Óskýrt hvernig fara á með lán bænda

Staða bænda er óskýr í nýju frumvarpi Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, um uppgjör vegna myntkörfulána. Frumvarpið miðar fyrst og fremst að því að taka á skuldamálum einstaklinga en ekki fyrirtækja. Ráðherra mælir fyrir frumvarpinu á Alþingi í dag.
„Það er frekar óskýrt í frumvarpinu hvernig taka á á lánamálum bænda,“ sagði Elías Blöndal, lögfræðingur Bændasamtakanna, en margir bændur eru með myntkörfulán.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Elías sagði að bændur hefðu talsverða sérstöðu. Minnihluti þeirra væri með rekstur búanna í einkahlutafélagaformi. Flestir rækju þetta á eigin kennitölu. Þeir hefðu tekið lán til kaupa á atvinnutækjum, vinnuvélum, jarðakaupalán, lán til að kaupa kvóta, rekstrarlán og fleira. Elías sagði að í frumvarpinu væri reynt að taka lögaðila út fyrir sviga og því vaknaði sú spurning hvernig löggjafinn ætlaði sér að fara með lán bænda.


„Það er allt að veði hjá bændum, bæði heimilið og fyrirtækið. Þeir stunda sinn atvinnurekstur á heimili sínu og þar verður ekki stundaður neinn annar atvinnurekstur. Það er alveg ljóst að bændur lúta ekki sömu lögmálum og fyrirtækin sem talað er um í frumvarpinu.“


Í frumvarpinu eru m.a. færð þau rök fyrir því að lán fyrirtækja eigi ekki að falla undir ákvæði þess, að fyrirtæki hafi möguleika á að kaupa sér gjaldeyrisvarnir eða séu með útflutningstekjur í erlendri mynt og geti þannig tryggt stöðu sína gagnvart gengisfalli. Elías segir þessi rök ekki eiga við bændur. Engin dæmi séu til um að bændur hafi keypt sér gengisvarnir og þeir séu ekki með tekjur í erlendri mynt.


Elías sagði að nokkuð margir bændur hefðu tekið myntkörfulán. „Það er líka til í dæminu að lánum hafi verið breytt í erlenda mynt, með svokölluðum myntbreytingasamningum. Í þeim tilvikum tóku menn lán í íslenskum krónum og síðan er skilmálum breytt á lánstímanum og láninu breytt yfir í erlenda mynt. Samkvæmt orðanna hljóðan er þetta ekki gengistryggt lán samkvæmt þessu frumvarpi. Þetta þarf að skýra.“


Elías sagðist ekki sjá að sú uppgjörsregla sem væri að finna í frumvarpinu bætti miklu nýju við það sem legið hefði fyrir eftir dóm Hæstaréttar. Það lægi t.d. ekki fyrir hvernig ætti að vaxtareikna mismun á þeim greiðslum sem raunverulega fóru fram og ofgreiðslum eða vangreiðslum.

Morgunblaðið 16. nóvember 2010, Egill Ólafsson egol@mbl.is


Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu,lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna  banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara.


back to top