Aska fellur á ný undir Eyjafjöllum

Talsvert öskufall hefur verið frá því í gær undir Eyjafjöllum. Mest aska virðist hafa fallið frá Þorvaldseyri að Drangshlíð en þó virðist sem hlutfallslega hafi fallið meiri aska austast á svæðinu en þegar ósköpin dundu yfir í upphafi goss.
Finnur Tryggvason á Rauðafelli segir að þetta sé skelfilegt. Mökkurinn sé aftur kominn og allt svart yfir að líta, eins og tjara, en væta fylgdi öskufallinu í gær. Finnur segir að gjóskan sem nú fellur sé mun grófari en sú í upphafi og miklu dekkri og spáin óhagstæð fyrir næstu daga. Veðurstofan spáir öskufalli í austur og suðaustur frá eldstöðinni næstu daga.

Ekki sjást merki um að eldgosinu í Eyjafjallajökli sé að ljúka. Þetta er mat vísindamanna hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofu. Kvikustreymi og gosmökkur hefur verið með svipuðum hætti og undanfarna sólarhringa og hraun heldur áfram að renna til norðurs í upptökum Gígjökuls. Af gufu sem leggur upp af Gígjökli má ráða að hraunið sé komið í hallann til norðurs.


Einar Kjartansson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, telur að mun meira hraunrennsli sé frá eldstöðinni en talið hefur verið. Þaðan komi um 50 tonn af hrauni á sekúndu að það reiknar hann út frá ísbræðslunni.


 


back to top