Óljóst hvar mál standa

Samþykkt var í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis í gær að stefna að opnum fundum um aðildarferli og samningsmarkmið í landbúnaðarmálum, í viðræðunum við ESB. Í Morgunblaðinu í dag segir, að tillagan, sem borin var upp af Sigurði Inga Jóhannssyni, Framsóknarflokki, hljóði upp á að haldnir skuli a.m.k. tveir fundir og verði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra boðaður á annan þeirra en Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á hinn.
Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndarformaður lagði einnig til að kannað yrði hvort halda mætti fundina sameiginlega með utanríkismálanefnd, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði mælt fyrir svipaðri tillögu.

Einnig var fundað í utanríkismálanefnd í gær og afgreiðslu tillögunnar frestað öðru sinni, að sögn Sigmundar Davíðs, þar sem Árni Þór Sigurðsson nefndarformaður lætur kanna hvernig slíkt samræmist þingsköpum og hvenær er rétt að halda slíka fundi með tilliti til þess hvenær verður hreyfing á Evrópumálunum.
Fulltrúar Bændasamtakanna mættu á fund sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í gær og að sögn Sigurðar Inga kom fram hjá þeim að enginn vissi hvar undirbúningur samningaviðræðnanna um landbúnaðarmál væri staddur, hver ætti að móta samningsmarkmiðin eða hvort einhver væri að því.


back to top