


back to top