Frá Degi sauðkindarinnar 13. október s.l.

Árlegur Dagur sauðkindarinnar var haldinn í Skeiðvangi á Hvolsvelli laugardaginn 13. október s.l. Að venju var fjölmenni og áhugi mikill fyrir því sem fram fór. Meðal dagskrár atriða voru, að efstu lamb- og veturgamlir hrútar úr heimasýningum voru boðaðir og dæmdir upp á nýtt og verðlaunaðir. Þá voru bestu gimbrarnar sem mættu stigaðar og dæmdar og keppt var um litfegursta lambið. Veitt voru verðlaun fyrir ræktunarbú ársins 2011, afurðahæstu 5. vetra ána og þyngsta dilkinn, það sem af var sláturtíðar. Þá var uppboð á nokkrum úrvalsgripum.











Þeir veturgömlu hrútar sem efstir stóðu á sýningunni voru Dalur 11-182 frá Djúpadal í Hvolhreppi undan Hvelli 05-969 hlaut hann 88 heildastig þar af 19.5 fyrir læri. Eigendur Dals eru Guðbjörg Albertsdóttir og Rútur Pálsson á Skíðbakka í Austur-Landeyjum.
Annar var Teigur 11-487 frá Árbæjarhjáleigu í Landsveit hann hlaut m.a 9 fyrir bak og malir og 19 fyrir læri, alls 87.5 stig.
Þriðji var Mökkur 11-176 frá Austvaðsholti í Landsveit. Hann var með 9.5 fyrir brjóst og útlögur, 9 fyrir bak og malir og 18.5 fyrir læri, alls 88 stig.
Efsti veturgamli hrútur sýningarinnar Dalur frá Djúpadal, eigendur Rútur og Guðbjörg á Skíðbakka halda í hrútinn.









Efsti lambhrútur sýningarinnar var frá Skúmsstöðum í Vestur-Landeyjum undan Hrifloni 07-837. Hann hlaut 88.5 heildastig þar af 9.5 fyrir bak, 9.5 fyrir malir og 18.0 fyrir læri. Eigandi hrútsins er Ólafía B. Ásbjörnsdóttir.
Í öðru sæti var lambhrútur frá Álfhólum í Austur–Landeyjum, undan Stera 07-855 hann hlaut 9 fyrir bak, 9.5 fyrir malir og 18.5 fyrir læri, alls 87.5 stig.
Í þriðja sæti var lambhrútur frá Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð undan Borða 08-838, hann var með 9 fyrir bak og malir og 18.5 fyrir læri, alls 87 stig.
Efsti lambhrútur sýningarinnar, eigandinn Ólafía B. Ásbjörnsdóttir heldur í hann.









Efsta lambgimbrin var frá Hólmum í Austur-Landeyjum með 39 mm ómvöðva, 9.5 fyrir frampart og 18.5 fyrir læri. Eigendur eru Axel Sveinbjörnsson og Silja Ágústsdóttir.
Í öðru sæti var gimbur frá Kaldbak á Rangárvöllum. Hún var með 38 mm bakvöðva, 8.5 fyrir frampart og 18 fyrir læri og í þriðja sæti var einnig gimbur frá Kaldbak með 39 mm bakvöðva, 9 fyrir frampart og 18.5 fyrir læri.
Efsta lambgimbur sýningarinnar, Axel í Hólmum heldur í hana.









Keppni um litfegursta lambið var spennandi en það var litfögur gimbur frá Vetleifsholti í Ásahreppi sem bar sigur úr býtum. Eigendur hennar eru Karen Eva og Rakel Ýr Sigurðardætur.

Eigendur litfegursta lambsins, systurnar Karen Eva og Rakel Ýr Sigurðardætur, ásamt gimbrinni.









Afurðahæsta 5.vetra ærin í sýslunni var frá Erlendi Ingvarssyni og Berglindi Guðgeirsdóttur í Skarði í Landsveit með 115.9 stig.

Þyngsta dilkinn það sem af var sláturtíðar áttu þau Axel og Silja í Hólmum í Austur-Landeyjum og var honum slátrað þann 5. október s.l. Hann vigtaði 29 kg og fór í E5.


Berglind og Erlendur í Skarði taka við verðlaunum úr hendi Hermanns Árnasonar fyrir afurðahæstu 5. vetra ána í sýslunni.









Ræktunarbú ársins 2011 var að þessu sinni Efsta-Grund undir Vestur–Eyjafjöllum. Þar búa Sigríður Lóa Gissurardóttir og Sigurjón Sigurðsson. Þau hófu búskap á Efstu-Grund árið 1998 og hafa stundað markvisst ræktunarstarf í sauðfjárstofni sínum sem skilað hefur jöfnum framförum undanfarin ár. Veturgömlu ærnar hjá þeim skila miklum afurðum og með því mesta sem gerist á landsvísu. Árið 2010 skiluðu veturgömlu ærnar 18.2 kílóum og fullorðnu ærnar 30.5 kílóum. Á undanförnum árum hafa erfðaframfarir í ærstofninum verið að aukast um 0.6 stig á ári sem er mjög góður árangur.


Sigurjón Sigurðsson bóndi á Efstu-Grund veitir viðtöku verðlaunum fyrir ræktunarbú Rangárvallasýslu árið 2011.









Það er Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu sem stendur fyrir Degi sauðkindarinnar, fjölmargir styrktu þennan viðburð, þannig gaf Sláturfélag Suðurlands kjötsúpu handa gestum en aðrir styrktaraðilar voru: Landsbankinn, Fóðurblandan, BúAðföng, Pakkhúsið Hellu, Árhús Hellu, Prjónaver Hvolsvelli og Gunnhildur Þ. Jónsdóttir sem gaf málverk eftir sig sem verðlaun fyrir litfegursta lambið. Steinn Másson í Hjarðarbrekku á Rangárvöllum, Fjárræktarfélag Holta- og Landsveitar og Ágúst Rúnarsson í Vestra-Fíflholti í Vestur-Landeyjum gáfu lömb á uppboð.
Verðlaunagripir voru tálgaðar kindur eftir Ragnhildi Magnúsdóttur í Gýgarhólskoti.
Dómarar á sýningunni voru Eyjólfur Yngvi Bjarnason og Hermann Árnason sem jafnframt var kynnir.
Hermann Árnason stjórnar uppboði.


back to top