Rannsóknir á smitandi barkabólgu í nautgripum

Í gær bárust niðurstöður rannsókna á sýnum sem tekin voru samkvæmt fyrirmælum Matvælastofnunar á öllum kúabúum í Austurumdæmi, sem eru 40 talsins. Öll voru neikvæð að undanskildu endurteknu sýni frá Egilsstaðabúinu og sýni úr einum grip á bænum Fljótsbakka. Jafnframt bárust niðurstöður rannsókna á stroksýnum úr jákvæðum gripum á Egilsstaðabúinu, sem send voru til rannsóknar erlendis. Ekki tókst að einangra veiruna úr sýnunum.

Gripurinn sem reyndist jákvæður á Fljótsbakka var gefinn frá Egilsstaðabúinu í febrúar á þessu ári. Sýni úr mjólkurtanki á Fljótsbakka var neikvætt og það gefur von um að aðrir gripir á búinu séu ekki smitaðir en blóðsýni verða tekin af öllum gripum á Fljótsbakka til að ganga úr skugga um það. 

Í gildi eru fyrirmæli um auknar smitvarnir og bann við sölu lífdýra frá Egilsstaðabúinu og nú einnig Fljótsbakka. Báðir bæirnir eru á Fljótsdalshéraði. 
 
Á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum er verið að ganga frá sýnum frá öðrum kúabúum á landinu og senda til rannsóknar. Niðurstöður þeirra rannsókna er að vænta í næstu viku. Á Keldum er einnig verið að gera tilraun til að rækta veiruna til frekari greiningar. Þar sem sjúkdómurinn hefur ekki greinst áður á Íslandi er unnið að rannsóknunum í nýrri öryggisrannsóknastofu Tilraunastöðvarinnar. Tilgangur allra þessara rannsókna er að varpa skýrara ljósi á málið og á grundvelli niðurstaðna þeirra verður tekin endanleg ákvörðun um aðgerðir. 
 
Árlegir haustfundir Landssambands kúabænda eru framundan og hafa verið boðaðir ellefu fundir víðs vegar um landið. Fulltrúar Matvælastofnunar munu taka þátt í þessum fundum eftir því sem við verður komið og sitja fyrir svörum varðandi smitandi barkabólgu.


back to top