Sæðistökuvertíð lokið

Í dag lauk 63 sæðistökuvertíð á Sauðfjársæðingastöðinni. Að flestu leyti gekk hún vel og færð og veður seinni hlutann mjög gott. Alls var sent út sæði í tæplega 20 þúsund ær sem er meira en í fyrra en þá var útsent sæði í rúmlega 18 þúsund ær. Gríðar mikil ásókn var í hrútinn Viðar 17-844 frá Bergsstöðum í Miðfirði en það tókst að senda úr honum sæði í 2570 ær en pantanir voru flesta daga þrefalt fleiri. Viðar var prýðis sæðisgjafi bæði að gæðum og magni og það er bara Grábotni 06-833 frá Vogum sem hefur verið meira notaður frá upphafi sæðinga í Laugardælum. Grábotni var með útsent sæði í 2875 ær og er einn sá mesti sæðisgjafi sem verið hefur á stöð. Sá hrútur sem næstur kemur með notkun var Grettir 20-877 frá Ytri-Skógum með útsent sæði í 2040 ær.  Þá kom Hnokki 19-874 frá Garði í Þistilfirði með útsent sæði í 1555 ær. Af kollóttum hrútum var Tónn 18-855 frá Melum sendur út í 1145 ær.

Á myndinni má sjá vinina Ármann Sverrisson sem sá um að leiða hrútana fram og Viðar frá Bergsstöðum. Þess má geta að Viðar er geðprúð og skemmtileg kind í alla staði.


back to top