Óhætt að viðra búpening ef rignt hefur frá síðasta öskufalli

Eins og við sögðum frá í dag hefur verið öskufall undir Eyjafjöllum í gær og í dag. Það hefur hins vegar verið lítið eða innan við millimetra auk þess sem rignt hefur á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Níels Óskarssyni hjá Jarðvísindastofnun Háskólans var mældur flúor í yfirborðsvatni frá Sólheimum að Markarfljóti fyrir síðustu helgi. Þær mælingar sýndu flúorinnihald upp á 4-10 mg/l (ppm). Í rennandi vatni fannst ekki flúor.
Samkvæmt þessu virðist ekki ástæða til þess að halda búpeningi inni af þessum sökum, þ.e. þegar ekki er öskufall og rignt hefur eftir síðasta öskufall. Áfram þarf þó að passa vel upp á að brynna með rennandi vatni, þ.e. forðast að búpeningur komist í yfirborðsvatn.
Þar sem ekki er neitt fínefni á stráum ætti að vera í lagi að viðra búpening. Þetta má kanna t.d. með því að strjúka strá með pappírsþurrku. Að sjálfsögðu er ekki skynsamlegt að beita ef ekki hefur rignt frá síðasta öskufalli. Þá ættu menn að hafa í huga að eiturahrif flúors fara eftir líkamsþunga þannig að lömbum og öðru ungviði er hættara en fullorðnum gripum.


back to top