Bændur sektaðir vegna brota á reglum um útivist nautgripa

Bændur á kúabúi á Norðurlandi eystra hafa gengist við því að hafa vanrækt að tryggja kúm á búinu lögbundna útiveru. Greiddu bændurnir sekt upp á fimmtíu þúsund krónur vegna brotsins. Þetta kemur fram á bbl.is.
Matvælastofnun kærði níu kúabú í nóvember síðastliðnum vegna brota á reglum um útivist. Hin málin átta eru enn í ferli hjá viðkomandi lögregluyfirvöldum, misjafnlega langt komin.
Unnið er að breytingum á aðbúnaðarreglugerð nautgripa og er útivist kúa eitt þeirra mála sem þar er undir. Halldór Runólfsson yfirdýralæknir segir það sína skoðun að eðlilegt sé að tryggja kúm útivist. „Það þarf ekki annað en að fylgjast með kúm þegar þeim er hleypt út á vorin til að sjá röksemdir fyrir því.“ Halldór segir jafnframt að áfram verði fylgst vel með útivist kúa.


back to top