Bændasamtökin svara gagnrýni um fjármál sín

Bændasamtökin hafa birt tilkynningu vegna umræðna fjármál þeirra þar sem gerð er nokkuð ítarleg grein fyrir ráðstöfun þeirra fjármuna sem til þeirra renna frá ríkinu. Tilkynningin fer hér á eftir:
„Bændasamtökin eru frjáls félagasamtök og í bókhaldi þeirra er skilið á milli þeirra fjármuna sem koma frá ríkinu vegna búnaðarlagasamnings og fjármuna sem fara í að reka hagsmunabaráttu bænda. Verkefni í gegnum búnaðarlagasamning eru lögbundin en um framlög ríkisins má lesa hér í heild sinni á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Bændasamtökin skila ársreikningi sínum til Ríkisendurskoðunar og sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytisins á hverju ári. Hann liggur einnig frammi til umfjöllunar á búnaðarþingi sem haldið er árlega.

Samkvæmt fjárlögum ríkisins (sjá fjarlog.is) fara 415,3 mkr. í liði sem tilheyra búnaðarlagasamningi. Af þeirri upphæð fara 301,9 mkr. í ráðgjafarþjónustu til bænda sem m.a. búnaðarsambönd sinna um allt land, 86,4 mkr. í búfjárræktarstarf, en undir það falla meðal annars kúasæðingar og kynbótaskýrsluhald, 11,7 mkr. fara til þróunarverkefna og 15,3 mkr. renna til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins (FL). Þessar fjárhæðir, aðrar en greiðslan til FL, eru greiddar til Bændasamtakanna sem ráðstafar þeim til aðila eins og búnaðarsambandanna o.fl.


Í hvað fara fjármunirnir frá ríkinu?
Fjárframlög samkvæmt búnaðarlagasamningi skiptast í eftirtalin verkefni:
– Búfjárræktarstarf (kynbótaskýrsluhald, kúasæðingar, ræktunarstöðvar, gagnagrunnar o.fl.)
– Ráðgjafarþjónustu /leiðbeiningastarfsemi (ráðgjöf til bænda, áætlanagerð o.fl).
– Verkefni á sviði jarðabóta (endurræktun, kornrækt, beitarstjórnun og landnýting, kortagerð o.fl).


Að auki sinna Bændasamtökin nokkrum verkefnum fyrir hið opinbera sem þau fá greitt fyrir. Þau eru unnin samkvæmt samningum við Matvælastofnun eða skv. búvörulögum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Um er að ræða verkefni sem fela í sér söfnun og úrvinnslu upplýsinga um búvöruframleiðsluna, ýmis verkefni tengd framkvæmd búvörusamninga, s.s. að halda skrár um greiðslumark, réttindi til beingreiðslna, gripagreiðslna og að veita upplýsingar úr þessum skrám til hlutaðeigandi aðila ásamt því að viðhalda og þróa nauðsynlegan hugbúnað. Árið 2010 námu greiðslur til BÍ fyrir framkvæmd þessara verkefna alls 14,8 mkr., sem ríkisvaldið ákvað að greiddar skyldu af óráðstöfuðu fé vegna þróunar- og jarðabótaverkefna og fjárveitingum skv. búvörusamningum.


Tekjugrunnur Bændasamtakanna
Heildartekjur BÍ árið 2010 voru 582 mkr. Þær skiptast með eftirfarandi hætti:


Framlög skv. búnaðarlögum: 215 mkr.
Búnaðargjald frá bændum: 99 mkr.
Skýrsluvélaþjónusta og forrit: 82 mkr.
Sértekjur sviða – útseld vinna o.fl.: 78 mkr.
Bændablaðið og önnur útgáfustarfsemi: 54 mkr.
Útleiga húsnæðis og fjármunatekjur: 46 mkr.
Styrkur norskra bænda v/eldgosanna á Suðurlandi: 8 mkr.


» Skv. búnaðarlagasamningi greiðir ríkisvaldið Bændasamtökunum framlag til verkefna á sviði jarðabóta, búfjárræktar og leiðbeiningarstarfsemi.


» Ríkisvaldið innheimtir 1,2% búnaðargjald af bændum við álagningu skatta og renna þeir fjármunir til Bændasamtakanna, búnaðarsambandanna, búgreinasamtakanna og Bjargráðasjóðs.


» Í tengslum við kynbótaskýrsluhald bænda hafa Bændasamtökin tekjur af sölu og viðhaldi forrita og skráningu skýrslna.


» Hin ýmsu svið Bændasamtakanna hafa einnig sértekjur af sölu á vinnu og þjónustu, s.s. útseldri vinnu ráðunauta, framkvæmd búvörusamninga skv. samningi við Matvælastofnun, markaðsskrifstofu útgáfu- og kynningarsviðs, bókhaldsþjónustu skrifstofusviðs o.fl.


» Bændasamtökin hafa verulegar tekjur af útgáfustarfsemi, en þar munar mestu um auglýsingatekjur Bændablaðsins.


» Bændasamtökin hafa tekjur af útleigu skrifstofuhúsnæðis á 3ju hæð Bændahallarinnar til Hótel Sögu og fleiri aðila og hafa auk þess verulegar tekjur af ávöxtun höfuðstóls samtakanna.


» Norskir bændur sýndu sunnlenskum bændum samhug sinn í verki með 8 mkr. framlagi sem varið var til verkefna við hreinsun heima hjá bændum og til þess að gefa þeim kost á að komast í stutt orlof burt úr öskunni.


Fjárhagsáætlun Bændasamtakanna er lögð árlega fyrir búnaðarþing til staðfestingar, en þingið leggur jafnan mikla áherslu á að halda rekstrinum í jafnvægi, þ.e. að starfsemin sé hvorki rekin með tapi né hagnaði.“


back to top