Ráðherra hlíti fyrirmælum Alþingis

„Ég gef mér það að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eins og ég og aðrir ráðherrar, hlíti fyrirmælum Alþingis. Menn geta verið á móti einstökum niðurstöðum Alþingis en ráðherrum ber skylda til að fara eftir því. Ég óttast alls ekki að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið leggi með einhverjum hætti steina í götu ferilsins þar sem við erum að hlíta fyrirmælum Alþingis,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um svar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til ESB, um að engum lögum verði hér breytt til að aðlagast ESB, nema aðild verði formlega samþykkt. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Össur segist ekki hafa kynnt sér svar ráðuneytisins til hlítar en það sé hluti af þeirri rýnivinnu sem nú fari fram í einstökum málaflokkum. Engar samningaviðræður hefjist fyrr en í haust, að lokinni allri rýnivinnu. Seinni hálfleikur þeirrar vinnu sé hafinn, þar sem m.a. sé verið að bera saman löggjöf ESB og Íslands og einangra þau atriði sem semja þarf sérstaklega um.


Össur segir að allur undirbúningur samningaviðræðna sé í fullkomnu samræmi við ályktun Alþingis og unnið sé eftir stífum leiðbeiningum um með hvaða hætti eigi að halda til haga sérstöðu Íslands. Slíkur undirbúningur feli ekki í sér breytingar á löggjöf eða uppbyggingu stofnana. Ekkert verði sett í löggjöf fyrr en fyrir liggi að þjóðin hafi samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu aðild að ESB. Spurður hvort svar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til ESB muni torvelda undirbúning samningaviðræðna telur Össur svo ekki vera.


Þarf ekki nýja greiðslustofnun í landbúnaði
Varðandi þau svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að engin áform séu um að breyta íslenskum lögum til að stofna greiðslustofnun í landbúnaði, segir Össur það hafa komið sér á óvart í rýnivinnunni að öll tormerki á aðild varðandi stofnanir séu ekki eins mikil og talið hafi verið. Þar sé um einfaldari hluti að ræða.
„Því var haldið fram af andstæðingum aðildar að setja þyrfti á fót þrjár nýjar stofnanir í landbúnaði. Þetta er rangt,“ segir Össur og bendir á að greiðslustofnun í landbúnaði, sem er hluti af löggjöf ESB, sé í raun til staðar hér í formi Matvælastofnunar. Einnig séu fordæmi fyrir því að svona starfsemi sé hluti af viðkomandi ráðuneyti, án þess að setja sérstaka stofnun á fót.


Hafa fylgt öllum fyrirmælum um samráð
„Viðhorf okkar í landbúnaðarmálum á þessu stigi eru engin einkaviðhorf mín. Þau hafa verið reifuð og mótuð í sérstökum samningahópi þar sem t.d. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur þrjá fulltrúa. Þau hafa verið afgreidd í ráðherranefnd, þar sem hvor stjórnarflokkurinn hefur tvo ráðherra. Þau hafa í síðasta lagi verið rædd og öllum spurningum svarað á sameiginlegum fundi utanríkisnefndar og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Þannig að öllum fyrirmælum um samráð hefur verið fylgt,“ segir Össur.


Hann segir að strangt til tekið þurfi hann ekki að taka tillit til einstakra ályktana í stofnunum stjórnarflokkanna, heldur nægi að fara eftir því „siglingakorti“ sem ríkisstjórnin hafi samþykkt í upphafi sinnar ferðar, þ.e. í stefnuyfirlýsingunni sem hafi verið samþykkt í stofnunum Samfylkingarinnar og VG.


Morgunblaðið 20. janúar 2011, Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is


back to top